Borgin mín – Kuala Lumpur

Borgin mín er liður á Kaffinu. Hér komum við til með að ræða um borgir víðsvegar í heiminum og Akureyringa sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði.  Að þessu sinni fengum við Egil Örn Gunnarsson 24. ára Akureyring til að segja okkur frá Kuala Lumpur í Malasíu.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég er í starfsnámi hérna sem ég sótti um í gegnum skólann minn í Danmörku. Flestir í skólanum taka sitt starfsnám í Danmörku eða fara til heimalandsins. Þeir sem vilja standa í því geta í raun farið hvert sem er í heiminum, svo lengi sem þeir eru ráðnir til vinnu og þeir reddi sér húsnæði. Þegar ég og vinur minn í bekknum komumst að því byrjuðum við strax að leita að áhugaverðum stöðum til að fara til.
Það eru margar ástæður fyrir að Kuala Lumpur varð fyrir valinu. Númer eitt var samt sennilega það að hér er enska töluð nánast alls staðar. Ég var ekki alveg tilbúinn að fara eitthvert þar sem að það væri áskorun að kaupa sér jafn sjálfsagðan hlut og vatn vegna tungumálaörðugleika. Valið stóð á milli þess að koma hingað eða til Singapore en vegna þess að allt kostar svona sirka tífalt meira þar en í Malasíu varð Kuala Lumpur ofan á í valinu.

Ég var búinn að eiga það inni að ferðast til Asíu í langan tíma þannig ég sá þetta líka sem tækifæri til þess að geta ferðast eitthvað um í öllum fríum og eftir starfsnámið.

Að ferðast um Asíu í gegnum Kuala Lumpur er hentugt og ódýrt, þökk sé Air Asia.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég bý í blokkaríbúð ásamt kærustunni minni og tveimur spænskum vinum mínum úr sama skóla. Hverfið heitir Chow Kit og er miðsvæðis, ekki nema 10-15 mínutur í City Central (KLCC). Fyrirtækið sem ég vinn hjá er bara neðar í götunni, ég var heppinn með það.

Leigan er ódýr miðað við Ísland og miðað við að vera í stórborg. Blokkin okkar er líka með öryggisgæslu 24/7 – mömmu minni til mikillar gleði, líkamsrækt, sundlaug, tennisvöll og svo er lítil búð með öllum nauðsynjum og Cafetería þar sem máltíðin kostar um 200 íslenskar krónur.

Það er í raun allt til alls gert svo að maður þurfi varla að yfirgefa blokkina, ef maður kærir sig ekki um það.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Nei, þvert á móti.

Það er hægt að finna allt mjög ódýrt og þá mat sérstaklega.

Ég er vanur að borða hádegismat í Cafeteríunni og svo kvöldmat á einhverjum stað nálægt blokkinni. Það skortir ekki staði til að velja um því hér er verslunarmiðstöð við hliðina á ef ég vill vestrænan mat og svo er alls konar úrval af mat í götunni.

Þessar tvær máltíðir kosta yfirleitt um eða undir eitt þúsund krónur, samanlagt. Ég hef ekki eldað einu sinni síðan ég kom hingað í Janúar.

Það er ekkert mál að finna sér dýran mat líka auðvitað en almennt getur þú sloppið mjög vel.

Við gripum okkur einmitt við það að hneykslast á því að borga 320 ringgits eftir forrétt, aðalrétt, eftirrétt og drykki fyrir fjórar manneskjur á veitingastað í Pavillion. Um leið og ég reiknaði hvað það var í íslenskum krónum skammaðist ég mín. Það eru um 8 þúsund krónur, deilt með fjórum.

Samgöngur í borginni eru svo ofan á þetta fáránlega ódýrar, sérstaklega ef maður er aldrei einn á ferðinni og deilir kostnaði. Ég er svakalega góður við mig hvað þetta varðar og nota eiginlega aldrei ódýrasta kostinn, sem er lestin. Ég nota GrabCar eða Uber nánast daglega. Fargjald frá blokkinni og hvert sem maður vill fara í nálægð kostar á bilinu 5-30 ringgit (100-800 krónur).

Það eina sem er dýrt hérna er áfengi, en það stangast á við opinber trúarbrögð(Islam) að drekka áfengi.

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Það er svakalegt flæði af túristum hérna í borginni.

Staðirnir þar sem þú finnur allt á kafi í túristum eru td.
Petronas Twin Towers,

Kuala Lumpur Tower,

Batu Caves

Bukit Bitang (Pavillion verslunarmiðstöðin)

KLCC (Suria verslunarmiðstöðin)
KLCC Park

Það virðist vera að það séu ekki meira en 800 metrar í radíus á milli verslunarmiðstöðva og hver önnur þeirra er stærri og flottari en hin.

Svo eru margir staðir og byggingar tileinkaðir bænahaldi. Stærstu eru held ég:
Thean Hou temple, Kínverskt hof

Masjid Negara, sem er aðal Moska Malasíu (National Mosque of Malaysia)

Egill ásamt Þórdísi kærustu sinni við Petronas turnana

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Ég á engan leynistað en ég mæli sérstaklega með tveimur stöðum sem ég hef gaman af.
Petaling street í Chinatown. Það er mjög gaman að rölta þarna í gegnum markaðinn og skoða. Ég elska svona götumarkaði.

Svo er það Jalan Alor food street. Mikið líf á kvöldin og sérstaklega um helgar. Maður getur fundið alls konar góðan mat og viðbjóðslegan reyndar líka þegar maður labbar þarna í gegn. Maður kemur til með að finna sirka hundrað nýjar lyktir líka. Kærastan mín er mjög matvönd og ég hef því einstaklega gaman af því að fara með hana þarna í gegn.

Svo mæli ég reyndar líka með tveimur stöðum fyrir þá sem vilja útsýni fyrir peninginn.

Elysium bar and terrace og svo sundlaugin í Regalia (Regalia infinity pool)

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Það er Indverskur veitingastaður við hliðina á blokkinni minni sem ég veit ekki einu sinni hvað heitir. Það er mikið af stöðum sem þú labbar bara inn á af götunni og pælir ekkert í því hvað þeir heita.
Þessi indverski staður býður upp á Butter Chicken og Naan brauð sem ég er háður.

Ég er svo tíður gestur á Nando’s í Sunway Putra sem er 2 mínutum frá blokkinni.

Þar er líka lítið kaffihús úti á svölum sem heitir Cofibar. Fer lang oftast þangað til að grípa kaffið.

Það er svo kínverskur götustaður úti á horni sem er með sweet BBQ pork. Það er algjört nammi. Ég fæ mér svoleiðis þegar það er treat yourself dagur.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Ég kann sirka 10 orð í malasísku. Hér er enska töluð nánast alls staðar svo það hefur ekki verið neitt vandamál.
Það eina með enskuna hérna er það að sumir innfæddir tala með svo þykkum indverskum eða kínverskum hreim að það er nær ógerlegt að skilja þá. Hef oft lent í því að segja “what” og “sorry” allavega sex sinnum eftir sömu setninguna. Kem alveg til með að lenda í því áfram.

 

Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Það er óhætt að segja það. Menningin hérna er náttúrulega gjörólik því sem maður er vanur frá Íslandi og Danmörku.

Klæðaburður, trúarbrögð, matur, mannasiðir og eiginlega allt sem manni dettur í hug.

Menningin hérna er mjög blönduð og það er eitthvað sem fólk frá Malasíu er stolt af. Það eru sterk menningaráhrif frá Kína og Indlandi, þess vegna blandast trúarbrögð og menning svona saman hérna. Þeir segja sjálfir að þeir hafi sótt það besta úr öllum þessum menningum, eins og alla frídagana og fjölbreytta matinn.
Hér eru langflestir múslimar, enda formleg trúarbrögð landsins.

Þú getur treyst á að heyra allavega nokkrum sinnum bænahald í hátalara nálægt þér yfir vikuna.

Ég er svo mikill áhugamaður um auglýsingar og hér eru allar auglýsingar svo allt öðruvísi en maður er vanur heima. Ég hef svakalega gaman af þeim.

Hvað einkennir heimamenn?

Það er mjög mismunandi eftir því hvar þú ert. Almennt er fólk kurteist hérna, opið og frekar rólegt. Ég held að það sé eitthvað með umferðina og hitann að gera en hér er stundvísi eitthvað sem er ekki í orðabókinni. Ef þú bókar fund klukkan 15:00 er ekkert ólíklegt að viðkomandi komi bara klukkan 16:30. Fólk er alls ekkert að pirra sig á þessu eins og hinn venjulegi Íslendingur myndi gera.
Þegar kemur að því að standa í röðum eða keyra í umferðinni er hins vegar eins og fólkið hérna skipti um persónuleika. Ég lenti í svakalegu flöskuháls ástandi, ef það er rétta orðatiltækið, þegar við biðum eftir lest í Batu Caves eftir Thaipusam. Við fórum í eitthvað sem virtist vera röð en fólk ýtti að og kom úr öllum áttum. Þetta var rosalegt að upplifa. Fólk öskrandi úr öllum áttum og ég hélt að það ætlaði að troðast yfir fólk sem datt í asanum. Á vissum tímapunkti réðum við svo ekkert hvert við fórum. Mannfjöldinn bara bar þig í gegnum hliðið. Fólk er svo ekkert feimið við það að leggja sig á öxlinni þinni eða bakinu þínu í biðröðum. Persónulegt svæði er mun minna en í Evrópu.
Fólk reynir svo eins og það getur að svindla sér í öllum röðum og svínar þvílíkt í umferðinni.

Helstu kostir borgarinnar?

Þó svo að borgin sé risastór að þá er alltaf stutt í allt finnst mér.

Hún er svakalega ódýr miðað við stórborg og svo er fólk frekar afslappað sem er mikill kostur og ekki einkenni stórborgar.

Veðrið hérna er mikill kostur en getur verið erfitt viðureignar líka.

Sem ferðamaður getur þú upplifað marga menningarheima hérna eða haldið þig við kunnulegt vestrænt umhverfi. Það er algjörlega undir þér komið.

Matarúrval hérna er líka gífurlegt.

Helstu gallar borgarinnar?

Umferðin er stærsti gallinn. Það er eins og það sé óskrifuð regla að ef þú átt efni á farartæki á hjólum þá ferðast þú um á því. Lestin er seinasti valkostur.

Fólk sem er að vinna með mér ferðast oft í 3-4 klst í umferðinni á dag og það býr ekki einu sinni það fjarri vinnustaðnum.

Umferðin er líka ofan á það bara stórhættuleg hérna. Ég held að ég fari ekki með neinar fleipur þegar ég segi að flest dauðsföll í Malasíu séu í umferðinni.

Fyrstu vikuna hérna var ég svo eins og algjör græningi og horfði alltaf í vitlausa átt áður en ég fór yfir götuna. Það er nefnilega keyrt á vinstri akrein hér. Muna að horfa í báðar áttir…

Eins mikill kostur og veðrið hérna er að þá er það stundum erfitt á venjulegum degi þegar það er ólíft úti vegna hita. Að þurfa að vera í síðbuxum í vinnunni er oft allt of heitt.

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg? (lokaorð)

Ég held að ég myndi seint setjast hérna að en það væri gaman að heimsækja þessa borg eins oft og kostur er á.
Það er rólegur andi hérna yfir, veðrið gott og ódýrt fyrir Íslending sem gerir þetta að fullkomnum stað til að heimsækja.

Eins mikið og ég elska að geta stokkið út á stuttbuxum og sandölum að þá sakna ég þess að geta klætt mig í fleiri flíkur en þrjár.
Hér fær maður líka ekki soðið brauð með hangikjöti og kókómjólk. Það er dílbreaker.

Ofan á allt er maður líka svo afskaplega langt í burtu frá fjölskyldu og vinum hérna. Lítill átta klukkutíma mismunur frá Íslandi.

Staðurinn sem ég sest að á verður örlítið nær fólkinu mínu.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó