Daníel Andri Halldórsson hefur tilkynnt það að hann ætli sér að yfirgefa Þór og prófa ný verkefni. Daníel hefur þjálfað kvennalið Þórs með eftirtektarverðum árangri undanfarin ár ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka Þórs í körfubolta. Daníel hefur þegar fengið starf sem aðstoðarþjálfari A landsliðs kvenna í körfubolta.
Jón Stefán Jónsson greinir frá því að Daníel ætli sér að yfirgefa Þór í Facebook-hópnum Ég er Þórsari þar sem að Daníel er þakkað fyrir framlag sitt til körfuboltadeildar Þórs.
„Daníel Andri Halldórsson, Danni hefur tilkynnt að hann hyggist prufa eitthvað nýtt eftir að hafa verið hjá Þór í körfubolta frá því að hann fékk fyrst bolta í hendurnar. Hann hefur gert frábæra hluti fyrir félagið okkar í körfubolta þó ungur að árum sé. Hann hefur verið yfirþjálfari yngri flokka undanfarin fimm ár (ef ég man rétt)og iðkendatala yngri flokka í körfubolta hefur tvöfaldast á þeim tíma og áhuginn sjaldan verið meiri. Í meistaraflokki tók hann stóran þátt í því að endurreisa kvennaliðið fyrir fjórum árum, fara með þær upp um deild, í bikarúrslit og orðið meistari meistaranna,“ skrifar Jón Stefán.