Borgin mín – Tórínó

Borgin mín – Tórínó

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við fáum að heyra sögur af borgum víðsvegar í heiminum frá Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Í dag segir Svalbarðsströndungurinn Árni Steinar Stefánsson okkur frá Tórínó á Ítalíu.

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég er í meistaranámi í vinnumarkaðsfræði við Háskólann í Tórínó og Alþjóðavinnumálastofnunina. Mig hafði lengi dreymt um að fara í framhaldsnám í vinnumarkaðsfræði og þegar þessi möguleiki poppaði upp fyrir tilviljun sl. sumar þá var ég ekki lengi að hugsa mig um. Það að hluti námsins er kenndur hér í Tórínó á Ítalíu var svo sannarlega ekki að skemma fyrir. Ítalía hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér og ég er bölvaður Ítali í mér.

Tórínó er höfuðborg héraðsins Piemonte og er fjórða stærsta borg Ítalíu, með um 900 þúsund íbúa. Hún er að mestu leyti staðsett á vesturbakka árinnar Pó og er oft kölluð „höfuðborg Alpanna“.

Campus lífið getur verið erfitt

– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Ég bý á risastórum campus á bökkum Pó. Ég hef aldrei upplifað almennilegt campuslíf áður, þannig að mér fannst þetta eftirsóknarverður kostur. Ég get ekki sagt að kostnaðurinn sé fram úr hófi – finnst hann ósköp sanngjarn. Þetta er a.m.k. í engu samræmi við helsjúkan leigumarkaðinn á Íslandi. Þá er herbergið manns þrifið á hverjum degi og öll föt þvegin og straujuð, sem er bölvaður lúxus. Þess má geta að ég er í bekk með 27 einstaklingum frá 24 mismunandi löndum, þannig að fjölbreytileikinn er í fyrirrúmi.

Matarmarkaðurinn Eataly

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Ekki get ég sagt það – það er bölvað 2007-útstáelsi á manni hérna. Sterkt gengi okkar ágætu krónu er að gera manni fínan greiða um þessar mundir. Til að nefna dæmi þá kostar þriggja rétta máltíð með rauðvínsglasi 3-4.000 kr. á meðalgóðum veitingastað. Meðalgóður veitingastaður hér í Tórínó er eins og háklassastaður víða annars staðar.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Hafa ber í huga að Tórínó er fyrrverandi höfuðborg Ítalíu og er saga hennar er þ.a.l. bæði löng og áhugaverð. Sögulega séð myndi ég segja að frægustu kennileiti borgarinnar séu hinar ævafornu hallir sem margar eru á heimsminjaskrá UNESCO. Í því samhengi má t.d. nefna hallirnar Palazzo Reale, Palazzo Carignano og Palazzo Madama. Þá má einnig nefna Egypska safnið, sem þykir það besta sinnar tegundar utan Egyptalands.

– Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Það er freistandi að nefna hverfið San Salvario, en það verður seint talinn staður sem fáir vita af. Engu að síður er hverfið vanmetið og gríðarlega sjarmerandi m.t.t. arkitektúrs, mannlífs, veitingastaða og lifandi tónlistar. Þá leynast hér nokkrir stórkostlegir matarmarkaðir/matarhátíðir og sælkeraverslanir sem vert er að heimsækja, t.a.m. Eataly. Ég mæli jafnframt eindregið með að fólk prófi að sigla á kajak í gegnum borgina – það er frábær leið til að virða borgina fyrir sér.

Plebbinn í mér getur ekki annað en minnst líka ein allra frægustu vínræktarsvæði ítalíu – Barolo og Barbaresco, sem eru í næsta nágrenni við Tórínó. Umrædd svæði eru heimkynni þrúgunnar Nebbiolo, en úr henni eru framleidd kröftug og tannísk vín sem þykja þau bestu sinnar tegundar. Ég mæli svo sannarlega með að fólk skelli sér þangað í hágæða vínsmökkun.

– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Matar- og vínmenningin er gríðarleg rík hér í Tórínó. Þar af leiðandi er af nægu að taka og úrvalið nánast endalaust. Hvað matinn varðar þá hef ég heillast mjög af hinu svokallaða „aperitivo“, sem er í raun happy hour þeirra Ítala, nema hvað að þeir leggja meiri áherslu á matinn en drykkina. Bestu aperitivo-staðina er að finna í áðurnefndu San Salvario-hverfi, þar sem staðirnir Beerba og Lanificio San Salvatore standa fremstir meðal jafningja.

Ekta aperitivo

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Ég var að vonast til að sleppa við þessa spurningu. Eins mikið og ég dýrka ítölskuna þá hef ég verið í bölvuðu basli með framburðinn hingað til. Þetta er samt allt að koma. Ítölsku gesture-in eru aftur á móti mín deild.

– Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Já og nei. Maður var merkilega fljótur að fitta inn hérna, en með tímanum hef ég staldrað við hitt og þetta sem tengist aðallega matar- og drykkjarmenningunni. Til að mynda má nefna að almennt séð þá borða Ítalir ekki morgunmat – í mesta lagi einn espresso og croissant. Hér þykir jafnframt fáránlegt að panta sér eitthvað annað en gott vín eða bjór með kvöldmatnum og þeir sem panta sér cappuccino eftir klukkan 12 eða dirfast að biðja um sósu með matnum eru litnir hornauga. Ég er ansi hræddur um að margur Íslendingurinn yrði í bölvuðu balsi hérna þegar kemur að mat…„What do you mean you don‘t have any cheesy breadsticks or cocktail sauce??“. Hér njóta menn líka yfirleitt kvöldmatarins í 2-3 tíma – eitthvað sem Íslendingar mættu gjarnan taka sér til fyrirmyndar.

Áin Pó rennur í gegnum borgina

– Hvað einkennir heimamenn?
Ég myndi ég segja að heimamenn séu almennt frekar lokaðir, skemmtilega hrokafullir, miklir nautnaseggir, afslappaðir og ástríðufullir. Þá eru íbúar Tórínó ákaflega stoltir af borginni sinni og þykir hún mun merkilegri en aðrar borgir á Ítalíu. En þeir mega líka vera stoltir.

Ég get ekki annað en minnst líka á knattspyrnuæðið sem hér ríkir. Hér hafa ALLIR áhuga á fótbolta og styðja sitt lið fram í rauðan dauðann, þ.e. annað hvort gjörspillta peningabatteríð Juventus eða hið glæsilega alþýðulið Torino F.C., með goðsagnirnar Andrea Belotti og Maxi Lopez fremsta í farabroddi.

Heimavöllur Juventus

– Helstu kostir borgarinnar?
Fyrst og fremst ber að nefna heimsklassa matar- og vínmenningu. Einnig er veðurfarið og staðsetningin góð. Tórínó var á sínum tíma þekkt sem ein mesta iðnaðarborg Evrópu (sbr. Fiat og Alfa Romeo), en í seinni tíð hefur hún orðin mun nútímalegri og í dag má segja að hún sameini það gamla og nýja einstaklega vel. Þar fyrir utan er massatúrisminn í algjöru lágmarki, a.m.k. ef miðað er við t.d. Mílanó og Róm.

– Helstu gallar borgarinnar?
Ég hef satt að segja ekki rekið mig á margt hingað til. Mér dettur einna helst í hug að minnast á mengunina, en borgin er skv. nýjustu mælingum fimmta mengaðasta borg Evrópu.

Lokaorð
Fyrir þá sem hafa ekki ennþá heimsótt Tórínó þá hvet ég þá til að gera það sem fyrst – þið munið ekki verða fyrir vonbrigðum. Þetta er mögnuð borg sem tekur vel á móti manni, hvort sem maður er að leita að merkilegum arkitektúr, iðandi mannlífi, fótbolta eða miklum freistingum þegar kemur að mat og drykk!

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó