Byggingar Listasafnsins sameinaðar

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í dag var dagskrá ársins 2018 og komandi starfsár kynnt. Einnig var farið í gegnum þær framkvæmdir sem nú standa yfir á Listasafninu og þær útskýrðar. Í lok fundarins var undirritaður nýr samstarfssamningur Listasafnsins og Icelandair Hotels Akureyri og Air Iceland Connect. Það var Sigrún Björk Sigurðardóttir, hótelstjóri Icelandair Hotels Akureyri, og Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, sem undirrituðu samninginn. Prentaðri dagskrá ársins var í dag dreift í öll hús á Akureyri.

Árið 2018 markar mikilvæg tímamót fyrir Listasafnið á Akureyri þar sem þá eru liðin 25 ár frá stofnun þess. Það er einkar viðeigandi að á þessum tímamótum skuli gamalt og gott loforð verða efnt og safnið fái á afmælisárinu efstu hæð gamla Mjólkursamlagsins til afnota. Eftir endurbætur og stækkun verða byggingarnar tvær sem Listasafnið hefur haft til umráða, annars vegar gamla Mjólkursamlag KEA og hins vegar Ketilhúsið, sameinaðar með tengibyggingu og munu þá mynda eina heild. Glæsilegir sýningarsalir á efstu hæðinni verða opnaðir 17. júní þar sem fjölbreyttar og spennandi sýningar verða í boði í framtíðinni.

Nýr inngangur með aðgengi fyrir hreyfihamlaða verður tekinn í notkun ásamt safnbúð og kaffihúsi. Í nýju safni verður einnig stórbætt aðstaða fyrir safnfræðslu og skapandi starf með börnum og fullorðnum. Fræðsla, fyrirlestrar, leiðsagnir og safnkennsla eru meðal þess sem Listasafnið hefur lagt aukna áherslu á undanfarin misseri og verður engin breyting þar á.

Þriðjudagsfyrirlestrarnir verða áfram stór þáttur í fræðslustarfi Listasafnsins en þeir eru settir upp í samvinnu við Verkmenntaskólann á Akureyri, Myndlistarfélagið, Gilfélagið og Háskólann á Akureyri. Þeir eru sem fyrr haldnir á hverjum þriðjudegi kl. 17-17.40 yfir vetrartímann.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó