Úrvalsdeildin í pílukasti hófst síðastliðinn laugardag á Selfossi, þar sem 16 bestu pílukastarar landsins mættu til leiks. Keppt er sjö kvöld í heildina, þar sem átta keppendur taka þátt á hverju kvöldi og safna stigum. Átta stigahæstu keppendurnir tryggja sér þátttöku á úrslitakvöldinu, sem fer fram laugardagskvöldið 7. desember á Bullseye.
Á vefsíðu Þór kemur fram að Matthías Örn og Dilyan Kolev úr píludeild Þórs voru á meðal keppenda og léku sinn fyrsta leik í nýju félagi eftir að hafa gengið til liðs við Þór með tveggja ára samning. Matthías mætti Lukasz Knapik í sínum fyrsta leik, þar sem hann tapaði 2-4 þrátt fyrir gott spil og meðaltal upp á 76 stig í þremur pílum.
Kolev sigraði Björn Steinar 4-1 og mætti svo Lukasz Knapik í undanúrslitum, þar sem hann sigraði 4-2 og komst í úrslitaleikinn. Í úrslitunum lenti Kolev undir 1-3 gegn Kristjáni Sigurðssyni en vann svo 4-3, með 110 stigum í lokaleggnum.
Kolev stóð sig einnig vel á Selfoss Open um helgina, þar sem hann sigraði í tvímenningi með Karli Helga á föstudagskvöldinu og vann einmenning á laugardeginum.
Næsta kvöld úrvalsdeildarinnar verður haldið í Sjallanum 16. nóvember, þar sem Kolev keppir aftur.
UMMÆLI