Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við ræðum við fráflutta Akureyringa um borgir sem þau búa í víðsvegar um heiminn. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.
Anna Helena er 22 ára akureyringur í skiptinámi í París og ætlar að segja okkur frá borginni og lífinu þar.
Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Ég er í París í skiptinámi hjá Paris School of Business frá HÍ í eina önn. En ég hef einu sinni áður komið til Parísar og það var æðislegt og svo þegar ég fór að skoða skólana sem ég gæti valið fyrir skiptinámið þá sá ég skóla í París og ég bara skellti mér á hann.
Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Íbúðamálin hér eru erfið og flókin. Ég byrjaði semsagt á því að koma án þess að vera komin með íbúð og ætlaði að gefa mér eina viku í að finna íbúð, sem var versta hugmynd í heimi. Það endaði þannig að ég flakkaði á milli hótela í tvær vikur á meðan ég leitaði af íbúð. En ég fékk svo stúdíóíbúð lengst uppi í 19.hverfi á stúdentagörðum, það var mjög fínt fyrst en svo eftir að ég byrjaði í skólanum vöruðu kennararnir við þessu hverfi, svo ég fór að leita að öðru. Ég er svo loksins núna komin í aðra stúdíóíbúð á stúdentagörðum í 12.hverfi sem er virkilega kósý og skemmtilegt hverfi. En þetta er töluvert dýrara en heima en það er einmitt ódýrara því lengra sem þú ferð frá miðjunni í París.
Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Nei ég myndi ekki segja það, það er miklu ódýrara að fara í matvörubúð og versla. Það er líka mikið ódýrara að fara út að borða og fá sér steik og vín en á Íslandi. Það eina sem ég hef tekið eftir er að kók í gleri er mikið dýrara en á íslandi eða um 1000kr, það var mjög leiðilegt að komast að því fyrir kókista eins og mig.
Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Það er auðvitað Eiffel-turninn, Louvre safnið og garðurinn, Sacré Cæur og Versalir sem eru rétt fyrir utan París, Sigurboginn við Champs-Elysées, Notre-Dame og Operuhúsið svo eitthvað sé nefnt. En það er ekkert betra en að kaupa crossaint, makkarónur og kaffi og sitja í Luxembourg/Louvre garðinum eða kaupa pizzu og vín og sitja við Seine og njóta.
Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Það er erfitt að segja hvort fáir viti af einhverjum stöðum en ég hef fundið nokkra skemmtilega staði sem ég hafði ekki hugmynd um fyrr en ég flutti hingað. Til dæmis Rue Cremieux er svo krúttleg lítil gata í 12.hverfi með allskonar litríkum húsum og gróðri. Svo er Parc de la Villette skemmtilegur garður en hann er lengst upp í 19.hverfi, mjög kósý að labba í gegnum hann og sjá La Géode sem að utan lítur út fyrir að vera risa málmkúla en er í rauninni bíó sem er sjúklega kúl. Síðast en ekki síst þá er svona mini-version af bandarísku frelsisstyttunni í Pont de Grenelle í 15.hverfi. Mjög fyndið að sjá hana þarna en ef þig hefur alltaf langað til að sjá hana þá geturu bara komið til Parísar.
Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Þeir eru nokkrir sem ég hef fundið en það eru endalaust af kaffihúsum/veitingastöðum hérna. Þú nánast sérð þá á hverju horni og oft marga á sama horni, stundum skil ég ekki einu sinni hvernig. Á veitingastöðunum hérna er oft mjög standard hvað er á seðlinum, þú ferð t.d. ekki á veitingastað án þess að það sé Croque Monsieur/Madame sem er mjög einföld samloka með smá frönsku yfirbragði. Svo hef ég komist að því að frakkar eru mjög hrifnir af grænum baunum með öllu og svo elska þau McDonalds.
En til að nefna einhverja staði sem mér finnst góðir :
1. Café des Officiers, mjög fínn svona hádegis-staður, hann er rétt hjá Les Invalides sem er mjög miðsvæðis.
2. Ladurée, án djóks bestu makkarónur í heimi! Ég hef aldrei bragðað á neinu jafn unaðslegu og þessum makkarónum og stefni ég á að reyna opna eina Ladurée á Íslandi innan 5 ára.
3. Le Suffren, veitingastaður rétt hjá Eiffel og við endann á Champs de Mars garðinum. Þar átti ég eina af fyrstu máltíðum mínum í París og hún gerði mig mjög spennta fyrir matarmenningunni hér.
4. Margherita, mjög kósý bar í 6.hverfi og einstaklega skemmtilegt að labba um hverfið eftir að hafa fengið sér einn ískaldann eða vínglas.
Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Mjög leiðilegt að segja frá því en ég kann ekki tungumálið og hef ekki verið nógu dugleg að æfa mig. Ég hef einungis lært aðalfrasana eins og Bonjour (góðan daginn), Ça va? (hvað segiru?), Parlez-vous anglais? (talaru ensku?), Au revoir (bless) en ég þarf að fara hirða upp um mig buxurnar og læra eitthvað meira.
Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Ég fékk ekkert rosalegt menningarsjokk nema kanski það að það reykja allir í París og ef þú reykir ekki þá ertu frekar skrítinn. Fólk er oft byrjað að rúlla sér í rellu eða búnir að taka hana út þegar þeir stíga inn í metro og svo hlaupa þau út og kveikja í henni af því þeir geta ekki mögulega beðið í fimm mínútur í viðbót. Þú ert einnig talinn skrítinn ef þú brosir til fólks á labbinu eða í metro, frakkar brosa ekki til ókunnugra. Svo eru það löggurnar sem maður sér allsstaðar með risastóru byssurnar, það sérðu ekki á Íslandi og ég verð alltaf mjög smeyk þegar ég labba framhjá þeim.
Hvað einkennir heimamenn?
Þeir eru virkilega dónalegir það er númer eitt, tvö og þrjú. Held ég geti nánast talið á fingrum annarar handar hversu marga kurteisa frakka ég hef hitt og ég er í skóla með 3000 frökkum. Nei ég segi svona en það mun um leið breytast þegar ég mun kunna einhverja frönsku, það er nefnilega málið að frakkar eru kurteisir við þá sem kunna frönsku. Frakkar drekka líka mikið vín og oftar en ekki sér maður einhvern labba með baguette sem eru svo sem engar glænýjar upplýsingar en ég fíla þá menningu mjög mikið en óttast um lifrina mína.
Helstu kostir borgarinnar?
Helsti kosturinn verður held ég að vera fegurðin, þú ferð ekki út úr húsi án þess að sjá eitthvað fallegt, hvort sem það er bygging, föt, náttúran eða jú karlmennirnir ;). En án alls gríns þá er þetta yndisleg borg og svo margt að sjá.
Helstu gallar borgarinnar?
Þeir eru nokkrir en örugglega eitthvað sem þú getur fundið í flestum stórborgum. T.d. betlarar, vasaþjófar og aðrir glæpir. En eitthvað sem er ekki beint galli en fer rosalega í taugarnar á mér er háannatíminn í metro, en það er ákveðið stríð. Þú þarft að vera svo fljótur að henda þér inn áður en hinir hundrað gera það líka og ef þú ert ekki góður í að troða þér þá ættiru bara að sleppa þessu, sem ég hef þó nokkrum sinnum gert.
Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Já ætli það ekki. Ég átti mjög erfiða byrjun þar sem ekkert var að ganga upp hjá mér en eftir að það leystist þá er ég byrjuð að geta séð það meira og meira fyrir mér. París er samt draumaborg og ég mæli með að allir heimsæki hana allavega einu sinni ef ekki oftar!
UMMÆLI