Borgin mín – Madríd

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við ræðum við fráflutta Akureyringa um borgir sem þau búa í víðsvegar um heiminn. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.
Guðmundur Oddur Eiríksson er ungur Akureyringur búsettur í Madríd þar sem hann stundar skiptinám við IE háskólann.

Guðmundur Oddur ásamt vinum í Madríd.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég flutti til Madríd í lok ágúst og verð hér fram í desember. Ástæða þess er að ég er í skiptinámi við IE University. Fyrst og fremst leist mér vel á skólann en það var líka eitthvað við Madríd sem heillaði mig, að komast í heitara loftslag og breyta aðeins til.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? Er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég deili íbúð með fjórum öðrum skiptinemum úr IE. Íbúðin er mjög miðsvæðis, nálægt Sol sem er eitt af helstu kennileitum Madríd. Leiguverðið hér er almennt ódýrara en heima á Íslandi, en það fer samt eftir því í hvaða hverfi. Hér er ég að borga aðeins minna heldur en heima fyrir sambærilega íbúð.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Alls ekki. Það er í rauninni allt ódýrara hér en á Íslandi. Matur er að minnsta kosti 50% ódýrari heldur en heima, sérstaklega landbúnaðarvörur. Þá er mjög ódýrt að ferðast innan borgarinnar. Allir undir 25 ára geta sótt um kort sem gefur þeim aðgang að öllum metro-kerfum borgarinnar sem og strætóum, fyrir aðeins 20 evrur á mánuði. 

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki sinnt túrismanum eins mikið og ég hefði kannski ætlað mér. Helstu túristastaðirnir eru sennilega Puerta Del Sol og Plaza Mayor, Park Retiro og Konungshöllin og garðarnir í krinum hana. Hins vegar er mjög skemmtilegt að skoða mismunandi hverfi, því þau eru flest nokkuð frábrugðin hverju öðru. Svo eru einnig áhugaverðir staðir rétt utan við Madríd, til að mynda Toledo og Segovia, og auðvelt að ferðast þangað. Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma Santiago Bernabeu.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Temple of Debod er sennilega besti staðurinn í Madríd til þess að horfa á sólsetur. Það er kannski ekki staður sem fáir vita af, en þó örugglega ekki margir túristar sem vita af honum endilega.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Ég er mjög hrifinn af stað sem heitir Sumo. Það er frekar fínn asískur veitingastaður sem framreiðir sushi og ýmis konar kjöt- og kjúklingarétti. Maður pantar sér í rauninni þrjú “round,” svo ég leyfi mér að sletta aðeins, þar sem hver einstaklingur fær fimm rétti í hvert skipti. Ég held að ég hafi aldrei farið með neinum þangað sem hefur klárað allan matinn. Fyrir þetta borgar maður 18 evrur.

Jólin eru haldin hátíðleg í Madríd.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Því miður, þá kann ég mjög takmarkaða spænsku. Í rauninni enga. Það er erfitt að ná þessu tungumáli á einungis fjórum mánuðum en ég get samt bjargað mér á veitingastöðum og þessu helsta. Ég hef þó lent of oft í þeirri stöðu að vera að tala ensku við manneskju, sem skilur enga ensku, og manneskjan að tala spænsku við mig, sem ég augjóslega skil ekki heldur. Það er mjög skrítið.

Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Ég viðurkenni alveg að ég varð var við örlítið menningarsjokk. Það er öðruvísi að búa í landi þar sem er sól fram í nóvember, fólk er almennt hressara og andrúmsloftið er öðruvísi. Sá hluti menningarinnar sem ég hef átt erfiðast með að aðlagast er hversu seint Spánverjar borða. Þeir vilja helst bara borða kvöldmat rétt áður en þeir fara að sofa, sem ég hef ekki ennþá náð að stimpla mig inn á.

Hvað einkennir heimamenn?

Spánverjar eru almennt mjög hressir og með gott viðmót. Hins vegar verður að Spánverjar eru almennt ekkert að stressa sig á hlutunum. Flest þjónusta er yfirleitt hægari og tekur lengri tíma en heima á Íslandi.  

Helstu kostir borgarinnar?

Það er í rauninni hvað það er margt í boði. Einnig er mikill kostur hvað borgin er þannig séð lítil miðað við stórborg. Metro kerfið er mjög skilvirkt, sem gerir það að verkum að það er stutt í nær alla afþreyingu.

Helstu gallar borgarinnar?

Fyrsta sem mér dettur í hug er að það tala mjög fáir ensku. Fyrir vikið getur verið ansi erfitt að eiga samskipti.

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Já, ég gæti hugsað mér að stunda framhaldsnám hér. Ég er þó ekki viss um að ég gæti búið hér til margra ára. 

Sambíó

UMMÆLI