NTC netdagar

Castor Miðlun opnar myndver á HúsavíkMyndverið er af fínustu sort

Castor Miðlun opnar myndver á Húsavík

Á morgun, 26. júní opnar nýtt myndver Castor Miðlunar á Húsavík. Castor Miðlun er nýtt framleiðslufyrirtæki á Norðurlandi sem sérhæfir sig í dagskrárgerð og framleiðslu á lifandi viðburðum og beinum útsendingum fyrir sjónvarp og vef. Samhliða opnuninni verður haldið málþing um kvikmynda- og dagskrárgerð á Norðausturlandi. Dagskráin hefst kl. 13.00 og öll eru velkomin.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Castor miðlun þar sem einnig segir eftirfarandi:

Starfsemin byggir á grunni áratugalangrar sögu fjölmiðlastarfsemi og dagskrárgerðar á Norðurlandi og markmið þess er að á Norðurlandi starfi öflugt sjálfstætt framleiðslufyrirtæki sem getur speglað sérstaklega raddir og menningu þeirra rúmlega 140 þúsund Íslendinga sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.

Fyrsti áfangi í þeirri vegferð er opnun myndversins, en þar má finna fullkomna aðstöðu til upptöku og útsendinga, með myndstjórn og 70 fermetra upptökusal, ásamt aðstöðu til eftirvinnslu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála mun opna aðstöðuna og ávarpa málþing sem haldið verður samhliða opnuninni þar sem rætt verður um tækifæri og áskoranir í kvikmynda- og dagskrárgerð á landsbyggðinni.

Málþingið ávarpa Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV, Baldvin Zophoníasson kvikmyndagerðarmaður, Atli Örvarsson kvikmyndatónskáld, Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi og fjölmiðlakona, og Rakel Hinriksdóttir blaða- og dagskrárgerðarkona. Málþinginu stýrir
Hildur Halldórsdóttir, menningarfulltrúi SSNE.

„Það er okkur hjartans mál að halda áfram öflugu starfi í dagskrár- og kvikmyndagerð í héraði. Á Akureyri var starfrækt fyrsta sjónvarpsstöð landsins og hér er löng saga og hefð fyrir framleiðslu á efni fyrir sjónvarp og myndmiðla. Þá spilar auðvitað inn í að í fjórðungnum er fjöldi fólks með reynslu og þekkingu á dagskrár- og kvikmyndagerð, bæði tæknifólk, fréttamenn, handritshöfundar og fleira – og markmiðið er auðvitað líka að búa til tækifæri og atvinnu fyrir þennan stóra hóp,“ segir Ingimar Björn Eydal, einn eiganda Castor Miðlunar.

Sambíó

UMMÆLI