Á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar séu að koma sprengjunni ofan í sjó og í framhaldinu mun hún verða dregin frá svæðinu og á haf út, þar sem henni verður síðan eytt. Við nánari rannsókn kom í ljós að ekki var um djúpsprengju að ræða heldur tundurdufl.
Götulokunum við Hjalteyrargötu hefur verið aflétt og óhætt er nú að hefja aftur störf í fiskvinnslu ÚA.
Um hádegisbil fannst torkennilegur hlutur í trolli Björg EA við ÚA-bryggjuna og var talið að um væri að ræða gamla djúpsprengju. Svæðið var rýmt og stafaði fólki ekki hætta af en beðið var eftir sprengjusérfræðingum til þess að skoða nánar. Lögreglan á Norðurlandi eystra tók fram að engin hætta væri en vildi benda fólki á að vera ekki að fara um svæðið.
Ásgeir Erlendsson sagði fyrr í dag við 200 mílur/mbl.is að enn ætti eftir að skoða hlutinn til að ganga úr skugga um hvers konar hlut væri að ræða. Þegar greiningu væri lokið myndi séraðgerðasveitin í samráði við lögreglu meta næstu skref, sem hafa nú verið ákveðin.
Á vef Samherja kom fram að áhöfnin hefði haldið að um gamla járntunnu væri að ræða en síðar hefði sést að hluturinn væri tundurdufl. Ákveðið var að rýma svæðið í eitt hundruð metra radíus frá bryggju, því var vinnslu við ÚA hætt í dag til að gæta fyllsta öryggis.
UMMÆLI