Nýverið var doktorsritgerð Valgerðar Guðmundsdóttur, lektors við lagadeild Háskólans á Akureyri, tilnefnd til tveggja kanadískra verðlauna. Valgerður lauk nýverið doktorsgráðu frá lagadeild McGill háskóla í Kanada undir leiðsögn prófessor Colleen Sheppard og bar verkefnið hennar titillinn The Nordic Concept of Gender Equality and ‘the Other’: the problems and particularities of gender mainstreaming in asylum decision-making. Fjallað er um málið á vef Háskólans á Akureyri, unak.is.
Verðlaunin sem um ræðir eru annars vegar Canadian Association for Graduate Studies (CAGS) Distinguished Dissertation Award og hins vegar Prix D’excellence de L’Association des doyennes et des doyens des études supérieures au Québec (ADÉSAQ). Bæði samtökin leggja áherslu á að þróa og viðhalda afburðagæðum í framhaldsnámi og rannsóknum annars vegar í Quebec-fylki og hins vegar í gjörvallri Kanada. Bæði verðlaunin eru veitt árlega til tveggja doktorsverkefna sem þykja fela í sér óvenju mikið og frumlegt framlag til fræðasviðs þeirra.
„Það er verulega ánægjulegt fyrir mig sem ungan fræðimann að fá slíkar tilnefningar. Lagadeild McGill háskóla er reglulega talin meðal þeirra bestu í heiminum og því er það mikil viðurkenning fyrir mig að deildin velji að tilnefna ritgerðina mína til slíkra verðlauna“ segir Valgerður á vef Háskólans á Akureyri
Þá má benda á viðtal við Valgerði í Samfélaginu á Rás 2 þann 26. febrúar síðastliðinn þar sem hún ræðir um verkefnið og tilnefningarnar.