NTC

Bréf frá norðlenskri sveitastúlku

Bréf frá norðlenskri sveitastúlku

Árið 1924 gáfu nokkrir galvaskir menn út vikublaðið Grallarinn. Aðeins sex tölublöð voru gefin út. Í öðru tölublaði birtist grein, skrifuð af Toddu Sigmundsdóttur, undir nafninu Bréf frá Norðlenskri sveitastúlku í Rvík, til systur sinnar í sveitinni.

Sagnalist rifjar upp raunir sveitastúlkunnar sem gerðist vinnukona á fínu heimili í Reykjavík. Í bréfi sem hún skrifar systur sinni segir hún frá hættulegu, en jafnframt kómísku atviki sem hún upplifði með húsfreyjunni á heimilinu.

„Reykjavik 20/10 1924.

Elskulega Magga mín!

Þá er ég nú komin í hana Reykjavík og búin að fá vist í voða fínu húsi.

Maðurinn frúarinnar er togaraskipstjóri, og voðalega ríkur. Ég var heppin að komast inn á svona heimili, þar sem alt er af fínustu tegund, og matarlagningin öll eftir kunstarinnar reglum, því hér er alt af slegið upp í kvennafræðaranum eða danskri kokkabók, áður en farið er að elda.

Bollur og friggadellur eru hafðar hér í alla mata og súpur, ég held næstum í alt nema hrísgrjónagraut, en hann er aftur hafður í sár-þunna súpu sem heitir klársúpa, en ekki veit ég af hverju, því ekki er hún soðin af hrossakjöti.

Þegar fólkið í stofunni borðar þá hengir það hvíta léreftsklúta framan á sig, sem heita servíettur, en þegar það er búið að borða, er klútunum snúið saman og stungið í silfurhring, en ekki veit ég enn af hverju þetta er gert.

Mikið hef ég nú oft orðið hissa á því sem ég hef séð hér. Hér er til dæmis ekki einn einasti lampi í öllu húsinu, og því ekkert sull með steinolíu, og ekkert lampaglas að pússa.

Hér brenna öll ljós rafmagni og þarf ekki annað en að íta við tippi sem er í hnúð á veggnum, þá kviknar á ljósunum. Skrítið þótti mér, að það er líka hægt að hita vatn með því að íta svona við tippi, en ég er nú oft búin að meiða mig á þeim fjanda, því ég varaði mig ekki á því að það má hvergi koma við skaftpottinn, sem soðið er í vatnið, nema við handarhaldið, því ef það er gert fær maður þenna voða stíng í hendina, svo manni liggur við að emja og grenja, en sársaukinn stendur ekki lengi.

Þá er gasið ekki síður einkennilegt. Mikið er soðið við það hér i húsinu, en ég tók í fyrstu ekki eftir að þar væri neinn eldur frekar en á rafmagninu, og frúin sagði við mig að ég skyldi sjá hvernig hún færi að því að slökkva á gasinu, og sneri hún þá fyrir eins og dálítinn krana.

Svo sagði hún að ég skyldi snúa honum langs þegar ég vildi kveikja á gasinu, en hún nefndi ekki að ég ætti að gera það með eldspítum, svo mér datt ekki í hug að það ætti að gera annað en skrúfa frá gasinu alveg eins og gert var með rafmagnið.

Þegar frúin sagði mér að seta upp tvo vatnskatla, setti ég því á bæði apparötin og skrúfaði frá. Frúin kallaði á mig rétt á eftir og sendi mig út í bæ, en þegar ég kem aftur, þá er komin þessi afskaplega fýla í eldhúsið, en katlarnir báðir ískaldir, annars tekur þetta enga stund að hita.

Eftir nokkra stund var ólyktin orðin svo mikil, að ég ætlaði alveg að kafna, svo ég sá ekki annað ráð en fara að sækja frúna, en þegar hún kemur í eldhúsið hnígur hún niður á gólfið, eins og kipt hefði verið undan henni fótunum, og lagðist endilöng meðvitundarlaus.“

Frásögn Toddu má lesa í heild sinni á Sagnalist.is.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó