Brennsluofnar setuliðsins fundnir í Hlíðarfjalli?

Brennsluofnar setuliðsins fundnir í Hlíðarfjalli?

Síðasti leiðangur Varðveislumanna minjanna á þessu ári á slóðir setuliðsins í Hlíðarfjalli var farinn í dag. Á nokkrum stöðum í fjallinu má finna gjallklumpa og kolamola í hrúgum á yfirborði jarðar. Tilgáta hefur komið fram í kjölfar leiðangra Varðveislumanna minjanna þess efnis að setuliðsmenn sem voru við heræfingar í fjallinu hafi komið sér upp sérstökum brennsluofnum til að losa sig við ýmiskonar hergögn.

Grafin var tilraunauhola í dag á einum af þessum stöðum. Skemmst er frá því að segja að prufuuppgröfturinn skilaði ýmsu áhugaverðu upp á yfirborðið eftir 80 ára veru í jörðinni. Meðal þess sem leit dagsins ljós var postulínsbrot af diski sem og skósóli og aðrir hlutar af því sem ætla má að hafi verið hermannastígvél. Þá fundu Varðveislumenn tuttugu og eina byssukúlu í dag en svo margar kúlur hafa ekki áður fundist í einum og sama leiðangrinum.

Svo virðist sem umsvif hermanna í Hlíðarfjalli í seinni heimsstyrjöldinni hafi verið umtalsverð og margfalt meiri en áður var talið. Varðveislumenn minjanna munu halda áfram að freista þess að svipta hulunni af leyndardómum Hlíðarfjalls að ári liðnu. Allir áhugasamir eru boðnir velkomnir í hóp Varðveislumanna minjanna.

Heimild: www.grenndargral.is

Sambíó

UMMÆLI