Bruggsmiðjan Kaldi 10 ára

bruggsmidjan

Mynd af vef Bruggsmiðjunnar

Á morgun, þann 30.september, fagnar Bruggsmiðjan Kaldi 10 ára starfsafmæli. Árið 2006 létu hjónin Agnes Anna Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson hugmynd sína um fyrsta micro-brugghúsið á Íslandi verða að veruleika.

Hugmyndin að Bruggsmiðjunni kom til eftir að Ólafur slasaðist í vinnuslysi á sjó og varð óvinnufær. Hjónin höfðu aldrei komið nálægt bruggun áður og vissu í raun ekkert hvað þau voru að fara út í. Eftir að hafa fengið tékkneskan bruggmeistara í lið með sér fóru hjónin af stað með Bruggverksmiðjuna árið 2006.

Segja má að opnun Kalda hafi verið ákveðin tímamót fyrir íslenska bjórmenningu en í kjölfarið hafa lítil brugghús sprottið upp víðsvegar um land við mikla kátínu bjóráhugamanna.

Vinsældir Bruggsmiðjunnar Kalda hafa aukist jafnt og þétt á þessum 10 árum og hefur bjórinn aldrei verið vinsælli. Þetta er hægt að sjá á því að framleiðslugetan árið 2007 var um 150 þúsund lítrar en hefur nú aukist í 700 þúsund lítra á ári. Kaldi skilaði á árunum 2013-2015 um 94 milljóna króna hagnaði.

Nú stendur til að stækka verksmiðjuna sjálfa um 280 fermetra og opna bjórheilsulind á staðnum eins og áður hefur verið fjallað um. Heimsóknir hópa í Bruggsmiðjuna í bjórkynningu eru einnig mjög vinsælar en um 12 þúsund gestir heimsóttu verksmiðjuna í fyrra. Annað kvöld er svo búist við margmenni í Bruggsmiðjunni því þá verður efnt til veislu til þess að fagna afmælinu.

Sambíó

UMMÆLI