Það hefur einhvern veginn atvikast þannig að þegar við tölum um þá sem eldri eru fyllumst við hálfgerðri lotningu og við tölum um þau með virðingu, virðingu sem þau hafa hlotið fyrir það eitt að eldast og öðlast reynslu í lífinu. Þegar við tölum um börn og ungmenni gerum við það alltof oft á lítillækkandi máta. Börnin okkar eiga skilið alla okkar virðingu; þau eru smá, veikbyggð, þau hvorki vita né geta jafn mikið og við, en það sem þau munu vaxa úr grasi og verða heimtar virðingu okkar, rétt eins og við virðum okkur eldra fólk.
Við erum ekkert sérstaklega hrifin af því þegar börn gagnrýna okkur afþví að þau eiga ekki að taka eftir mistökunum okkar eða því þegar við breytum rangt. Við köstum fram óraunsærri mynd fullkomnunar og bjóðum þeim að spila með okkur, en geymum kóngaspilin og ásana fyrir okkur sjálf. Ef lífið væri keppni í því hver veit mest og kann mest þá myndum við fullorðna fólkið alltaf vinna, afþví að við erum ekki bara að spila leikinn; við gefum spilin líka. Við erum svindlarar af guðs náð. Börnin okkar eru nefnilega jafnokar okkar í greind, það eina sem þau skortir er reynslan. Reynsluna geta þau ekki öðlast nema með árum og á meðan þau líða eru þau upp á okkur komin með nánast allt. Meðalgreind barna er ekkert endilega best metin í atvikum eins og þeim að fjögurra ára sonur minn vill ennþá að ég krjúpi fyrir framan hann, haldi í hendurnar á honum svo hann geti starað ákaft í augun á mér á meðan hann kúkar en hann vantar ennþá þroskann til að greina á milli þess sem er samfélagslega samþykkt og ekki, þar kemur uppeldið inn í. Mér ber að kenna honum hvað er rétt og hvað er rangt á meðan ég el hann upp í að læra að standa með sjálfum sér og passa að hann finni ekki fyrir óheilbrigðri þörf til að uppfylla þarfir samfélagsins og það er mitt að kenna honum að gera ekki hluti einungis vegna þess að samfélagið ætlast til þess af honum. Ég þarf að kenna honum allt þetta, ásamt því að kenna honum að skeina sér sjálfur.
Þau eru okkur fremri þegar kemur að tilfinningagreind, þau finna allar tilfinningar, ódeyfðar. Þau hafa ekki lært að sumar tilfinningar eru öðrum síðri, það erum við sem sýnum þeim í verki að sumar tilfinningar eigi að grafa. Það erum við sem kennum þeim ekki að vinna úr slæmum tilfinningum og fagna góðum og það erum við sem kennum þeim að álit annarra á okkur stjórni eigin líðan. Að jafnvel hlutir eins og læk á samskiptamiðlum geti haft áhrif á það hvernig við sjáum sjálf okkur eða á sjálfsálit okkar. Á meðan börnin okkar eru upp á okkur komin vegna smæðar sinnar og reynsluleysis verða þau að hlýða okkar óskum og fylgja okkar vilja.
Vegna þess hve upp á okkur fullorðna fólkið börnin eru komin er gríðarlega mikilvægt að muna nauðsyn þess að þau eigi einhvern að sem þau treysta og sem kemur fram við þau með hlýju, ást og virðingu. Brot á börnum skilur eftir sig djúp sár sem gróa sum hver aldrei. Það eru margir hræðilegir og ljótir hlutir í heiminum, en eitt það versta er þegar börn óttast foreldra sína eða aðra umönnunaraðila. Þegar börn eru spurð að því hverjum þau geta sagt frá líði þeim illa þá nefna flest þeirra foreldra sína eða kennara.
Börn eru fyrst og fremst manneskjur. Og rétt eins og við eiga þau rétt á friðhelgi einkalífsins. Þau eiga rétt á að við setjum ekki inn myndir af þeim á netið án þeirra leyfis. Þau eiga rétt á eigin hugsunum og leyndarmálum; það að lesa dagbók barnanna okkar er rangt. Okkur ber að virða eignir þeirra, þó að eignir þeirra hafi orðið til vegna okkar og jafnvel þótt eignirnar séu ekki margar eða stórar. Það er mikilvægt að eignarhald þessara hluta sé skýrt. Við kennum þeim það frá upphafi að það er eðlilegt og rétt að virða rétt annarra. Búum frekar þannig um hlutina að þau vilji segja okkur hugsanir sínar og deila með okkur tilfinningum sínum svo við þurfum ekki að fara bakdyraleiðina að þessum upplýsingum. Kennum börnunum okkar í verki að það er ekkert sem þau geta gert sem gerir það að verkum að þau missa réttindi sín. Auðvitað kennum við þeim að það eru afleiðingar af því sem við gerum, en rétt eins og við fullorðna fólkið þá eiga þau að vita að þau eiga ekki á hættu að vera slegin, flengd eða beitt annars konar hótunum eða ofbeldi fyrir að gera mistök.
Börnin okkar eru ekki framtíðin. Framtíðin er óljóst og loðið hugtak. Það að tala um börn sem framtíðina veitir okkur óáþreifanlegt, tímalaust svigrúm til að ákveða hvað er best fyrir okkur að þau geri. Þau eru hér núna. Þau eru áþreifanleg nútíðin.
Höfundur er sérfræðingur í félagsmálum barna og verkefnastjóri innleiðingar barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna.
UMMÆLI