Framsókn

Brestir í samstarfi KA og Þórs varðandi Akureyri Handboltafélag

Akureyri Handboltafélag deildarmeistari 2011. Sex árum síðar er liðið fallið úr deild þeirra bestu. Mynd: Þórir Tryggvason

Framtíð Akureyrar Handboltafélags er í lausu lofti en liðið féll úr Olís-deild karla í gærkvöldi eftir tap gegn Stjörnunni og við blasir að bæjarfélagið mun ekki eiga handboltalið í efstu deild karla á næstu leiktíð og er það í fyrsta skipti í 33 ár sem það gerist.

Sjá einnig: Akureyri átt handboltalið í efstu deild síðustu 33 ár

Umræða um samstarf Þórs og KA varðandi Akureyri Handboltafélag hefur farið nokkuð hátt í bænum undanfarið og talaði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, meðal annars um það í viðtali við RÚV eftir leikinn í gær að sú umræða hefði vissulega náð inn í leikmannahópinn og haft slæm áhrif á liðið þegar mest var undir í deildinni.

Mátti augljóslega greina á viðbrögðum Sverre að hann er sár yfir að þessi umræða hafi farið af stað áður en tímabilið kláraðist og sagði hann það raunar vera til skammar.

KA og Þór ósammála um næstu skref Akureyrar Handboltafélags?

En hver er staðan og er raunverulega möguleiki á að slíta samstarfinu? 10 ára samningur var undirritaður af Þór og KA árið 2010 með ákvæði um að endurskoðað yrði árið 2015. Þegar kom til þess var einhugur um að halda samstarfinu áfram í óbreyttri mynd. Til að slíta þessu samstarfi þurfa bæði félög að samþykkja riftun á samningi.

Þessi umræða um samstarfsslit er þó ekki úr lausu lofti gripin. Samkvæmt öruggum heimildum Kaffið.is ríkir ekki einhugur hjá félögunum um að halda samstarfinu áfram. Sömu heimildir herma að áður en ljóst var að Akureyri myndi falla úr deildinni áttu sér stað viðræður um samstarfsslit. Þeim viðræðum er ekki lokið en ljóst er að félögin eru ósammála um hver næstu skref skuli vera.

VG

UMMÆLI

Sambíó