Birna Baldursdóttir tryggði Ásynjum sigur á Ynjum í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld en það stóð tæpt því sigurmarkið kom sex sekúndum fyrir leikslok.
Leiksins var beðið með mikilli eftirvæntingu en bæði lið eru á vegum Skautafélags Akureyrar, Ynjur eru yngra lið SA og Ásynjur eldra lið SA.
Ungu stelpurnar byrjuðu betur því Silvía Björgvinsdóttir og April Orongan komu Ynjum í 2-0 snemma leiks. Guðrún Viðarsdóttir minnkaði muninn á lokasekúndum fyrsta leikhluta og þannig hélst staðan allt þar til í þriðja leikhluta því ekkert var skorað í öðrum leikhluta.
Anna Ágústsdóttir jafnaði metin fyrir Ásynjur um miðbik þriðja leikhluta og reynsluboltarnir náðu svo inn sigurmarkinu eftir 59 mínútur og 54 sekúndur. Alvöru dramatík.
Bæði lið hafa nú tapað einum leik á Íslandsmótinu en þessi tvö lið virðast vera í sérflokki í Hertz-deild kvenna þennan veturinn.
Markaskorarar Ynja: Silvía Björgvinsdóttir 1, April Orongan 1.
Markaskorarar Ásynja: Guðrún Viðarsdóttir 1, Anna Ágústsdóttir 1, Birna Baldursdóttir 1.
UMMÆLI