Akureyrarbær hefur á undanförnum árum unnið að ótal verkefnum með því markmiði að gera bæinn umhverfisvænni og auðvelda íbúum að tileinka sér grænni lífstíl. Margir bæjarbúar hafa verið duglegir að afkola sig og hróður bæjarins í umhverfismálum hefur farið víða, bæði hérlendis og erlendis. Enn eru þó alltof margir að draga lappirnar og spurning hvort eftirfarandi pælingar eigi við þig.
Spurning: af hverju ertu ekki duglegri að flokka og endurvinna?
Alltof algengt svar: Æ, það er svo erfitt að vita hvert ruslið á að fara og svona.
Á Akureyri er aðgengilegt móttökukerfi fyrir allskonar flokkun og endurvinnslu.
Spurning: af hverju setur þú lífrænt rusl í urðun með tilheyrandi loftslagsáhrifum?
Alltof algengt svar: Æ, það er svo flókið og mikið vesen að jarðgera þetta sjálfur.
Á Akureyri geta allir sett í grænan dall sem fer í sameiginlega jarðgerð og býr til gæðaáburð með gríðarlegum loftlagsávinningi.
Spurning: Af hverju fer öll steikingar- og afgangs matarolía úr eldhúsinu þínu beint í vaskinn?
Alltof algengt svar: Æi, ég veit ekkert hvað átti að gera við þetta.
Á Akureyri geta allir fengið einfalda trekt til að safna afgangsolíu sem safnað er til að framleiða umhverfisvænasta lífdísil í heimi hjá Orkey.
Spurning: Af hverju skiptir þú ekki yfir í metanbíl?
Alltof algengt svar: Æ, þeir eru svo dýrir og svo er ekkert til neitt metan hér.
Metanbílar eru ódýrari, metanið er líka ódýrara svo er það framleitt á Akureyri
Spurning: Af hverju kaupir þú ekki rafbíl?
Alltof algengt svar: Æ, hvar á að fá auka rafmagn þegar hvergi má virkja og svo vantar hleðslustöðvar.
Á Akureyri rís nú ný virkjun í Glerá sem dugar fyrir 7000 rafbíla og svo er búið að setja upp hraðhleðslustöðvar á Akureyri og allt í kring.
Spurning: Af hverju notar þú ekki bílinn minna?
Alltof algengt svar: Æ, á ég að labba í slyddu og snjó tugi kílómetra í og úr vinnu?
Á Akureyri er yfirleitt frábært veður og ókeypis í metanstrætó. Svo eru reyndar ekki nema 6 km endanna á milli í bænum og flestir búa innan við 3 km frá vinnustað.
Spurning: Af hverju kolefnisjafnar þú ekki þessar flugferðir til Reykjavíkur?
Alltof algengt svar: Ég get ekki bara plantað skógi búandi í blokk og með engan sumarbústað.
Akureyri býður upp á einfaldar lausnir með flugskógi þar sem hægt er að senda beiðni á Vistorku (ghs@vistorka.is) til að setja niður kolefnisbindandi tré upp við Glerárahauga
Spurning: Af hverju gerir þú ekki meira til að sporna við loftlagsbreytingum og óæskilegri mengun?
Getur verið að rétta svarið hjá alltof mörgum sé í raun? ÉG BARA NENNI ÞVÍ EKKI
UMMÆLI