Akureyri Handboltafélag hefur valið Brynjar Hólm Grétarsson sem leikmann ársins hjá félaginu fyrir árið 2017. Hann verður fulltrúi félagsins þegar kjöri á Íþróttamanni Akureyrar verður lýst við hátíðlega athöfn í Hofi næstkomandi miðvikudag, 24. janúar.
Brynjar Hólm er fæddur 22. febrúar 1994 en hann gekk til liðs við Akureyri haustið 2013 og er nú á sínu fimmta tímabili með liðinu. Hann var valinn besti leikmaður 2. flokks félagsins árið 2014 og efnilegasti leikmaður meistaraflokks tímabilið 2014/2015.
Undanfarin ár hefur Brynjar glímt við meiðsli en hefur nú náð að vinna sig úr þeim og var algjör lykilmaður í liði Akureyrar á árinu. Í umsögn um leikmanninn á heimsíðu félagsins segir:
„Hann ar algjör lykilmaður í liði AHF, jafnt í vörn sem sókn og hefur skorað 37 mörk á tímabilinu til þessa. Auk þess að vera afburða leikmaður er Brynjar Hólm glæsileg fyrirmynd annarra varðandi prúðmannlega framkomu, jafnt innan vallar sem utan.“
UMMÆLI