„Crossfit hentar Íslendingum vel“

Crossfit nýtur vaxandi vinsælda á Íslandi. Fyrsta Crossfit-stöðin var opnuð á Íslandi árið 2008 en síðan þá hafa margar fleiri bæst í hópinn, þar á meðal tvær á Akureyri. Algjör sprenging varð í iðkun íþróttarinnar í kjölfar sigurs Annie Mistar Þórisdóttur á heimsleikunum í Crossfit árin 2011 og 2012. Íþróttin er samspil þols, liðleika, samhæfingar og styrks.

Bjarki Kristjánsson, 27 ára Akureyringur, tók á dögunum þjálfarapróf í Crossfit og starfar nú sem þjálfari hjá Crossfit Akureyri. Bjarki segist hafa byrjað að æfa Crossfit fyrir rúmum þremur árum og hann sjái ekki eftir því.

„Ég fann það fljótt þegar ég prófaði þetta að þetta væri eitthvað fyrir mig. Vinur minn hafði þá æft Crossfit í nokkurn tíma og var búinn að vera að hvetja mig að mæta með sér. Ég sló að lokum til og sé ekki eftir því í dag.”

Þjálfun og aðstaða alltaf að verða betri

Hann segir að hann iðkendum fjölgi stöðugt og að Crossfit íþróttin hafi vaxið töluvert á Akureyri frá því að hann byrjaði fyrst að mæta á æfingar.

„Iðkendum hefur fjölgað töluvert frá því að ég byrjaði. Ég held það haldist að einhverju leyti í hendur við það að þjálfun og aðstaða er alltaf að verða betri.”

Bjarki segir íþróttina henta vel fyrir Íslendinga sem geta verið uppteknir oft á tíðum.

„Íslendingar eru duglegt en líka mjög upptekið fólk og ég held það henti því vel fyrir marga að geta mætt í þrjú til sex skipti í viku og tekið vel á því í klukkutíma í senn. Crossfit er líka hrikalega fjölbreytt og skemmtilegt.”

Bjarki Kristjánsson (til hægri) ásamt Fannari Hafsteinssyni (til vinstri) en þeir stunda báðir Crossfit af miklu kappi

Ekki bara bóla

Hann telur að Crossfit sé komið til að vera á Íslandi.

„Ég held þetta sé ekki bóla. Það spretta upp nýjar stöðvar víðsvegar í heiminum á hverjum degi og stöðvum á Íslandi hefur fjölgað undanfarin ár. Stór Crossfit-mót eru auk þess alltaf að fá meira og meira áhorf og ekki bara frá fólki sem stundar Crossfit heldur einnig frá einstaklingum sem einungis njóta þess að horfa.”

Bjarki telur að Crossfit sé að mörgu leyti betri en önnur líkamsrækt og henti betur fyrir marga.

„Crossfit er svo gríðarlega fjölbreytt. Þetta er eitthvað sem allir geta stundað, óháð aldri, formi eða reynslu. Stöðvar bjóða upp á svokallaða skölun á æfingu dagsins hverju sinni. Það þýðir að það er hægt að sníða æfingu dagsins að hverjum og einum svo að vanir jafnt sem óvanir geti tekið þátt í sömu æfingu.”

Stórt Crossfit-samfélag á Akureyri

Um 400 manns æfa í Crossfit Akureyri sem er önnur af tveimur Crossfit-stöðvum bæjarins. Bjarki segir að mismunandi hópar myndist eftir því hvenær fólk mæti á æfingar en almennt séð sé mikil samheldni í hópnum.

„Það hafa alls konar sambönd myndast enda eyðir fólk gríðarlega miklum tíma saman. Crossfit-samfélagið á Akureyri er orðið mjög stórt og er sífellt stækkandi. En það er algjör mýta að allir séu með öllum í Crossfit samfélaginu hér.”

Á dögunum kláraðist undankeppni fyrir Evrópuleikana í Crossfit en um 100 manns eru skráðir frá Crossfit Akureyri.

„Það er mikil stemming í stöðinni þegar æfingar fyrir Evrópuleikana eru teknar. Þessi tími ársins er tvímælalaust einn sá skemmtilegasti til þess að stunda Crossfit.”

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó