NTC

Börnin í bænum

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.

Í stefnu sjálfstæðisflokksins er það eitt af markmiðunum að öll börn komist í leikskóla við 12 mánaða aldur. Að vonum hafa starfandi dagforeldrar áhyggjur af þessu markmiði okkar, þar sem þau sjá fram á að verða verkefnalausir.

Dagforeldrar á Akureyri óskuðu því eftir fundi með okkur til að fá nánari útskýringar á því hvernig við ætlum að koma þessu markmiði til framkvæmda og hver staða þeirra verði í kjölfarið.

Fjölgun rýma í leikskólum

Það er ljóst að til þess að uppfylla þetta markmið þarf að fjölga rýmum í leikskólum. Miðað við stöðuna s.l. haust hefði þurft 185 rými til viðbótar svo öll 12 mánaða gömul börn kæmust inn í leikskóla. Það þarf því að byggja fleiri leikskóla. Það er verið að undirbúa byggingu 140-150 barna leikskóla við Glerárskóla og þangað er ætlunin að flytja starfsemi Pálmholts, þar sem gamla húsnæði Pálmholts er talið ónothæft. Við gerum hins vegar ráð fyrir að nýta áfram húsnæði Flúða. Þá teljum við vænlegt að byggja nýtt og stærra húsnæði í stað Lundarsels við Lundarskóla og að síðustu þarf að byggja nýjan leikskóla í Naustahverfi. Þetta ásamt því að bjóða fimm ára börnum skólavist í grunnskólum ætti að skapa nægjanlegt rými fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri, ásamt möguleika á því að skapa meira rými á hvert barn í leikskólunum, en eftir því er kallað þessa dagana.

Foreldrar eiga val

Við viljum bjóða upp á sem mest val fyrir alla í samfélaginu. Það er engin ein ríkisleið til og á ekki að vera. Því viljum við bjóða foreldrum upp á þann möguleika að þeir geti komið barni sínu í vist hjá dagforeldri í stað leikskóla. Á Akureyri er starfandi hópur dagsforeldra sem hefur sinnt starfi sínu mjög vel og eru eftirsóttur valkostur. Forsenda þessa er að kostnaður foreldra verði sá sami hvort sem barnið er hjá dagforeldri eða í leikskóla. Miðað við þær samræður sem við áttum við dagforeldra hafa þeir einnig hugmyndir um ýmislegt annað sem þyrfti til, svo þetta geti orðið að veruleika. Við lýstum því yfir að við værum að sjálfsögðu tilbúin til að hlusta á þá sem og starfsmenn og stjórnendur leikskólanna um leiðir og útfærslur á hugmyndum okkar. Það bíður okkar því ærið verkefni eftir kosningar við að gera bæinn okkar betri fyrir börnin okkar.

Gunnar Gíslason

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó