Skipulagsráð Akureyrarbæjar kynnti nýverið þrenn drög að breytingum á deiliskipulagi: Naust III ( lóð Minjasafnsins ), verksmiðjusvæðið á Gleráreyrum og Holtahverfi. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.
Í fyrstu tillögu að breytingum á Naust III er gert ráð fyrir 7 einbýlishúsalóðum, ásamt 2 par- og 5 raðhúsalóðum á svæðinu. Svæðið er skilgreint sem íbúðabyggð í aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 og verður beint framhald af Naustahverfi.
Skipulaginu hefur verið skipt í tvo áfanga en gamli bærinn Naust III fær að vera á núverandi staðsetningu þar til varanlegur staður finnst á Akureyri. Hægt er að sjá tillögu að breytingunni hér.
Önnur tillaga varðar breytingar í kringum Glerártorg þar sem hugmynd er að uppbyggingu íbúðabygginga nálægt verslunarmiðstöðinni. Skipulagslýsinguna má finna hérna og uppdráttinn hér.
Með breytingunum verður heimilt að byggja íbúðarhúsnæði ásamt þjónustu og verslunarrýmum á fyrstu tveimur hæðum húsanna. Lóðirnar eru á Gleráreyrum 2-10 en þar er leyfileg hámarkshæð bygginga frá 24 metrum í 30 metra. Gert er ráð fyrir rúmlega 100-120 íbúðum í skipulaginu.
Þriðja tillaga er sú að heimilt verði að byggja lífsgæðikjarna innan vestari reit íbúðabyggðar Þursaholts. Þá er aðallega verið að hugsa um húsnæði fyrir eldra fólk þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt búsetuform.
Skipulagslýsingu má nálgast hér og drögin hér.
Akureyrabær bendir íbúum og áhugasömum á að kynna sér tillögurnar og senda inn ábendingar í gegnum Skipulagsgátt. Frestur til þess að senda inn ábendingar er til 12. september næstkomandi.
UMMÆLI