NTC

Breytingar á húsnæði Listasafnsins

G. Ómar Pétursson og Hlynur Hallsson á kynningu Listasafnsins í gær. Mynd: Ragnar Hólm.

G. Ómar Pétursson og Hlynur Hallsson á kynningu Listasafnsins í gær. Mynd: Ragnar Hólm.

Á kynningarfundi sem haldinn var í Listasafninu á Akureyri í vikunni var dagskrá ársins 2017 kynnt og farið í gegnum komandi starfsár. Einnig voru kynntar breytingar sem fyrirhugaðar eru á húsnæði safnsins en framkvæmdir hefjast í febrúar. Í lok fundarins var undirritaður nýr þriggja ára samstarfssamningur Listasafnsins og Ásprents Stíls, sem er einn sex bakhjarla safnsins. Það voru G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents Stíls, og Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, sem undirrituðu samninginn. Prentaðri dagskrá ársins hefur verið dreift í öll hús á Akureyri.

Áætlað er að framkvæmdum við breytingar á húsnæði Listasafnsins ljúki um mitt ár 2018 og verða þá teknir í notkun bjartir og fallegir sýningarsalir á fjórðu hæð. Nýr og betri inngangur með bættu aðgengi fyrir hreyfihamlaða og barnavagna verður á jarðhæð ásamt safnbúð og notalegu kaffihúsi. Aðstaða fyrir safnkennslu batnar til muna og tækifæri skapast á fastri sýningu með verkum úr safneign auk sögusýningar um fjölbreytt atvinnu- og listalífi í Gilinu í áranna rás. Þessar breytingar færa Listasafninu nýja ásýnd og gott flæði myndast í starfseminni. Með þeim tengist bygging gamla Mjólkursamlagsins Ketilhúsinu og úr verður ein heild.

Arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson hjá Kurt og Pí hafa sérhæft sig í endurgerð verksmiðjuhúsnæðis þar sem virðing er jafnframt borin fyrir sögunni. Þeir hafa teiknað upp breytta nýtingu og nýtt skipulag þessa fyrrum iðnaðarhúsnæðis í Gilinu.

Starfsemi í byggingunni verður áfram fjölbreytt: Mjólkurbúðin verður á sínum stað sem og vinnustofur listamanna, listamannarekin sýningarými og gestavinnustofur. Í auknum mæli verður Ketilhúsið notað fyrir viðburði, móttökur, ráðstefnur og veislur. Listasafnið mun þannig laða að sér bæjarbúa og gesti í auknum mæli og af fjölbreyttari tilefni en fram til þessa.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó