Borgin mín – Stokkhólmur

Borgin mín – Stokkhólmur

Borgin mín er liður á Kaffinu. Hér komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Rakel Eddu Bjarnadóttir, Akureyring til að kynna okkur fyrir Stokkhólmi.

– Hvers vegna býrð þú í borginni? Af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Mig hefur alltaf langað til þess að læra sænsku og Stokkhólm hefur alltaf heillað mig. Þegar ég útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 2011 þá seldi ég allt sem ég átti á Íslandi og tók með mér snjóbrettið mitt og ákvað að láta allt koma í ljós. Markmiðið var að læra sænsku og fara til Åre á snjóbretti.

15970528_10157996459990640_1556180683_n
– Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? Er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég bý í lítilli íbúð mjög miðsvæðis. Ég var mjög heppin og er ekki að borga dýra leigu miðað við staðsetninguna. En almennt er mjög dýrt að leigja (og kaupa) húsnæði hér.

– Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Nei ég held að það sé svipað, en í hlutfalli við launin er kannski aðeins ódýrara að lifa hér.

– Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Gamli bærinn (Gamla Stan) er mjög fallegur og mikill túristastaður. Svo er mikið af söfnum hér líka, t.d. Vasa Museum, Fotografiska og ABBA safnið. Það er líka vinsælt að sigla um eyjarnar hér.

– Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Uppáhalds kaffihúsið mitt er Ilcaffé á Drottningagötunni. Mikið af fastagestum, skemmtileg stemmning og bestu kanilsnúðarnir. Uppáhalds veitingastaður….ætli ég verði ekki að nefna hamborgarastaðina sem ég er frekar dugleg að heimsækja, Flippin´ Burgers og Prime Burger!

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Já. Sænskan er einfaldari en íslenskan svo ég átti ekki erfitt með að læra sænskuna. Ég var líka frekar fljót að ná framburðinum en það snýst mikið um að þora. Ég fékk vinnu þegar ég var bara búin að vera hér í viku og þá ákvað ég að ég ætlaði ekki að tala ensku við viðskiptavinina heldur bara láta vaða á sænskunni. Ég hef lent í allskonar fyndnum og vandræðalegum aðstæðum þegar ég hef sagt eitthvað bandvitlaust en það er líka þannig sem ég lærði svo fljótt. Ég fór í mastersnám hér þar sem allt var kennt á ensku svo stundum fór allt í graut þegar ég las námsefnið á ensku, talaði um það á sænsku við bekkjarfélagana og hugsaði um það á íslensku.

15978221_10157996459765640_1771552230_n
– Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Nei ekkert menningarsjokk en það er smá munur á svíum og íslendingum. Svíar eru almennt mjög kurteisir og heilsa alltaf. Þeir spurja alltaf hvernig maður hefur það og hlusta gaumgæfulega á svarið.
Svíar eru mikið fjölskyldufólk og mikið lagt upp úr samverustundum með fjölskyldunni. Um helgar eru alltaf allir garðar og leikvellir fullir af börnum og fullorðnum að leika sér.
Mín tilfinning er líka sú að Svíar eru heilsusamlegri en Íslendingar. Það er mikið úrval af hollum og lífrænum mat í matvöruverslunum og úrval af hollum veitingastöðum.

– Hvað einkennir heimamenn?
Svíar eru almennt kurteisir en frekar lokaðir og þeir eru mjög stundvísir! Ef að þú bíður í party klukkan 20 þá koma allir klukkan 20 og ekki klukkan 22 eins og á Íslandi.  Hér fara líka allir í röð og í rúllustiganum standa allir hægra megin.

– Helstu kostir borgarinnar?
Svo margt hægt að gera og ef maður verður þreyttur á stórborgarstemmningunni þá er ekki langt að fara út í skóg og fallega náttúru. Á sumrin er t.d. ótrúlega gaman að fara á kajak eða stand up paddle board. Á veturna er stutt að fara á gönguskíði og skauta. Fullt af kaffihúsum og söfnum og auðvelt að fara á milli staða með almenningssamgöngum eða á hjóli.

15942282_10157996458545640_1714525369_n
– Helstu gallar borgarinnar?

Það er mjög erfitt að fá húsnæði og það er mjög erfitt að fá húsnæði á sanngjörnu verði.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Já það gæti alveg endað þannig. Þegar ég flutti hingað 2011 þá hafði ég ekki hugmynd um hversu lengi ég myndi stoppa og hér er ég enn, tæpum 6 árum síðar. Mér líður mjög vel í Stokkhólmi og er búin að koma mér vel fyrir.

Sambíó

UMMÆLI