Dr. Romain Francois R Chuffart nýr Nansen prófessor við HA

Dr. Romain Francois R Chuffart nýr Nansen prófessor við HA

Dr. Romain Francois R Chuffart tekur stöðu gestaprófessors í heimskautafræði við Háskólann á Akureyri. Gestaprófessorsstaðan er kennd við Fridtjof Nansen, hinn kunna norska heimskautafræðing og húmanista, og er veitt framúrskarandi vísindamanni sem starfar að málefnum er tengjast lagalegum, hagrænum, félagslegum og náttúrufarslegum aðstæðum á norðurslóðum. Ráðið er í stöðuna til eins árs í senn, samkvæmt samkomulagi um samstarf á sviði heimskautafræða og rannsókna á milli Íslands og Noregs.

Romain gegnir stöðu forstöðumanns og framkvæmdastjóra Arctic Institute- Centre for Circupolar Security Studies (TAI) sem er opinber hugveita sem upplýsir um stefnumótun á Norðurslóðum. Auk þess hefur hann gengt stöðu aðjúnkts í heimskautarétti við Lagadeild HA á þessu skólaári. Romain lauk MA prófi í heimskautarétti við HA árið 2017 og á síðasta ári lauk hann doktorsprófi í lögfræði við Háskólann í Durham.

Romain er sérfræðingur í þjóðarétti, alþjóðarétti, frumbyggjarétti og mannréttindalögfræði á norðurslóðum. Hann hefur leitt og tekið þátt í rannsóknaverkefnum um norðurslóðafræði ásamt þátttakendum frá Grænlandi, Rússlandi, Japan, Íslandi og Noregi. Í Doktorsritgerð sinni fjallar hann um tengsl mannréttinda, umhverfis og þjóðaréttar, með áherslu á að stjórna umhverfisbreytingum á norðurslóðum og auka réttlæti í umhverfis- og nýlendumálum. Með þær áherslur að leiðarljósi þróar ritgerðin rök fyrir því að í sjálfræði frumbyggja felist geta til að skapa lagaleg viðmið og venjur.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Romain getið sér gott orð í sínum rannsóknum tengdum norðurslóðum og samstarfi við ýmsar norskar, íslenskar og alþjóðlegar stofnanir um norðurslóðamál. Frekari upplýsingar um Romain Chuffart má finna hér, og hann mun dvelja að fullu á Íslandi á meðan á starfinu stendur.

Nánar hér: Nansen prófessor | Háskólinn á Akureyri (unak.is)

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó