NTC

Brynja Dís úr Lundarskóla sigraði í upplestrarkeppni grunnskólanna

Brynja Dís úr Lundarskóla sigraði í upplestrarkeppni grunnskólanna

Brynja Dís Hafdal Axelsdóttir úr Lundarskóla hreppti 1. sætið í Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri, sem var haldin fimmtudaginn 7. mars sl. Keppnin var haldin í Hömrum í Menningarhúsinu Hofi og var þetta í 23. skiptið sem hún fer fram.

Nemendur í 7. bekk tóku þátt í keppninni en áður en lokahátíðin átti sér stað höfðu grunnskólar bæjarins haldið forkeppni þar sem tveir fulltrúar voru valdir til að keppa fyrir hönd hvers skóla. Í aðdraganda hátíðarinnar var einnig blásið til samkeppni meðal 7. bekkja um besta veggspjaldið. Falleg teikning eftir Ými Helga Teitsson, nemanda í 7. bekk Síðuskóla, sigraði og prýddi veggspjald Upphátt 2024, viðurkenningarskjöl og boðskort keppninnar.

Nemendur og kennarar leggja talsverða vinnu í undirbúning keppninnar sem hefst árlega á degi íslenskra tungu, 16. nóvember. Sá hluti keppninnar er kallaður ræktunarhluti þar sem nemendur 7. bekkjar leggja sérstaka áherslu á upplestur, vandaðan framburð, framkomu og túlkun orða.

Í ár áttu sjö skólar fulltrúa í keppninni og 13 hæfileikaríkir nemendur lásu hluta úr sögunni Hetja eftir Björk Jakobsdóttur og ljóð eftir Braga Valdimar Skúlason. Loks lásu þeir ljóð að eigin vali. Í dómnefnd sátu Eyrún Huld Haraldsdóttir, Sigrún Stefánsdóttir og María Pálsdóttir. Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda í Tónlistarskólanum á Akureyri í umsjá Steinunnar Arnbjargar Stefánsdóttur. Þá flutti Sandra María Jessen, íþróttakona Akureyrar 2023, ávarp til þátttakenda og gesta.

Það má með sanni segja að allir lesarar hafi staðið sig með miklum sóma og því var hlutskipti dómnefndar ekki auðvelt. Verðlaunasæti Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri 2024, hrepptu:

  • Brynja Dís Hafdal Axelsdóttir, Lundarskóla, 1. sæti
  • Konný Björk Þórðardóttir, Naustaskóla, 2. sæti
  • Sigurður Hólmgrímsson, Brekkuskóla, 3. sæti

Styrktaraðilar keppninnar í ár voru; Sparisjóður Höfðhverfinga, Penninn Eymundsson, Blómabúð Akureyrar, Mjólkursamsalan og Myllan. Þeim eru færðar bestu þakkir fyrir stuðninginn sem og öllum upplesurum, kennurum, tónlistarflytjendum, dómurum og öðrum sem komu að undirbúningi og framkvæmd þessarar keppni.

TIL BAKA

Sambíó

UMMÆLI