NTC

Borgin mín – Rabat

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við ræðum við fráflutta Akureyringa um borgir sem þau búa í víðsvegar um heiminn. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Berglind Bernardsdóttir býr í Rabat þar sem hún stundar nám við Sálfræði.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég flutti til Rabat í september til þess stunda nám við NIMAR, litla akademíska stofnun sem tilheyrir að hluta til háskólanum mínum í Hollandi (Leiden University) og svo hollenska sendiráðinu í Marokkó. Ég er á mínu þriðja ári í sálfræði við háskólann í Leiden og prógrammið hér telst sem hluti að því. Fyrri hluti annarinnar fór í að læra arabísku og almennt um samfélag og menningu í Marokkó. Seinni hlutinn fer svo í sjálfstæða rannsóknarvinnu þar sem ég er að vinna að rannsókn um upplifun innflytjenda frá Afríku sunnan Sahara í Rabat.

Ástæðan fyrir að ég valdi Rabat var fyrst og fremst möguleikarnir sem námið býður upp á, en þrá eftir að upplifa ólíkan menningarheim, sem og veðurfarið spilaði líka inn í. Svo er matarmenningin hérna algjör draumur fyrir nautnasegg eins og mig.

-Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Fyrstu vikurnar mínar hér bjó ég hjá marokkóskri fjölskyldu í miðri Medinunni (gömlu borginni) en nú deili ég íbúð með marokkóskum vini mínum í Hassan-hverfinu. Staðsetningin er fullkomin en það tekur mig 10 mínútur að labba að gömlu borginni frá íbúðinni minni, 5 mínútur á lestarstöðina og 10 mínútur að skólanum í hina áttina. Allt í kring eru svo kaffihús, veitingarstaðir og barir. Þar sem íbúðin er staðsett í góðu hverfi þá er leiguverðið ekki það ódýrasta í borginni en þrátt fyrir það er ég að borga mun minna en ég myndi gera á íslandi.

-Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Þó að Rabat teljist vera dýr borg á Marokkóskan mælikvarða þá er mun ódýrara að lifa hér en á Íslandi. Ég lifi mjög góðu lífi hér, ferðist mikið og er dugleg að kíkja á kaffihús og út að borða en er samt að eyða mun minna en ég myndi gera á Íslandi.

 

 

-Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Þrátt fyrir að Rabat sé höfuðborg Marokkó þá leggja ekki margir ferðamenn leið sína hingað. Mér finnst borgin ótrúlega falleg, róleg og vel þess virði að heimsækja hana! Helstu kennileiti borgarinnar Kasbah de Oudayas, Hassan Tower og Chellah, og svo auðvitað Medinan. 

-Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Held að ég verði að nefna Museé Mohammed VI d’Art Moderne et Contemporain, nútímalistasaft sem býður upp á skemmtilega blöndu af marokkóskri list sem og list frá löndum sunnan Sahara. Þar er líka ótrúlega næs kaffihús með besta cappuchino sem ég hef fengið í borginni.

-Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Uppáhalds veitingarstaðurinn minn er klárlega sýrlenskur veitingarstaður sem heitir Yamal Acham. Þau bjóða meðal annars upp á himneskan hummus, eggaldin mtabel, flatbrauð, falafel vefjur, ferskan lime og mynntusafa og svo alls konar sætmeti á borð við baklawah, haytaliyeh og mamonia. Borða þar oft í viku!

Uppáhalds kaffihúsið er svo Café Maure des Oudayas, staðsett á kletti með dásmalegt útsýni yfir ánna, sjóinn og gamla borgarvirkið. Klárlega besti staðurinn fyrir mynntute og marokkóskar smákökur.

Annars er ég líka mjög hrifin af götufæðinu hérna. Í uppáhaldi hjá mér er pítubrauð fyllt með kartöflubollum og allskonar góðgæti, marokkóskar pönnukökur með hunangi og ferskir ávaxtasafar, getur fengið heila máltíð fyrir undir 10 dirham (100 krónur íslenskar)! 

 

 

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Heimamenn tala flestir darija (marokkósk arabíska) og svo frönsku sem annað mál. Ég tala litla sem enga frönsku en er búin að vera að læra arabísku síðan ég kom hingað í september. Tungumálið er gjörólíkt íslensku, sérstaklega framburðurinn, en í arabísku eru mörg kokhljóð sem ég á mjög erfitt með að bera fram rétt. Get núna rétt svo bjargað mér þegar ég er að versla og átt í mjög einföldum samtölum.

-Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Það er rosalega erfitt að bera menninguna hér saman við þá íslensku, þetta er svo gjörólíkur menningarheimur! Það augljósasta er sennilega að landið er íslamstrúar og það hefur auðvitað áhrif á daglegt líf fólks. Svo þarf náttúrulega að venjast því að prútta á mörkuðunum, list sem ég hef ekki enn náð að fullkomna.

Þrátt fyrir að ég hafði komið til Marokkó áður og vissi nokkurnveginn við hverju ég ætti að búast þá viðurkenni ég alveg að ég var vör við smá menningarsjokk. Til að mynda er staða kvenna hér allt önnur en heima, og það er eitthvað sem ég á erfitt með að venjast.

 

 

-Hvað einkennir heimamenn?

Heimamenn eru ótrúlega gestrisnir og vinalegir. Þeir eru alltaf til í ‘smalltalk’ og eru rosalega áhugasamir. Það hefur margoft komið fyrir að manni sé boðið inn á heimili ókunnugs fólks í mynntute eða kúskús. Svo er manni ekki hleypt aftur út nema maður taki við gjöfum t.d. döðlum, hunangi, hnetum og rósablöðum.

Já og svo eru þeir líka mjög góðir við ketti!

-Helstu kostir borgarinnar?

Fyrir einstakling í sömu forréttindastöðu og ég er voða ljúft að lifa í borginni. Hún er bæði hefðbundin og nútímaleg á sama tíma, frjálslynd og íhaldssöm. Borgin er rosalega vestræn og má segja að hún sé ‘auðveld’ borg á Marokóskan mælikvarða. Það kom mér sérstaklega á óvart hversu mikið er um að vera, endalausir listaviðburðir og tónleikar. Andrúmsloftið er einstaklega afslappað og fólk gefur sér alltaf tíma fyrir spjall á götum úti. Ég elska að gera mér ferð á markaðinn í gömlu borginni, kaupa ferska ávexti, grænmeti, krydd og hnetur og spjalla við sölumennina í leiðinni. Staðsetningin er líka fullkomin, alveg við ströndina þar sem hægt er að fara á brimbretti eða leigja báta.

 

 

-Helstu gallar borgarinnar?

Borgin hefur marga galla en flestir þeirra hafa ekki bein áhrif á mig. Hér er til að mynda mikil fátækt og spilling, og jaðarhópar á borð við einstæðar mæður, flóttamenn frá Afríku sunnan Sahara og samkynhneigðir upplifa allt annan veruleika en ég geri.

Það sem hefur hins vegar mest áhrif á mitt daglega líf er kynferðisleg áreitni á opinberum svæðum. Það heyrir til undantekninga að maður verði ekki fyrir ‘kisuköllum’ (catcalling) á götum úti, þar sem ungir menn kalla á eftir manni kynferðislegum athugasemdum og jafnvel elta mann.

-Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Að búa hérna er hefur verið ótrúleg reynsla. Maturinn, veðrið, fólkið og menningin er hvert öðru dásamlegra. Ég á klárlega eftir að koma aftur í heimsókn en efast um að ég muni setjast hér að. Sem kona hef ég skert frelsi hér og er ekki viss um að ég gæti vanist því.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó