Tveir karlmenn voru dæmdir til fangelsisvistar af héraðsdómi Norðurlands eystra í síðustu viku fyrir þjófnað á ýmiskonar frosnum fiskafurðum og fuglakjöti. Verðmæti þýfisins 689.576 krónur að því er kemur fram í dómnum sem má lesa í heild sinni með því að smella hér. Mennirnir brutust í sameiningu inn í frystigám fyrir utan fiskverkunina Hnýfil að Óseyri 22 á Akureyri í nóvember á síðasta ári.
Um var að ræða talsvert magn af fiskibollum, fiski í orlydeigi, laxaflökum, humri, kolaflökum, ýsu, rækju, smokkfiski, smálúðuflökum, reyktri ýsu, þorskbitum, hrefnukjöti, söltuðum gellum, lunda- og svartfuglsbringum.
Mennirnir játuðu báðir sök. Annar þeirra var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi en hinn í tveggja mánaða fangelsi en litið var til þess að fyrirtækið varð ekki fyrir verulegu tjóni þar sem þýfið náðist að mestu.
Báðir mennirnir eiga sakaferil að baki og rauf annar þeirra skilorð með þessu innbroti.
UMMÆLI