NTC

Borgin mín – New York

Borgin mín er liður á Kaffinu. Hér komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Ninnu Rún Pálmadóttir, akureyring og kvikmyndagerðarnema, til þess að segja okkur frá lífinu í New York.

Ninna Rún Pálmadóttir.

Ninna Rún Pálmadóttir.


Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég komst inn í mastersnám í kvikmyndagerð í Tisch school of the Arts í NYU sem er draumaskólinn minn svo það var ekki spurning um neitt annað. Síðan er New York lífið bara algjör klisja síðan Friends og SATC, nema það er pínu sárt þegar maður fattar hversu óraunhæft það er að taka frá sama sófann á kaffihúsi og fara á 1 deit á viku.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Ég bý í lítilli og kósý tveggja svefnherbergja íbúð í Crown Heights í Brooklyn með einum meðleigjanda. Leigan er töluvert dýrari en heima. Þú getur alveg verið heppinn og sloppið ansi vel ef þú færir þig fjær Manhattan með góðri samgönguleið en þetta er nokkrum tíu þúsund köllum dýrara en á Íslandi. Ég hef samt heyrt um fólk sem dettur inn á herbergi á góðum stað á ca. 800$ á mánuði.Lít samt á það sem urban myth þangað til ég finn þann díl sjálf! Ég er annars í árs sublet (hvað í ósköpunum er íslenska orðið fyrir það?). Ég tók sem sagt við herbergi fullbúið húsgögnum frá stelpu sem fór í skiptinám til Boston, þannig ég þarf að finna eitthvað nýtt og spennandi næsta haust. Sublet er mjög vinsæll leiguvalkostur í NY.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Sko, já eiginlega og nei ekki beint. Þetta er voðalega svipað, en það fer algjörlega eftir því hvernig lífi þú lifir. Ef þú ert á milljón í skóla og vinnu og með 30-40 mín. samgöngu alla daga, þá er mjög auðvelt að eyða töluverðum pening í mat og kaffi on the go. En ef þú ert t.d. nemandi í háskóla þá fylgir því líka oft fríðindi eins og að komast frítt í skólaræktina, bíó-passar og fleira í þeim dúr. Það getur samt verið ódýrara að versla fyrir heimilið hér en heima (super sizes af alls konar toga) ef þú ferð í réttu búðirnar! Þetta er allt spurning um skipulag! Nesta sig, H&M og Uber pool! (einmitt)

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?
Time’s Square er miðpunktu gerviþarfa neyslu og ofurtúrisma, þó leikhúsmenningin sé skemmtileg. Ég fer ekki á TS nema tilneydd. Ef þér er illa við gargandi fjölmenni: ekki. Ég var í tökum í Brooklyn Bridge Park um daginn sem er við ána og með fallegt útsýni af brúunum tveimur og sá að það er vinsæll útsýnisstaður. Dumbo hverfið í Brooklyn er vinsælt. Central Park klassískur (finnst samt Prospect Park meira næs). MoMA og the Met eru vinsæl söfn og Highline gönguleiðin. Túristabæklinga dæmi. Allt skemmtilegir staðir að heimsækja. Ég á síðan sjálf eftir að fara upp í Empire State og skoða ground Zero, labba Brooklyn brúna og  reyna að skauta á Rockerfellar Center. Ég flutti fyrir þremur mánuðum! Er bara rétt að byrja að grafa mig í gegnum þessa risa maskínu en fór samt fyrir stuttu í alvöru Ameríska menningarferð: gekk 5th Avenue frá garðinum og beint á McDonalds á Time’s Square. Ég fékk lúxussæti við gluggann sem snéri út á götuna – mannlífs útsýnis túr fyrir kvikmyndahandrit. Það var hræðilegt.

Ninna Rún býr í New York.

Ninna Rún í New York.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Það er erfitt að finna leyndarmál í svona hype-aðri borg (mamma er fyrrum íslenskukennari og mun hætta að tala við mig þegar hún sér þennan pistil). Brooklyn Bridge Promenade er gönguleið með dásamlegu útsýni yfir Manhattan og fyrir áhugasama um falleg húsnæði sem kosta milljónir dollara. Sérlega fallegt við sólarupprás. Það er veitingastaður/bar sem heitir Brooklyn Barge og er í Greenpoint í Brooklyn við East river. Í haust, þegar það var heitt, var þetta frábær staðsetning til að hitta hóp af vinum, staðurinn sjálfur er að hluta til á bát á vatninu og þú ert með upplýsta Manhattan sem útsýni. Það er nauðsynlegt að gefa sér tíma í að fara í Strand bókabúðina rétt hjá Union Square. Það er bókabúð sem er búin að  vera til mjög lengi og er á nokkum hæðum. Þar geturðu fundið allt milli himins og jarðar. Síðan skilst mér á Nitehawk cinema í Williamsburg sé algjört möst fyrir bíó nörda. Ég er enn að finna tímann til að fara þangað, meira veit ég ekki. Síðast en ekki síst, fyrir Rocky Horror Picture show aðdáendur þá er miðnætur sýning af henni sýnd ALLAR helgar í Cinepolis í Chelsea, með leikurum að leika senurnar fyrir framan skjáinn. Algjör snilld.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Akkurat núna:
Kaffihús: La Maison du Croque Monsieur a E13th, cafe MUD a E9th, La Colombe Coffee Roasters a 270 Lafayette og little Zelda í hverfinu minu á Franklin Avenue.
Veitingastaðir: BOKA er korean staður á st.Marks, café Orlin er í uppáhaldi á st.Marks líka.
Ef þú vilt góðan borgara (sérstaklega grænmetisborgara) þá er BareBurger út um alla borg og mjög gott.
Sushi aðdáendur: Blue Ribbon! Besta pizzan (þá er ég ekki að tala um klassískan slæsustaði sem eru út um allt) Emmy’s Square í Williamsburg.

– Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Maður hefur yfir fáu að kvarta sem íslendingur að flytja til enskumælandi lands… Ég þyrfti samt að læra spænsku líka, það kæmi sér vel.

Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst?Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Það eru of… margir… möguleikar… af öllu. Verandi valkvíðabarn þá endaðið ég í fósturstellingu út í horni í Trader Joe’s þegar ég fór fyrst að versla í matinn. Það sem við á Íslandi þekkjum sem fátækt og ströggl er ekkert í samanburði við það sem sumt fólk lifir við hér. Ég mun forðast að nota orðið ,,fátækur námsmaður“ aftur. Það á bara ekki við. Ef þú skildir ákveða einn daginn að fara út og vera í nærbuxunum þínum utan yfir buxurnar, syngjandi Beyoncé, þá er í alvörunni öllum skítsama. Fólk hefur séð allt. Svo eru töluvert minni líkur á að rekast, illa til hafður, á fyrrum elskhuga. Sem er alltaf mikill kostur.

– Hvað einkennir heimamenn?
Ég ætla að tala hér um New York búa, þar sem ég hef ekki mikla reynslu af Ameríku kúltúrnum utan borgarinnar, veit bara að stór partur landans kaus Donald Drumpf sem forseta. Fólk er mjög upptekið. Og það sem einkennir flesta er þrælskipulögð rútína. Flestir þurfa að hafa rútínu til að nýta daginn almennilega. Þú ákveður hvar þú vilt morgunkaffibollann þinn, hvaða lestarleið er hröðust, á hvaða tíma er best að versla í búðinni, hvaða líkamsrækt er næst þér og vinnustaðnum/skólanum. Gerir lífið mun auðveldara, sérstaklega ef þú notar hálftíma + í samgöngur alla daga.

Ninna Rún við upptökur í New York,

Ninna Rún við upptökur í New York,

– Helstu kostir borgarinnar?
Þú getur brallað allt sem þér dettur í hug. Möguleikarnir eru án djóks endalausir. Borgin er líka svo hröð og spennandi að maður á bágt með að vera latur eða fá skammdegisbömmera (það er líka sólarupprás á morgnana allan ársins hring, takk fyrir pent). Það er bara beisik þriðjudagur að stoppa á lestarstöðinni að hlusta á sturlað brass band eða standa fyrir aftan harmonikkuleikara í lestinni. Þetta er hvetjandi borg sem á augnabliki fyllir mann innblæstri á grámyglu degi.

Helstu gallar borgarinnar?
Verandi í burtu frá okkar fallega landi með fjöll og firði, smábæi og úthverfi – getur verið strembið að venjast því að hafa svona lítið pláss. Sérstaklega á Manhattan, það er getur verið ofsalega troðið. En maður lærir að láta fara eins vel um sig og hægt er. Ég er t.d. næstum farin að geta lagt mig standandi í morgunlestinni. Hæfileikar sko. Síðan er stundum svo mikill hávaði að ég meika það varla. Þess vegna er gott að búa í Brooklyn og skipta um gír eftir daginn.

– Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Ég er á stuttum tíma búin að kolfalla fyrir þessari borg. Eftir að ég lærði betur á allt, samgöngur og hverfin fór mér að finnast ég fyrst tilheyra henni – það er frekar góð tilfinning. Litlu hlutirnir: þegar maður byrjar að rata án google maps, búa sér til rútínu, þekkja uppáhaldsstaðina sína og allt í einu man maður: já djók, ég bý í New York. Mér líður afskaplega vel að búa einhversstaðar þar sem ég get endalaust farið úr húsi og upplifað alls konar list og menningu. Það að hafa svona gríðarstóran stað að njóta þess að grafa sig í gegnum og kynnast endalaust betur er snilld. Svo já, ef rétt vinnu tækifæri gefst eftir útskrift gæti ég alveg hugsað mér að staldra hér við eða… hoppa yfir til Los Angeles. Hver veit. Maður veit aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér.

Hægt er að fylgjast með Ninnu og upplifun hennar í New York á instagram síðu hennar: film.of.ninna

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó