Gæludýr.is

Dreymir um að spila með Barcelona

Dreymir um að spila með Barcelona

Mynd: NordicPhotos

Albert Guðmundsson

Albert Guðmundsson er 19 ára og einn efnilegasti knattspyrnumaður landsins. Hann hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Íslands og gekk í raðir hollenska liðsins PSV Eindhoven sumarið 2015. Þar á undan var hann á mála hjá öðru hollensku liði, Heerenveen. Albert hefur borið fyrirliðabandið hjá varaliði PSV, Jong PSV, í undanförnum leikjum liðsins og var valinn í Meistaradeildarhópinn hjá aðalliði PSV í haust. Það lítur því allt út fyrir að Albert sé verulega nálægt því að fá tækifæri með aðalliðinu.

Albert á ættir að rekja til Akureyrar en hann er sonur Akureyringsins Guðmundar Benediktssonar, fyrrum knattspyrnumanns og knattspyrnulýsanda. Albert hefur því ekki langt að sækja knattspyrnuhæfileikana en móðir hans, Kristbjörg Ingadóttir á einnig farsælan knattspyrnuferil að baki. Langafi Alberts í móðurætt og alnafni er svo Albert Guðmundsson, einn þekktasti atvinnumaður í knattspyrnu sem við Íslendingar höfum átt.

Aðspurður hvort það fylgi því ekki pressa að bera nafn afa síns og koma af svo mikilli fótboltafjölskyldu segir hann svo ekki vera. ,,Ég finn ekkert fyrir þeirri pressu nei, eina sem ég finn fyrir er pressan og krafan sem ég geri á sjálfan mig en hún er mikilvæg og hefur komið mér langt.“  Eins með og flesta sem ná langt hljóta fyrirmyndir af hafa sett sitt mark á Albert. Þegar hann er spurður hverjar séu fyrirmyndirnar í hans lífi er svarið einfalt. ,,Ég verð að segja foreldrar mínir, bæði í lífinu og boltanum. Svo var Beckham í miklu uppahaldi þegar ég var yngri en núna fylgist ég mikið með Iniesta og Modric.

Albert byrjaði að æfa knattspyrnu mjög ungur með KR en hann segist hafa haft lítið haft um það að segja hvaða lið hafi orðið fyrir valinu á þeim tíma þar sem hann bjó nánast í næsta húsi við Frostaskjól, ,,sem betur fer því í dag er ég mikill KR-ingur og minn tími í KR var mjög skemmtilegur,“ segir hann. Albert æfði með KR öll sín uppvaxtarár og hafði nýlokið við grunnskóla þegar hann gerði samning við Heerenveen nýorðinn 16 ára. Stuttu síðar flutti hann einn út til Hollands. Hann segir að það hafi komið á óvart hvað það hafi verið lítið mál að flytja svo ungur að heiman, til annars lands. Það hafi þó auðveldað það til muna hvað netsambandið er gott og flugið stutt.

Það var aldrei spurning hvort Albert færi út í atvinnumennsku, heldur frekar hvenær. ,,Síðan ég man eftir mer hef ég alltaf ætlað mér að verða atvinnumaður og það var aldrei neinn vafi á því, vonandi næ ég bara að stunda það sem lengst. En það var ekkert eitt moment sem kom mér út, það voru lið búin að vera fylgjast með mér í dálítinn tíma og þarna var komið að mér að velja.“

Albert segir töluverðan mun á því að vera hjá Heerenveen og PSV. ,,Það er mun meiri pressa sett á mann hér og ef maður stendur sig ekki í einum leik eru þeir ekki lengi að kippa þér út úr liðinu þar sem er mikil samkeppni. Sem er ekkert skrítið þar sem þetta er lið sem spilar í Meistaradeildinni árlega og þarf að performa alltaf.“ 

Degi í lífi atvinnumanns má skipta í tvennt. Venjulegur dagur annars vegar og leikdagur hins vegar. ,,Á venjulegum degi vakna ég rétt fyrir átta og borða í rólegheitum áður eg þarf að vera mættur á æfingu kl 9. Æfum svo kl. 10, borðum og æfum aftur og þá er maður kannski kominn heim milli 4-5 bara svipað eins og skrifstofuvinna. En auðvitað æfum við ekki alltaf tvisvar. Þá eru dagarnir styttri. Leikdagur er hins vegar mjög rólegur fram að leik sem er yfirleitt kl.20 hjá okkur. Ég vakna fyrir 10 á morgnana og borða góðan morgunmat og fer svo í göngutúr. Svo borða ég aftur í hádeginu og þá yfirleitt lax. Svo legg ég mig yfirleitt áður en ég mæti í pasta með liðinu fyrir leik.“

Það er því nóg að gera hjá honum í Hollandi en aðspurður hvert hann stefni núna, kominn á þennan stað, segist hann einfaldlega stefna á toppinn. Hann segir það enga spurningu að það lið sem sem hann myndi mest vilja með, spila sé Barcelona og setur hann því markið hátt. Það er nokkuð ljóst að það verður spennandi að fylgjast með þessum metnaðarfulla knattspyrnumanni á næstu mánuðum og árum.

Sambíó

UMMÆLI