Breki og Björgvin sigra í FæreyjumBreki með hendina á lofti til vinstri, Björgvin til hægri. Ljósmyndir: Þráinn Kolbeinsson

Breki og Björgvin sigra í Færeyjum

Tveir ungir Akureyringar, Breki Harðarson, 21 árs og Björgvin Snær Magnússon, 18 ára, sigruðu nýlega viðureignir sínar við sterka andstæðinga á MMA viðburðinum MMA Føroyar sem fram fór í Þórshöfn, höfuðborg Færeyja, þann 20. Maí síðastliðinn. 

Björgvin sigraði sína viðureign, sem var MMA bardagi, með tæknilegu rothöggi snemma í fyrstu lotu. Breki keppti í uppgjafarglímu og sigraði með svokallaðri D’arce kyrkingu. 

Fréttaritari Kaffisins ræddi við strákana um uppgjafarglímu, MMA, ferlana og lífið. 

Björgvin er öruggur með sig en frammistaða hans fór framar meira að segja hans eigin vonum: „Það voru mjög margir að segja að ég myndi klára hann í fyrstu lotu en ég hélt að ég myndi klára hann í annarri lotu … en ég sá alltaf fyrir mér „finish“ sko, ég var búinn að segja fullt af gæjum að ég væri að fara að rota þennan gæja“

Björgvin sá alltaf fyrir sér að klára þennan fyrsta MMA bardaga sinn á rothöggi, frekar en með uppgjafartaki, enda er bakgrunnur Björgvins í Karate. Hann byrjaði að æfa Karate 5 ára gamall og hefur mikla keppnisreynslu úr íþróttinni allt frá 12 ára aldri, þar á meðal með landsliðinu. Björgvin hefur mikið ferðast til Karate móta utan landsteinanna og segir hann að þetta hafi verið góður grunnur fyrir MMA ferilinn: „Það eru ekki margar leiðir til þess að fá kepnnisreynslu á Íslandi nema helst í boxi og taekwondo, en í Karate er bæði kýlt og sparkað, það er ekki mikið um slíka keppnisreynslu á Íslandi.“

Aðspurður um sitt framtíðar markmið segist Björgvin ætla alla leið, „það er bara „that UFC lightweight belt“ sko,“ og hann sér leiðina skýrt fyrir sér. Ætlunin er að taka þrjá bardaga á þessu ári, þrjá bardaga á næsta ári og svo stefna á atvinnumennsku. Þaðan sér hann fyrir sér stutta leið yfir í UFC, sem eru virtustu og stærstu MMA samtök heims: „Þvi allir bardagarnir munu vera með einhverjum „flashy finishum“ og þannig kemst maður inn í UFC.“

Líkt og áður kom fram er Björgvin Akureyringur, en hann flutti til Reykjavíkur til þess að æfa MMA. Þegar hann fór fyrst að æfa MMA hjá Mjölni var hann strax fenginn til þess að æfa með keppnisliðinu, enda var hann framúrskarandi standandi bardagamaður eftir tíma sinn í Karate. Það sem helst vantaði upp á hjá honum var gólfglíman. Hann segist eiga nóg eftir að læra á því sviði, en helstu veikleikunum sé strax búið að kippa í lag.

Ætlunin með ferð Breka til Færeyja var ekki að keppa, heldur fór hann einungis með til þess að aðstoða keppendurna og styðja Björgvin, en strákarnir eru góðir vinir. Það kom hins vegar strik í reikninginn þegar liðsfélagi Björgvins, Venet Banushi, slasaðist á rifbeini í upphitun og þurfti að falla frá keppni. 

„Venet dettur semsagt út þannig að andstæðingurinn hans, sem var búinn að „train-a“ fyrir þetta og fljúga til Færeyja fær þá bara engann slag og fær ekki neitt, þannig að þá spyr Gunni [Nelson] af hverju ég fari ekki bara á móti honum.“

Breki, sem ekki hefur æft MMA, sagðist vera tilbúinn til þess að glíma við manninn. Gunni og liðsfélagar tóku uppástungunni sem gríni, en þegar Breki bauð Enea Sopa, áætluðum andstæðing Venets, að glíma tók Enea mjög vel í það. 

Gunnar Nelson átti þá orð við skipuleggjendur viðburðarins sem einnig tóku vel í hugmyndina og ákveðið var að Breki og Enea myndu eiga 6 mínútna „submission-only“ glímu, sem þýðir að engin stig voru talin og ef enginn næði uppgjafartaki innan 6 mínútna hefði glíman talist jafntefli. Breki náði hins vegar uppgjafartaki eftir u.þ.b. 4 mínútur. Uppgjafartakið sem tryggði Breka sigurinn heitir D’arce kyrking og er uppáhalds uppgjafartak Breka og það tak sem hann telur sig bestann í. 

Lesendum til fróðleiks þá er brasilísk uppgjafarglíma (BJJ) ein af þeim bardagalistum sem nær allir MMA kappar stunda og myndar hún, ásamt öðrum glímutegundum, boxi og kickboxi grunn MMA stílsins. Þannig má reikna með því að þrátt fyrir að vera ekki sérhæfður glímumaður eins og Breki hafi Enea góðan grunn í íþróttinni.

Spurður um sitt framtíma markmið segist Breki frekar lifa í núinu: „Ég er eiginlega bara að huga um þetta Unbroken drasl núna, bara taking it one step at a time … Auðvitað stefnir maður alltaf á eitthvað stórt en eins og hugarástandið er núna þá er maður bara að hugsa um næstu keppni.“ Eins og Kaffið hefur áður greint frá hefur Breki unnið sér sæti í úrslitum í undir 77kg flokki Unbroken deildarinnar í brasilískri uppgjafarglímu sem fram fara næstkomandi laugardag. Þar mun hann takast á við annan Norðlending, Vilhjálm Arnarsson, sem er þjálfari Brimis BJJ á Akranesi. Þó svo að Vilhjálmur sé einn af sterkustu keppnismönnum í íþróttinni hér á landi er Breki bjartsýnn. Hann segist vera að undirbúa sig markvisst með þjálfara sínum fyrir þær stöður sem Vilhjálmur er bestur í og sér fyrir sér að hann muni ná Vilhjálmi í uppgjafartak.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó