Fimmtudaginn 8. júní mun Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri verja doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin ber heitið: Menntaforysta á sveitarstjórnarstigi á Íslandi: Hvað mótar hana, hvað einkennir hana og hvaða gildi hefur hún fyrir skólastarf.
Dr. Kristín Jónsdóttir forseti Deiladr kennslu- og menntunarfræða stjórnar athöfninni. Aðalleiðbeinandi verkefnisins er Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi er dr. Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Dr. Rúnar Sigþórsson, prófessor emerítus við Háskólann á Akureyri.
Um verkefnið
Viðfangsefni doktorsrannsóknarinnar er menntaforysta á sveitarstjórnarstigi á Íslandi. Í fyrsta lagi miðar rannsóknin að því að varpa ljósi á hvernig menntaforysta mótast af stefnu og stjórnsýslu ríkis, sveitarfélaga, skóla og alþjóðlegu samhengi. Í öðru lagi að því að skilja hvað einkennir menntaforystu á sveitarstjórnunarstigi; hvernig aðstæður í sveitarfélaginu hafa áhrif og hvernig hún samræmist lagalegum skyldum þeirra. Í þriðja lagi hvernig forysta sveitarfélaga hefur áhrif á skólastarf, sér í lagi á getu þeirra til að eflast sem faglegar stofnanir. Sérstaklega er rýnt í forystu sveitarfélaga út frá því hvernig þau standa að rekstri skólaþjónustu.
Litið var á menntaforystu á sveitarstjórnunarstigi sem tilvik. Blönduðum aðferðum var beitt við öflun gagna og úrvinnslu. Gögn voru meðal annars löggjöf, stefnuskjöl, vefsíður sveitarfélaga um skólaþjónustu, spurningakönnun og viðtöl. Tilviksrannsókninni var skipt í fjórar rannsóknareiningar. Mismunandi rannsóknaraðferðum var beitt í hverri einingu: skjalagreiningu, innihaldsgreiningu, spurningakönnun og tilviksrannsókn með þverskurði. Í hverri einingu fyrir sig var leitað svara við spurningum sem tengjast markmiðum rannsóknarinnar. Afraksturinn liggur fyrir í bókarkafla, tveimur tímaritsgreinum og drögum að grein.
Rannsóknin er fræðilegt og hagnýtt innlegg í áframhaldandi umræðu um skólamál á Íslandi og hvernig sveitarstjórnunarstigið – og ríkið – leggja sitt af mörkum hvað varðar samfellu í stefnumótun, stjórnsýslu og menntaforystu. Helstu niðurstöður sýna að alþjóðleg áhrif hafa sett mark sitt á forystu ríkis og sveitarfélaga. Pólitískur óstöðugleiki, skortur á samræmi í stefnumótun og stjórnsýslu og skortur á stuðningi og forystuhæfni ríkis hafa haft áhrif á mótun menntaforystu á sveitarstjórnarstigi á Íslandi. Sveitarfélögum virðist almennt ekki hafa tekist að þróa menntaforystu sína á skilvirkan hátt og hún stjórnast fremur af því fólki sem ræðst til starfa en af stefnumörkun um menntamál. Sérstaklega þarf að huga að því að efla mannauð á sveitarstjórnarstigi, því meira sem sveitarfélögin eru fjær höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist sem takmörkuð forystuhæfni bæði á landsvísu og á sveitarstjórnunarstigi grafi undan getu skóla til að þróast sem faglegar stofnanir og veita sem besta menntun. Niðurstöður benda til þess að bæði ríki og sveitarfélög þurfi að axla meiri ábyrgð á stjórnsýslu menntamála og menntaforystu og vinna betur saman í þeim efnum.
Áhugasöm geta nálgast nánari upplýsingar hér.
UMMÆLI