NTC

Borgin mín – Prag

Borgin mín – Prag

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við fáum að heyra sögur af borgum víðsvegar í heiminum frá Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni segir Andri Yrkill Valsson okkur frá Prag í Tékklandi.

Hvers vegna bjóst þú í borginni? Og af hverju valdirði hana frekar en aðrar?

Ég fór sem skiptinemi til Prag á síðustu önninni minni í BA-námi í stjórnmálafræði. Ég ætlaði reyndar allt annað fyrst, en svo voru svo margir skólar í boði úti um allt að ég fór að horfa meira í kringum mig. Ég fór því að lesa mér til um borgir víða um Evrópu og fannst Prag mest heillandi til lengri tíma litið. Og sé svo alls ekki eftir því.

Í hvernig húsnæði bjóstu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég setti inn auglýsingu í hóp á Facebook sem er með leiguhúsnæði í Prag og Englendingur búsettur í borginni hafði samband við mig. Hann var þá að fara aftur heim í hálft ár og að hentaði honum vel að fá inn skiptinema á meðan. Það var reyndar svolítið skrítið að flytja erlendis og setja allt mitt traust á að „einhver“ gaur á Facebook myndi redda mér húsnæði, en það voru óþarfa áhyggjur.

Ég bjó nefnilega í vægast sagt flottri íbúð á tveimur hæðum með stórri verönd og allt til alls. Inn af mínu herbergi var til dæmis sérstakt fataherbergi, sem undirstrikar lúxusinn. Ég var líka mjög miðsvæðis, tók mig 20 mínútur að fara í skólann í aðra áttina og 20 mínútur niður í miðbæ í hina áttina. Ég leigði með stelpu frá Hvíta-Rússlandi sem er að vinna í Prag, sem var mjög fínt þó menningarmunur á okkur hafi stundum komið svolítið í ljós. En áhugaverð reynsla í nokkra mánuði.

Það er alveg gríðarlega mikill verðmunur á því að leigja í Prag og á Íslandi. Fyrir þessa íbúð borgaði ég minna en ég gerði fyrir herbergi á stúdentagörðunum í Reykjavík! Krakkar sem voru með mér í skólanum úti og bjuggu á stúdentagörðum voru að borga svona þrefalt minna en ég, en gæðin voru líka eftir því. Við getum sagt að þar hafi maurar komið við sögu, á meðan allt var til alls hjá mér.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Nei, alveg hreint hræódýrt. Við getum orðað það þannig að það var nánast aldrei eldað heima, sem er í raun synd því eldhúsið var svo flott. Það fer eftir veitingastöðum, en þú getur fengið þriggja rétta máltíð á þúsundkall. Það er því hægt að ímynda sér hvað námsmaður í borginni getur komist auðveldlega af.

Svo eru Tékkar ein stærsta bjórþjóð heims, og það litar menninguna þarna mikið. Úti í búð kostar bjórinn um 50 kall, og það er ódýrara heldur en að kaupa vatn. Þegar við úr skólanum fórum út þá var heldur aldrei byrjað í einhverjum heimapartýum eins og á Íslandi, því áfengi er svo ódýrt.

En það er ekki bara matur og drykkur sem er ódýr, heldur eru samgöngur gott dæmi. Ég var með hálfsmánaðar samgöngukort fyrir stúdenta, og það kostaði mig 6 þúsund kr. Ég hef ferðast víða en hef aldrei kynnst jafn þægilegum og auðveldum samgöngum og í Prag. Með metro, trams og strætóa sem ganga allan sólarhringinn kemstu hvert sem er mjög auðveldlega. Og hræódýrt.

Það voru því eiginlega mestu viðbrigðin að koma aftur heim í íslenskt verðlag. Ég er því nánast alveg hættur að bruðla eða setja einhvern óþarfa ofan í körfuna þegar ég fer að versla.

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Miðbærinn er í raun allur undirlagður af ferðamönnum á sumrin. Frægasta kennileitið er án efa Charles Bridge, sem byggð var árið 1357. Kastalahverfið og dómirkjan stendur svo þar fyrir ofan og gnæfir yfir.

Astronomical clock á Old Town Square er svo sú elsta sinnar tegundar í heimi og þekktur viðkomustaður. Lennon Wall er áhugaverður minnisvarði. Wenceslas Square er stórt breiðstræti þar sem Þjóðminjasafnið stendur tignarlegt við annan enda torgsins, og svo stendur Þjóðleikhúsið við árbakkann. The Dancing House er þar skammt frá, sem er byggt í ansi áhugaverðum stíl. Þá eru ótaldar fjölmargar glæsilegar kirkjur og fallegir almenningsgarðar sem eru víða um borgina, svo eitthvað sé nefnt. Það er hægt að telja endalaust upp.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Það koma nokkrir staðir sérstaklega upp í hugann og má fyrst nefna Petrín Hill, þar sem er að mínu mati besta útsýnið yfir borgina og gaman að koma þangað. Og þrátt fyrir að vera gömul og gróin borg eru fullt af opnum svæðum sem gaman er að skoða og hægt að labba um.

Vysehrad, Letná Park og Riegrovy Sady eru virkilega fallegir staðir, hver og einn með sitt sérstaka útsýni yfir borgina sem er öðruvísi en það sem hægt er að sjá á þessum hefðbundnu ferðamannastöðum. Ég get sérstaklega mælt með Riegrovy Sady, þar sem er vinsælt að fara í lautarferðir í góðu veðri.

Það sem er svo gaman við þessi opnu svæði er líka að á sumrin eru settir upp hinir ýmsu markaðir, matar- og bjórtjöld og fleira þar sem heimafólk kemur saman. Við úr skólanum hittumst til dæmis oft á þeim stöðum seinni partinn, keyptum okkur einhvern local bjór úr tjaldi og nutum góða veðursins.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Heimafólk sýndi mér mjög skemmtilegan veitingastað í þröngri hliðargötu sem fáir virtust vita af þrátt fyrir að hann væri í miðbænum. Ég fór í stutta heimsókn aftur til Prag núna í febrúar, en þá kom í ljós að staðurinn er búinn að loka, búið að negla fyrir glugga og miði á hurðinni. Það var klárlega minn uppáhalds.

En það er mikið af mjög góðum stöðum. Ef ég takmarka mig við staði sem bjóða upp á tékkneskan mat, sem verður nú að prófa ef maður er þarna á annað borð, þá koma fyrst upp í hugann þeir Zlatý klas og Vinárna U Laury. Báðir góðir og ódýrir líka – jafnvel á tékkneskan máta, þrátt fyrir að vera mjög miðsvæðis.

Það eru svo endalaust af litlum kaffihúsum um alla borg, sérstaklega í hverfinu Prag 2 þar sem ég bjó sem er þekkt fyrir að vera í mikilli uppsveiflu um þessar mundir. Skemmtilegast var þó á þessum fjölmörgu matarmörkuðum að kaupa sér mat eða kaffi í einu tjaldinu og rölta um eða setjast niður.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Nei, tékkneskan er af allt annarri tungumálaætt en íslenskan og er sagt eitt erfiðasta slavneska tungumálið sem hægt er að læra. Það var boðið upp á tungumálatíma í skólanum sem ég tók þó ekki, þar sem aðeins var um hálft ár að ræða og ég gat ekki notað þær einingar upp í námsferilinn.

Ég kann þó þetta týpíska að heilsa og kveðja, þakka fyrir mig og slíkt. Eina setningin sem ég kann er svo að panta mér bjór, og búandi í Prag kemur það manni ansi langt.

Varstu var við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Ekki í fljótu bragði, þó Tékkar séu svolítið hranalegir stundum. Eina sem maður kannski rak sig á voru tungumálaörðugleikar. Það eru alls ekki allir sem tala ensku, og til dæmis tók það mig heila eilífð að skipta pening einu sinni því fólk vísar manni frekar frá heldur en að reyna að hjálpa ef það talar ekki ensku.

Hvað einkennir heimamenn?

Þeir geta verið svolítið kaldir og hranalegir og eru þekktir fyrir það, en það sem er kannski það helsta er hversu mikið er reykt.

Helstu kostir borgarinnar?

Mér finnst allt æðislegt við Prag, sama hvert er litið, og ég tala um hana sem mína aðra heimaborg. Hún er ótrúlega falleg og gaman að ganga um, húsin eru svo mismunandi og hægt að sjá marga byggingarstíla bara með því að labba niður eina götu.

Svo eru samgöngur svo auðveldar og þægilegar, ekki bara innan borgarinnar heldur einnig við Evrópu. Ég var að fara í dagsferðir til Þýskalands, helgarferðir til Póllands og skrapp til Búdapest um páskana með rútu/lest. Þú færð ekki meiri miðpunkt Evrópu hvað stórborg varðar heldur en Prag.

Þegar ég var búinn að ákveða að fara þangað í skiptinám fékk ég oft einhvern efasemdarsvip frá Íslendingum, af hverju í ósköpunum ég væri að fara þangað. Þá fann ég svo sterkt hversu miklir fordómar leynast hér gagnvart Austur-Evrópu, en Prag er nú samt vestar á korti heldur en til dæmis Vín í Austurríki.

Mér finnst því fáfræði svolítið einkenna ímyndina, bara því Tékkland var fyrir austan járntjaldið. Það kom þó sjálfum mér meira að segja á óvart að stelpur sem voru skiptinemar frá Finnlandi sögðu til dæmis að þær væru mun öruggari einar á ferð í Prag heldur en heima í Helsinki.

Í maí er svo kominn 20 stiga hiti, svo það þarf ekki alltaf að stinga af til Spánar fyrir gott veður. Ofan á það allt saman er svo verðlagið algjört grín eins og ég hef minnst á. Prag er allur pakkinn

Helstu gallar borgarinnar?

Það er ekki neitt sem kemur mjög sterkt upp í hugann, fyrir utan það að reykingar eru leyfðar inni á veitingastöðum og börum. Lyktin festist því í fötin þín nánast um leið og þú stígur inn fæti á einhvern stað. Það er reyndar að breytast núna og fleiri staðir farnir að banna reykingar, en er enn stærsti gallinn að mínu mati.

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Ég er viss um að alla tíð muni ég koma reglulega aftur í heimsókn til Prag, eins og ég gerði bara núna í febrúar. Ég sé mig þó ekki setjast þar að til frambúðar, sérstaklega ekki á tékkneskum vinnumarkaði. Því þó verðlagið sé algjör brandari fyrir okkur þá er þetta í samræmi við kaupmátt heimamanna. En Prag mun alltaf eiga hlut í mér og vekja upp fjölmargar ótrúlega góðar minningar.

Sambíó

UMMÆLI