Handboltakappinn efnilegi Dagur Gatuason skrifaði í gær undir tveggja ára framlengingu á samningi sínum við KA. Dagur fagnaði 18 ára afmæli sínu í gær en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann spilað stórt hlutverk í liði KA í Grill 66 deildinni í handbolta í vetur.
Dagur hefur spilað alla 15 leiki KA í deildinni í vetur og skorað 60 mörk. Dagur spilar einnig stórt hlutverk í varnarleik liðsins. Þá spilar hann stöku leiki fyrir Ungmennalið KA og 3. flokk félagsins.
Í tilkynningu á vef KA segir:
Dagur er mjög efnilegur og eru KA-menn gríðarlega ánægðir að fá að njóta krafta hans að minnsta kosti út tímabilið 2020. Hann er frábær fyrirmynd, innan sem utan vallar og með gríðarlega stórt KA-hjarta.
Stefán Árnason, þjálfari KA, lýsti yfir mikilli ánægju með að Dagur skyldi skrifa undir þennan samning á afmælisdaginn sinn og hafði þetta um málið að segja á heimasíðu félagsins:
„Það er mikið ánægjuefni að Dagur Gautason hafi skrifað undir þennan samning með okkur. Samningurinn er afar mikilvægur fyrir félagið og þá vinnu sem er í gangi. Við ætlum að búa til lið hérna hjá KA sem verður meðal bestu liða á Íslandi og sú staðreynd að Dagur sé tilbúinn að skuldbinda sig í það verkefni er gífurlega mikilvægur liður í þeirri vegferð.“
UMMÆLI