Bréf konungs í kassa á Akureyri

Bréf konungs í kassa á Akureyri

Grenndargralið þekkir mann í heimabyggð sem lumar á merkilegu skjali. Það er að segja ef fullyrðing hans um að skjalið sé ósvikið er á rökum reist. Grenndargralið dregur það ekki í efa. Gralið mælti sér mót við manninn á heimili hans ekki alls fyrir löngu. „Ég skal sýna ykkur konungsbréfið mitt“ segir hann og birtist með pappakassa í fanginu. Upp úr kassanum dregur hann samanbrotið bréf, gulleitt og snjáð. Í ljós kemur torskilinn texti, ritaður með fallegri rithönd og prýddur skrautstöfum.

Konungsbréfið er undirritað af Friðriki IV Danakonungi. Hann fæddist árið 1671 og ríkti sem konungur Danmerkur frá árinu 1699 til dauðadags 1730. Bréfið er ritað 7. september á því herrans ári 1705. Hér er því um tæplega 317 ára gamalt bréf að ræða, sent í nafni konungs og undirritað af honum sjálfum. Bréfið er tuttugusta og annað í röð konungsbréfa sem ritað var í nafni Friðriks IV. Erfitt er að rýna í innihald konungsbréfs nr. 22. Bent hefur verið á þýska fyrirsögn í upphafi þess; Friedrich der vierte von Gottes Gnaden sem mætti þýða sem Friðrik IV af guðs náð. Friðrik hvílir í Dómkirkjunni í Hróarskeldu.

Eitt af fyrstu konungsbréfunum sem sent var í nafni Friðriks, eftir að hann tók við völdum, er bréf sem hann sendi Íslendingum og er dagsett 10. nóvember árið 1700. Merkilegt skjal þar á ferðinni en þess er víða getið í íslenskum annálum. Í bréfinu tilkynnir hann þegnunum á Íslandi um tímamótaákvörðun sína að taka í notkun gregorískt tímatal.

Talandi um tíma. Hér er skemmtileg tenging. Friðrik IV var langafi Kristjáns VII, konungsins ráðvillta í bókinni Sigurverkið eftir Arnald Indriðason sem kom út fyrir jólin. Í bók Arnaldar segir frá Jóni Sívertsen, íslenskum úrsmið í Kaupmannahöfn sem lagfærir forna klukku í höll konungs. Konungur situr álengdar á meðan Jón tjaslar saman klukkunni og hlustar á hann rekja sorgleg örlög föður síns og fóstru á Íslandi sem faðir konungsins hafði látið taka af lífi í embættistíð hans. Sá hét Friðrik V. Hann var afabarn Friðriks IV sem sendi bréfið sem nú er geymt í pappakassa á Akureyri.

Heimild: Grenndargralið

Sambíó

UMMÆLI