Nú er haustið gengið í garð og veturinn nálgast óðfluga. Tískuunnendur bíða jafnan spenntir eftir þessum tíma árs því tískan sem fylgir þessum árstíma er yfirleitt áhugaverð og skemmtileg.
Helga Jóhannsdóttir, verslunarstjóri í GS skóm, fór yfir það með okkur hvað hún telur að verði heitt í haust og vetur hjá dömunum.
,,Rúllukragabolur er fyrir löngu orðin klassísk flík á veturna enda mikilvægt að klæða sig vel í kuldanum hér á landi. Mér finnst mjög flott að layera og þar spilar rúllukragabolurinn stórt hlutverk sem innsta lag. Til dæmis er Húrra Reykjavík með mjög gott úrval af hlýjum og endingargóðum rúllukragabolum en á óskalistanum er einmitt rúllukragapeysa frá danska merkinu Libertine Libertine sem fæst í Húrra.“
,,Flauel var mjög áberandi hjá gestum á tískuvikunum í haust og búðirnar hér heima eru komnar með gott úrval af flauelsflíkum. Grænn, svartur, dökkblár og vínrauður eru meðal annars áberandi litir í flaueli. Mér finnst áferðin á efninu sjúklega falleg og finnst það sérstaklega flott við gallaefni. Ég er einmitt nýbúin að kaupa mér mega fallegan bol úr flaueli, hann er í miklu uppáhaldi en ég para hann helst við uppháar gallabuxur.“
,,Camo, hvort sem það eru buxur, peysa, bolur eða taska – mynstrið er áberandi í öllu! Það er búið að vera sjúklega heitt undanfarið og á klárlega eftir að halda áfram í vetur. Ég elska allt camo og er búin að eiga camo jakka í nokkur ár en hann hefur líklega aldrei verið í jafn mikilli notkun og núna. Nýlega er ég einnig búin að eignast buxur í camo mynstri – mér finnst það virkilega flott.“
,,Töff gallabuxur, t-shirt, góð peysa og kápa – það er lúkk sem klikkar ekki. Ég elska gallabuxur og á þónokkuð margar í skápnum mínum en undanfarið hafa gallabuxur sem eru tættar að neðan verið mjög áberandi og núna eru allar helstu verslanirnar farnar að bjóða upp á svoleiðis buxur. Mér finnst það mega lúkk og hef ég bara klippt neðan af gömlum gallabuxum til að nýta það sem ég á. Stuttar og beinar er uppáhalds sniðið mitt en mér finnst líka geggjað að hafa þær aðeins síðar. Efst á óskalistanum eru þó einhverjar töff buxur frá Redone (sjá mynd). Ég fýla mjög mikið það sem Redone er að gera og mæli með að skoða það nánar á heimasíðunni þeirra.“
,,Logo manía, einföld snið af bolum og peysum með stóru logo framan á. Hér að ofan er ein flík úr samstarfi danska tískumerkisins Wood Wood og íþróttavörurisans Champion sem kom út í ágúst. Ég fékk mér bol úr línunni og held mjög upp á hann. Einfalt en sjúklega gott lúkk.“
„Að mínu mati er nauðsynlegt að eiga alltaf eina góðu ullarkápu. Það er eign sem fer aldrei úr tísku og er mjög gott að eiga í fataskápnum. Mér finnst geggjað að para saman rúllukragaboli og kápur og er nú þegar komin með augastað á eina ullarkápu sem mig langar að eignast fyrir veturinn.“
,,Kúrekastígvél eru að koma sterk inn í haust en þegar ég fór út að panta fyrir haustið sýndu öll merkin okkar einhverskonar útgáfu af kúrekastígvélum. Þessi fyrir ofan eru frá Billi Bi og eru væntanleg til okkar í GS skó. Ég er mjög spennt fyrir þeim en ég hef alltaf heillast mjög af þessum stíl. Ég hlakka mikið til að eignast þau! Svo eru Dr. Martens klassískir á veturna enda sólinn á þeim mjög góður og hentar vel í snjóinn og slabbið.“
UMMÆLI