Gæludýr.is

Á ég að kjósa?

Anna Fanney Stefánsdóttir skrifar:

Ég er alveg glæný í pólitíkinni. Ég hef ekkert alltaf haft þannig brennandi áhuga á pólitík en hef að sjálfsögðu fylgst með því sem er að gerast, kynnt mér í grófum dráttum stefnu flokkanna fyrir kosningar og látið mig varða þau mál sem snúa að mér. Margir eru hissa á þeirri ákvörðun minni að fara í bæjarpólitíkina á Akureyri en síðan ég tók ákvörðun hef ég lært svo margt, kynnst bænum mínum á allt annan hátt. Ég hef séð hvað hann er ótrúlega góður en samt margt sem þarf að bæta og breyta til að hann verði frábær.

Frá því að ég mátti kjósa, hef ég alltaf nýtt kosningarétt minn. Margir hugsa kannski:  „æ ég nenni nú ekki að fara að kjósa, mitt atkvæði skiptir engu máli, það hlustar enginn á mig, það breytir engu þó ég kjósi ekki.“ Jú þitt atkvæði skiptir máli.

Ef horft er aftur í tímann, aftur um 20 ár, má finna upplýsingar um að 8-9.500 manns nýttu kosningaréttinn sinn. Árið 1998 voru það 80,8% Akureyringa en árið 2014 voru það 67,1% Akureyringa. 67% er rétt rúmlega helmingur. Sem þýðir að 33% fólks telur það hugsanlega litlu máli skipta eða ekki fyrirhafnarinnar virði.  Ef þessi 33% hefðu nýtt kosningarétt sinn hefðu niðurstöður geta orðið allt aðrar. Kannski bara nákvæmlega eins og fólkið hefði viljað.

Megin ástæða fyrir því að ég nýti alltaf kosningaréttinn minn er aðallega svo ég hafi rétt á að tjá mig um hvernig fór ef það fór ekki eins og ég vildi eða hafa skoðanir á því sem betur má fara.

Verum stolt af því að vera Íslendingar og mega kjósa, verum stolt af því að hafa eitthvað að segja um það sem gerist í okkar samfélagi, 26. maí verður fallegur dagur. Setjum okkur í kosningagírinn, tökum fram góða skapið og skundum á kjörstað. Svo er auðvitað tilvalið að kíkja í kosningakaffi/kosningavöku og hafa gaman að þessu, það kostar ekkert 🙂

Anna Fanney Stefánsdóttir skipar 6. sæti á L-listanum á Akureyri

Sambíó

UMMÆLI