NTC

Ef 35% af greiðslunni fyrir gosdósina rynni til VISA?

Ef 35% af greiðslunni fyrir gosdósina rynni til VISA?

Friðrik Þór Snorrason skrifar

Í lok janúar sl. opnuðum við Verna appið fyrir öll.  Það þýðir að hver sem er getur nú notað þá virðisaukandi þjónustumöguleika sem þar eru í boði án þess að þurfa að kaupa fyrst af okkur bílatryggingu. Þannig geta viðskiptavinir sótt tilboð í bifreiðaskoðun, fundið hvar sé ódýrast að fylla á tankinn, og greitt fyrir bílastæði án allra aukgjalda. Markmiðið er að búa til app sem heldur utan um allar þínar þarfir þegar kemur að bílnum og þannig einfalda þér að nota hann dags daglega.

Lagt án allra aukagjalda

Íslendingar hafa tekið þessari breytingu fagnandi og hefur notendendahópurinn tvöfaldast síðan appið var opnað fyrir öll. Eins og við bjuggumst við hefur vinsælasta þjónustan verið að nýta Verna appið til að leggja bílnum. Ólíkt því sem gerist hjá flestum öðrum bílastæðaöppum rukkar Verna viðskiptavini ekkert aukalega fyrir að nýta appið til að greiða fyrir bílastæði! Í tilfelli Parka og EasyPark greiða notendur annað hvort stakt þjónustugjald á bilinu 86 til 95 kr. í hvert sinn sem bílnum er lagt, eða fast mánaðarlegt gjald upp á 499 til 526 kr., en mánaðarleg áskrift hentar þeim sem leggja bílnum í gjaldskyld stæði oftar en fimm sinnum á mánuði.

Færslukostnaðurinn nemur tugum prósenta!🥶

Ef viðskiptavinir Verna hefðu í staðinn nýtt bílastæðaöpp samkeppnisaðila til að greiða fyrir bílastæðin hefði færslukostnaðurinn sem rennur til þeirra numið tugum prósenta af heildarkostnaðinum við að leggja. Þannig má áætla að færslugjöld samkeppnisaðila hefðu hækkað kostnað við að leggja um 24%, en á Akureyri hefði kostnaðaraukning verið sérstaklega mikil eða nærri 60%. Í tilfelli Akureyringa hefði það þýtt að 37,5% af kostnaði við að leggja hefði runnið til þessara þjónustuveitenda. Myndum við sætta okkur við að 37,5% af kostnaðinum við gosdós eða mjólkurpott rynni til VISA eða MasterCard?[1] Jafnvel þóknanir fjármálastofnana ná ekki þessum hæðum, en til samanburðar er færslukostnaður greiðslukorta mun lægri eða í kringum 1% af hverri færslu.[2]

Hve mikið hækka færslugjöld appa kostnaðinn við að leggja?

40% dýrara að leggja bílnum í Reykjavík en á Akureyri

Áhugavert er að kafa ofan í tölfræði um notkun á bílastæðavirkni appsins frá því hún fór í loftið.  Þar má m.a. sjá að Reykvíkingar leggja bílnum að jafnaði lengur í gjaldskyld stæði en Akureyringar. Þannig lögðu viðskiptavinir Verna bílnum í Reykjavík að meðaltali í 2 klst og 8 mínútur á meðan Akureyringar lögðu bílnum í 55 mínútur að meðaltali. Þar sem hver mínúta í gjaldskyldu stæðu kostar að jafnaði yfir 40% meira í Reykjavík en á Akureyri, er meðal kostnaðurinn við að leggja bílnum í Reykjavik 444 kr. en á Akureyri í kringum 134 kr. Tekið skal fram að hér er eingöngu verið að horfa til götustæða en ekki bílastæðahúsa, sem þýðir að tölurnar eru samanburðarhæfar.

Meðal kostnaður við að leggja í stæði á Akureyri vs Reykjavík

Dæmi eru um viðskiptavini sem greiða hátt í 40 þús. kr. á mánuði í bílastæðagjöld. Búast má við að þessi upphæð hækki þegar Verna byrjar að bjóða viðskiptavinum að greiða fyrir stæði í bílastæðahúsum Reykjavíkurborgar. Kosturinn fyrir þessa viðskiptavini Verna er að appið okkar leggur engin aukagjöld á bílastæðagjöldin þannig að kostnaðurinn við lagninguna er sambærilegur við að greiða í stöðumæli.

Gjaldskylda mun stóraukast á næstu árum

Þessa dagana spretta upp gjaldskyld bílastæði um allt land. Vinsælir ferðamannastaðir hafa í auknum mæli tekið að rukka fyrir notkun á bílastæðum, sem er skiljanlegt enda er kostnaðarsamt að koma upp bílastæðum til að geta tekið á móti ferðamönnum. Í höfuðborginni færist einnig í vöxt að einkaaðilar séu teknir að rukka fyrir bílastæðin sem þeir bjóða upp á, bæði fyrir götustæði sem og stæði í bílastæðahúsum (sbr. Höfðatorg). Þess verður einnig ekki langt að bíða að íþróttafélög byrji að rukka fyrir bílastæði við eigin leikvanga. Markmið þeirra væri tvíþætt. Annars vegar að skapa sér nýja tekjulind og hins vegar að draga úr umferð við íþróttaleikvanga. Víða erlendis þekkist það varla að áhorfendur mæti á völlinn á einkabílum eða að aðstandendur skutli krökkum og unglingum þó ekki sé nema nokkur hundruð metra á æfingu, í stað þess að hjóla eða ganga. Ég ætla að leyfa mér að spá því að ekki séu mörg ár í að Kringlan og Smáralind hefji gjaldtöku fyrir bílastæðin við verslunarmiðstöðvarnar eins og þekkist erlendis. Loks má nefna að Isavia hefur boðað að tekin verði upp gjaldskylda við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Því mun halda áfram að fækka þeim stöðum þar sem bíleigendur geta lagt bílum sínum án þess að greiða fyrir það gjald.

Munu neytendur þurfa tugi lagningar-appa?

Til að koma upp gjaldskyldu á einkareknum bílastæðum þarf að koma upp myndgreiningarbúnaði til að nema þegar ekið er inn á stæðin og aftur út af þeim, og jafnvel stöðumælavörðum til að hafa eftirlit með því hvort greitt hafi verið fyrir að leggja í viðkomandi stæði.

Vandinn er að í allmörgum tilfellum hefur tæknilausnin kallað á svokallað “vendor lock-in” sem lýsir sér þannig að eingöngu er hægt að nota app frá framleiðanda viðkomandi myndgreiningarlausnar til að greiða fyrir stæðið.  Dæmi um slíka stöðu er t.d. Höfðatorg þar sem viðskiptavinir geta eingöngu notað eina lausn til að greiða fyrir stæðin. Í hugum neytenda náði svo fáranleikinn í þessum efnum ákveðnu hámarki í bílastæðahúsunum við Hafnartorg og Hörpuna þar sem viðskiptavinir gátu keyrt inn hjá bílastæðunum við Hafnartorg og þaðan beint yfir í bílastæðin við Hörpuna, en hægt er að keyra á milli bílstæðanna neðanjarðar. Fjölmörg dæmi eru um að viðskiptavinir hafi fengið rukkun frá báðum bílastæðahúsunum. Það sér hins vegar fyrir endann á þessu vandamáli þar sem bílastæðin munu fljótlega færast á hendur eins þjónustuaðila.  Það er hins vegar ekki ljóst hvort öllum app þjónustuveitendum verði leyft að þjónusta svæðin, jafnvel þótt að annar eigandi bílastæðanna sé opinbert rekstrarfélag.

Ef þessi þróun heldur áfram munu neytendur á Íslandi þurfa að vera með mörg mismunandi öpp eftir því hvar þeir vilja leggja, jafnvel tugi appa (í dag eru að minnsta kosti sex öpp í notkun). Mun skynsamlegra væri ef eigendur bílastæða gerðu þá kröfu að tækniþjónustuveitendur sem þeir velja bjóði upp á opin þjónustuskil (e. APIs), þannig að hver sá sem uppfyllir ákveðin gæðaskilyrði, geti þjónustað bílastæðin með lagningar-öppum. Reykjavíkurborg og Akureyrabær bjóða lagningaröppum upp á þjónustuskil, en þó með mismunandi hætti.

Kaffíska Isavia

Dæmi um mismunun hjá opinberum rekstraraðila bílastæða er að finna hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli. Vandinn þar er í grunninn tvíþættur. Annars vegar heimilar Isavia app þjónustuveitendum ekki að rukka fyrir bílastæðin með sama hætti og app Isavia gerir (sem leiðir til skerðingar á þjónustu). Hins vegar ætlast Isavia til þess að app þjónustuveitendur leggi færsluhirðagjöld sem greidd eru til Teya, Rapyd eða Nets, ofan á gjaldskrá Isavia, ólíkt því sem gerist ef greitt er með einum af eigin greiðsluleiðum Isavia. M.ö.o., Isavia vill fá meira fyrir sinn snúð ef greitt er með öppum frá Parka, EasyPark eða Verna, en ef viðskiptavinir Isavia greiða með appi Isavia, á heimasíðu Isavia eða í greiðsluvél við flugvöllinn. Allar þessar greiðsluleiðir nota sambærileg þjónustuskil (e. APIs) til að framkvæma bókanir og greiðslur fyrir bílastæði. Rökin fyrir því að kostnaðurinn eigi að vera meiri ef greitt er með öppum annarra mögulegra þjónustuveitenda eru því engin. Ef þessi háttur verður einnig hafður á við flugvöllinn á Akureyri eða Egilsstöðum, geta viðskiptavinir búist við því að kostnaðurinn við stæðin þar verði enn meiri en ef greitt er með öðrum öppum en appi Isavia.

Höfundur er framkvæmdastjóri Verna


[1] Forsendur: Viðskiptavinir sem leggja oftar en fimm sinnum í mánuði hefðu verið með mánaðaráskrift, og hinir hafi greitt stakt færslugjald í hvert sinn sem bílnum var lagt.

[2] Kostnaður vegna þjónustu færsluhirða er falinn fyrir neytendum í verðlagningu þjónustu, en er að jafnaði i kringum 0,8-1,5% af hverri færslu.

Sambíó

UMMÆLI