Vaktþjónusta heimilislækna á Akureyri hefur verið flutt yfir í heilsugæsluna í Hafnarstræti. Vaktþjónustan var áður staðsett á bráðamóttöku Sjúkrahússins á Akureyri.
Breytingarnar eru gerðar til þess að skilja að vaktþjónustur heimilislækna frá bráðamóttökunni og efla þjónustuna. Tímasetning vaktþjónustunnar mun einnig breytast en nú verður hún opin frá klukkan 14 til 18 alla virka daga og frá 10 til 14 um helgar.
„Þessi breyting er fyrst og fremst framkvæmd til að bæta öryggi og aðgengi fólks að þjónustu heilsugæslunnar,“ er haft eftir Jóni Torfa Halldórssyni, yfirlækni heilsugæslunnar á Akureyri í fréttatilkynningu.
„Breytingarnar voru unnar í þverfaglegu samstarfi eftir þarfagreiningu. Það er okkar von að með nýju fyrirkomulagi muni biðtími eftir þjónustu styttast verulega, þar sem við höfum fjölgað læknum og hjúkrunarfræðingum sem í sameiningu munu sinna þjónustunni,“ segir hann.
Nýja fyrirkomulagið tekur gildi 24. september næstkomandi. Vaktþjónusta heimilislækna er ætluð sjúklingum sem þarfnast læknishjálpar samdægurs vegna skyndiveikinda eða sambærilegra atvika. Eitt afmarkað erindi er þannig afgreitt samkvæmt því, en ekki eru afgreidd vottorð á vakt og ekki eru gefnir út lyfseðlar á eftirritunarskyld lyf. Bráðamóttaka SAk er hins vegar ætluð til að þjónusta fólk eftir slys eða þá sem glíma við bráð og alvarleg veikindi.