NTC

Dýraníð í Öxnadal


lamb
Fjallað hefur verið um það á vef Morgunblaðsins og Rúv að grunur sé um að framið hafi verið dýraníð í Öxnadal aðra helgina í september. Verið var að smala fé af fjalli og varð eitt lambið örmagna og komst því ekki lengra.  Á vef Morgunblaðsins er meintu dýraníði lýst á þennan hátt: ,,Í stað þess að bera lambið yfir veg­inn eða taka það upp í bíl lyfti einn þeirra sem annaðist smöl­un­ina lamb­inu upp og kastaði því frá sér áður en hann gekk í skrokk á því, sparkaði í það og stappaði á hálsi þess. Var fólki mjög brugðið en ekki er vitað til þss að neinn sem varð vitni að níðinu hafi til­kynnt málið til yf­ir­valda.“

Sama dag fannst lamað lamb á svæðinu og óskaði dýralæknir í héraðinu eftir að fá að aflífa dýrið og kryfja. Eigandi lambsins varð ekki við þeirri ósk og aflífaði lambið sjálfur. Því hafi ekki verið hægt að sanna að um sama lamb hafi verið að ræða.

Einnig segir í frétt Mbl.is að haft hafi verið samband við marga í sveitinni vegna málsins en enginn hafi viljað tjá sig um það undir nafni og þar á meðal eigandi lambsins. Þó virðist vera að flest allir viti af málinu. Sá sem grunaður er um ódæðið er sagður einn þeirra sem réð sig í vinnu hjá Hörgarsveit við smölunina. Þar sem enginn hefur stigið fram og tilkynnt um ofbeldið hefur lögregla ekki getað aðhafst neitt í málinu.

Oddviti Hörgársveitar, Axel Grettison, segir svo í samtali við Rúv að enginn í sveitastjórn hafi orðið vitni að málinu og það eina sem hægt sé að gera að svo stöddu er að borga smalanum ekki fyrir verkið.

Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir á Akureyri, staðfesti að málið hafi komið til hans en þar sem hann hafi ekki fengið hræ dýrsins, né að nein tilkynning hafi verið send um málið til Matvælastofnunar, séu hendur hans bundnar. Hann hafi þó reynt að afla sér upplýsinga um málið síðan það kom upp og segir hann því ekki lokið.

Matvælastofnun hefur nú óskað eftir vitnum af atvikinu og tekur það fram að hægt sé að halda nafnleynd fyrir öðrum en MAST og lögreglu. Tilkynna má beint til lögreglu eða á heimsíðu Matvælastofnunar.

Sambíó

UMMÆLI