NTC

Búa til jólamat handa fuglunum – Allir velkomnirAllir eru velkomnir á Kaffi Kú, menn jafn og gæludýr. Mynd: Kaffi Kú.

Búa til jólamat handa fuglunum – Allir velkomnir

Kaffi Kú í Eyjafjarðarsveitar er um þessar mundir að vinna að skemmtilegu jólaverkefni sem snýst um að fuglarnir fái örugglega gott að borða um jólin. Um helgina stendur gestum kaffihússins til boða að búa til mat handa fuglunum. Eigendur og starfsmenn staðarins hafa undanfarið verið að týna köngla fyrir þetta tilefni og ætla að nýta helgina í að setja á þá hnetusmjör og fuglafóður. Fólk getur því komið og gert sína eigin köngla fyrir fuglana og tekið með sér heim eða hengt upp í trén í sveitinni.
„Þetta er svona umhverfisvæn gjöf en þetta er einn af mörgum viðburðum sem við erum búin að standa fyrir í nóv og des. Og það er frítt að mæta á þessa viðburði,“ segir Sesselja Barðdal, eigandi Kaffi Kú, en með þessu móti getur fjölskyldan komið og átt notalega stund sem gefur.

Köngull með hnetusmjöri og fuglafóðri úr smiðju Kaffi Kú handa fuglunum.

Afþreyingar- og vöffluhúsið Kaffi Kú er staðsett í Eyjafjarðarsveit, skammt frá Akureyri og sker sig úr frá hefðbundnum kaffihúsum því þarna er svo kallað hátæknifjós. Þar fá kýrnar að leika lausum hala, fara sjálfar og láta mjólka sig í tækjunum þegar þeim hentar og liggja þess á milli á dýnum og hafa það náðugt. Svo fylgist fólkið með meðan það gæðir sér á veitingum og fræðist um landbúnað.

Sambíó

UMMÆLI