Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason og handboltakonan Rut Arnfjörð Jónsdóttir voru valin íþróttakarl og íþróttakona KA í afmælisþætti sem birtist á miðlum félagsins í gær. Þetta er í annað skipti í sögu félagsins sem íþróttakarl og íþróttakona ársins eru valin.
Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs var valinn þjálfari ársins og lið KA/Þór valið lið ársins. Þau Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Skarphéðinn Ívar Einarsson hlutu Böggubikarinn í ár.
„Rut Arnfjörð Jónsdóttir var valin íþróttakona ársins en Rut er lykilleikmaður í meistaraliði KA/Þórs sem er handhafi allra titla sem í boði eru á Íslandi í handknattleik kvenna. Hún var valin besti leikmaður Olísdeildar kvenna en Rut kom eins og stormsveipur inn í deildina eftir 12 ára atvinnumannaferil. Rut er ekki bara stórkostlegur leikmaður heldur lyftir hún samherjum sínum einnig upp á hærra plan og er heldur betur vel að verðlaununum komin. Ekki nóg með að vera valin besti leikmaðurinn á lokahófi HSÍ þá fékk hún einnig Sigríðarbikarinn auk þess að vera valin besti sóknarmaðurinn. Rut er lykilleikmaður í íslenska A-landsliðinu,“ segir á vef KA.
„Brynjar Ingi Bjarnason var annað árið í röð valinn íþróttakarl KA en frammistaða hans á árinu vakti heldur betur mikla athygli og var að lokum valinn í A-landslið Íslands þar sem hann hefur tryggt sér sæti í byrjunarliðinu. Alls lék hann 10 landsleiki á árinu og gerði í þeim tvö mörk. Í sumar lék Brynjar ellefu leiki fyrir KA í deild og bikar þar sem hann gerði eitt mark áður en hann var loks seldur til ítalska liðsins Lecce í júlí mánuði. Í lok árs var hann svo keyptur af norska stórliðsinu Vålerenga og því heldur betur spennandi tímar framundan hjá þessum 22 ára kappa,“ segir um Brynjar á vef KA.
Handboltakonan Rakel Sara Elvarsdóttir varð önnur í kjöri íþróttakonu KA og blakkonan Paula del Olmo Gomez varð þriðja í kjörinu. Handboltamaðurinn Árni Bragi Eyjólfsson varð annar í kjöri íþróttakarls KA og knattspyrnumaðurinn Steinþór Már Auðunsson varð þriðji í kjörinu.
Nánar má lesa um 94 afmæli Knattspyrnufélags Akureyrar með því að smella hér.
UMMÆLI