Druslugangan á Akureyri á laugardaginn – Hvetja alla til að skila skömminni og ganga meðHin árlega Drusluganga verður gengin frá Akureyrarkirkju á laugardaginn. Allir hvattir til að mæta og sýna samstöðu.

Druslugangan á Akureyri á laugardaginn – Hvetja alla til að skila skömminni og ganga með

Á laugardaginn n.k. verður Druslugangan gengin á Akureyri. Druslugangan hefur verið árviss viðburður hér á landi frá árinu 2011 en megintilgangur göngunnar er að standa upp fyrir þolendum kynferðisofbeldis. Þess má geta að í fyrra var fjölmennasta Druslugangan á Akureyri til þessa. Með göngunni er skömminni skilað þangað sem hún á heima þar sem markmiðið er að útrýma ranghugmyndum um að klæðnaður þolenda, fas þeirra og hegðun, bjóði upp á ofbeldi. Burt séð frá klæðaburði eiga allir rétt á því að mörk þeirra séu virt og að fólk geti verið öruggt og frjálst. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt.

Glæsileg Drusludagskrá á Ráðhústorginu á laugardaginn
Gengið verður frá Akureyrarkirkju kl. 14.00 á laugardaginn. Þaðan verður gengið niður Gilið og göngugötuna að Ráðhústorginu þar sem verður sérstök drusludagskrá. Meðal þeirra sem koma fram eru tónlistarmenn og konur, Villi Vandræðaskáld, Birkir Blær og Birna Eyfjörð. Ásamt því að Hilda Jana, fjölmiðlakona og bæjarfulltrúi mun flytja hugvekju.

Mynd frá Druslugöngunni 2016. Ofbeldi er aldrei í lagi.

Druslupepp í Rósenborg á föstudaginn kl. 20 í Rósenborg
Svokallað Druslupepp verður haldið í ár, líkt og í fyrra, með pompi og prakt. Að þessu sinni verður það á 4. hæð í Rósenborg en ekki á Græna Hattinum líkt og síðasta sumar. Kvöldið verður haldið á föstudaginn, 27. júlí kl. 20, þar sem Stefán Elí mun halda uppi stemmningunni meðan hægt verður að föndra sitt eigið skilti fyrir gönguna og kaupa sérstakan Drusluvarning sem hefur slegið í gegn síðustu ár.

Mikil vinna á bakvið skipulagninguna
Undirbúningurinn fyrir viðburð sem þennan er mikill og margt sem þarf að hugsa að. Embla Blöndal, einn af skipuleggjendum viðburðarins, segir undirbúninginn hafa gengið misvel en nú sé heildarmyndin farin að skýrast og allt farið að líta mjög vel út en allt er þetta unnið í sjálfboðastarfi.
,,Þetta er mikil vinna en við erum með virkilega öflugan hóp, eða í kringum 10 stelpur og konur, sem allar eru rosa til í að gera allt og láta þetta ganga vel,“ segir Embla Blöndal í samtali við Kaffið.

Skipuleggjendur hvetja alla til þess að mæta á laugardaginn og sýna samstöðu gegn ofbeldi. Þetta varðar okkur öll!
Frá stjórnendum:  

Druslugangan er okkar. Hún er vopn okkar gegn óréttlæti og ofbeldi. Sama hvort þú ert þolandi, aðstandandi, eða einfaldlega manneskja sem sættir sig ekki við samfélag sem með þögn sinni og aðgerðarleysi samþykkir kynferðisofbeldi. 

Það hefur sýnt sig með #metoo umræðunni að kynferðisofbeldi á sér stað í öllum samfélagshópum og á sér ólíkar birtingarmyndir. Við skulum ganga saman druslugöngu og standa saman gegn kynferðisofbeldi !

Við hvetjum alla til að sýna samstöðu, taka afstöðu, skila skömminni og ganga druslugönguna með okkur.
Endilega dreifið og deilið sem víðast !

Sameinumst um að Druslugangan í ár verði sú fjölmennasta til þessa og og stöndum saman gegn kynferðisofbeldi 

Krefjumst breytinga og bætts samfélags !

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó