Kvikmyndin Burial Rites, sem verður byggð á samnefndri bók eftir Hönnuh Kent, verður mögulega tekin upp að hluta til á Norðurlandi. Þessu greinir Rúv frá í dag en samkvæmt heimildum þeirra hefur tökulið myndarinnar verið í Vatnsdalnum og Vatnsnesinu í Húnaþingi vestra undanfarið að skoða aðstæður fyrir mögulega tökustaði.
Síðasta aftakan á Íslandi
Bókin, sem kom út í íslenskri þýðingu Jóns St. Kristjánssonar árið 2014 undir nafninu Náðarstund, gerist á Íslandi á 19. öld. Sagan fjallar um Agnesi Magnúsdóttur sem var tekin af lífi árið 1830, ásamt Friðriki Sigurðssyni. Þau voru dæmd til dauða fyrir morðið á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni en Natan var húsbóndi þeirra á Illugastöðum á Vatnsnesi og Pétur gestkomandi á bænum. Sagan af Agnesi og Friðriki er heimsþekkt því að morðin sem þau frömdu, og síðar aftaka þeirra, hafði áhrif á allt landið. Þau frömdu morðin þegar mennirnir voru sofandi og brenndu bæinn í kjölfarið. Þau voru síðan hálshöggvin opinberlega og höfuð þeirra fest upp á stengur. Um 150 manns var viðstatt við aftökuna en á þeim tíma var fólk skikkað til að mæta á aftökur, eða amk. einn fullgildan karlmann frá hverju heimili.
Launahæsta leikkona heims leikur Agnesi Magnúsdóttur
Jennifer Lawrence er flestum kunnug en hún er ein frægasta leikkona Hollywood um þessar mundir. Hún hefur leikið í yfir 30 myndum og þar á meðal unnið Óskarsverðlaunin fyrir eina þeirra, myndina Silver linings playbook, ásamt því að vera tilnefnd til verðlaunanna fjórum sinnum.
Hún er þó hvað þekktust fyrir leik sinn í kvikmyndaseríunni Hunger Games þar sem hún fór með hlutverk Katniss Everdeen.
UMMÆLI