Dagrún Matthíasdóttir, Bæjarlistamaður Akureyrar 2021, opnar sýninguna Leikur í Einkasafninu í Eyjafjarðarsveit næstkomandi laugardag, 9. júlí, klukkan 14.00. Klukkan 14.10 verður fluttur gjörningur.
Dagrún Matthíasdóttir er búsett á Akureyri og er starfandi listamaður og myndmenntakennari. Árið 2021 fékk hún þann heiður að vera valin Bæjarlistamaður Akureyrar og hefur á starfstímabilinu sett upp einkasýningar á nýjum verkum og tekið þátt í samsýningum. Á vormánuðum opnaði sýning hennar Formflæði í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og stendur sú sýning yfir til 15.ágúst 2022.
Dagrún lærði í Myndlistaskólanum á Akureyri, Kennslufræði og Nútímafræði við Háskólann á Akureyri með viðkomu í skiptinámi í Listfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur unnið við utanumhald viðburða og eitt verkefna hennar er List í Alviðru þar sem hún tengir saman listamenn frá Norðurlandi eystra og listamenn á Vestfjörðum í verkefni í gerð umhverfislistaverka.
Dagrún hefur einnig séð um rekstur og sýningarstjórn viðurkenndra sýningarstaða á Akureyri, Mjólkurbúðina og DaLí Gallery ásamt samstarfi í Listhópnum RÖSK sem er þekktur fyrir lifandi sýningastarf og gjörninga. Einnig hefur hún tekið virkan þátt í félagsstörfum í Listagilinu og er í stjórn Myndlistarfélagsins.
Dagrún hefur haldið á þriðja tug einkaýninga, þar af í New York 2011 auk þáttöku í fjölda samsýninga bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur farið reglulega í gestavinnudvöl bæði hér heima og utan landsteinananna. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum listahátíðum erlendis s.s.Kunst I Natur, Fjellfestival í Isfjorden í Noregi (2017, 2019), alþjóðlegu listverkefni á Mauritius í SA-Afríku (2017) og alþjóðlegum gestavinnustofum í Ungverjalandi og á Ítalíu. Á Fjellfestival 2017 flutti hún Gjörninginn Fjallamjólk í lítilli tjörn uppi á Lille Fjellet.
Verk sín vinnur Dagrún í ólíka miðla listarinnar og hefur ómælda ánægju af því tilraunakennda. Hún finnur hugmyndum sínum farveg í ýmsum miðlum listarinnar. er óhrædd við að fara nýjar leiðir, gera tilraunir með efni og hugmyndir og leyfa leikgleðinni að flæða.
Málverkið hefur verið hennar helsti miðill með sterkri viðkomu í gjörningum, umhverfislist, skúlptúrum og grafík. Sýninguna í Einkasafninu kallar hún Leikur og er opnun á laugardaginn með gjörningi kl. 14:10. Sýningin er leikur að efni og rými einkasafnsins. Á opnun mun Hljóðverkið Gjörningur eftir þá Vinyl Kabbalah & Gilstepup verða frumflutt og var það sérstaklega samið fyrir sýninguna í Einkasafninu.
Félagarnir Vinyl Kabbalah & Gilstepup eru miklir áhugamenn um hljóðblöndun og kvikmyndagerð og heita Páll Kristinn Jakobsson og Gilbert Elgin Davíðsson.
Sýningarstjóri er Aðalsteinn Þórsson.
Sumarlistamenn Einkasafnins. Þriðja sumarið í röð býður Einkasafnið-umhverfislistaverk upp á sýningarröð listafólks sem hefur verið boðið til dvalar í safninu og sýnt afrakstur vinnu sinnar í safnhúsinu og umhverfis það. Listafólkið hefur unnið út frá þeim áhrifum sem það hefur orðið fyrir meðan á dvölini stendur. Dagrún Matthíasdóttir er sjöundi þessara sumarlistamanna em sýnir í safninu. Á undan honum hafa listamennirnir: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Arna G. Valsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Joris Rademaker, Kristín Reynisdóttir og Pétur Magnússon dvalið og sýnt í safninu. Einkasafnið er sýningastaður í gróðurvin í lækjardragi með skoppandi læk, 10 km sunnan Akureyrar. Þar er boðið upp á einveru og takmarkuð þægindi í litlu húsi.
Einkasafnið er verkefni myndlistamannsinns Aðalsteins Þórssonar. Það hýsir safn Aðalsteins „á því sem verður eftir“ af eigin neyslu. Með því er reynt að gefa eins heillega mynd af fyrirferð einstaklingsins í umhverfinu og hægt er. Leitast er við að það sé sjálfbær eining hvað varðar orkuöflun og meðferð úrgangs. Með það að markmiði að vera í jafnvægi við náttúru og umhverfi. Söfnunin hófst 2001, Safnið hefur verið í núverandi húsnæði frá 2018.
Sýningin er opin helgarnar 9. – 10. og 16. – 17. júlí, frá 14 – 17.
Einkasafnið stendur við syðri enda þjóðvegs 822 Kristnesvegar uþb. 10 km sunnan Akureyrar. Vefsíða: www.steini.art
UMMÆLI