NTC

Dagskrárgerðarmaður gekk yfir sprengjusvæði í Hlíðarfjalli

Dagskrárgerðarmaður gekk yfir sprengjusvæði í Hlíðarfjalli

Mikið magn sprengjuleifa fannst á dögunum á litlu svæði í Hlíðarfjalli á meðan heimildaöflun stóð vegna hlaðvarpsþáttaraðar Grenndargralsins og Sagnalistar um dvöl setuliðsins í fjallinu á hernámsárunum. Þetta kemur fram á vef Grenndargralsins.

Sjá einnig: Hlaðvarpsþættir um leyndardóma Hlíðarfjalls

Þar segir að í sumum tilfellum sé erfitt að greina hvort einungis sé um sprengjubrot að ræða eða ósprungnar sprengjur.

„Breskar sprengjur af gerðinni mortar eru áberandi á svæðinu, hólkur sem inniheldur sprengiefni og stél. Engin hætta stafar af stélunum einum og sér en ef hólkurinn er fastur á hefur sprengjan ekki sprungið. Virkar sprengjur frá stríðsárunum finnast reglulega. Ef þær lenda á mjúku undirlagi t.d. mosa, eiga þær það til að springa ekki. Það flækir málið að umhverfið í kringum sprengjuleifarnar er þannig að erfitt getur reynst að sjá hvort hólkurinn er sprunginn eða ekki því gras og mosi getur hulið hluta sprengjunnar. Á svæðinu er berg í bland við gras og mosa og því varasamt að ganga þar um,“ segir á vef Grenndargralsins.

Staðurinn sem um ræðir er ekki á alfaraleið, hann er við rætur fjallsins, norðan við skíðasvæðið í svokallaðri Hrappstaðaskál.

„Alltaf er möguleiki á mannaferðum – svo vinsamlegast farið varlega á ferðum ykkar um svæðið. Ekki taka upp torkennilega hluti, takið mynd ef þið teljið að mögulega sé um sprengju að ræða og hafið samband við lögregluna,“ segir enn fremur á vef Grenndargralsins.

Sambíó

UMMÆLI