Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir er 17 ára menntskælingur frá Akureyri og nú skiptinemi í Costa Rica. Hún sagði okkur frá bænum sem hún býr nú í, Grecia. Grecia er 16.000 manna fjallabær, staðsettur í miðju landinu í um 45 km fjarlægð frá höfuðborginni San José.
Hvers vegna býrðu í borginni? Og afhverju valdirðu hana frekar en aðrar? Ég er skiptinemi hérna í Costa Rica og hef verið hér í 8 mánuði. Ég hef samt aðeins búið í Grecia í 3 mánuði. Fyrst bjó ég í bæ sem heitir Ciudad Quesada en þar sem upp komu mikil vandamál þar var ákveðið að ég flytti í annan bæ. Ég persónulega valdi ekki bæinn minn heldur gerðu AFS skiptinemasamtökin mín það. Ef ég hefði fengið að ákveða þetta sjálf myndi ég búa á ströndinni Puerto Viejo en það er nægur tími til þess í framtíðinni. Núna nýti ég hvert tækifæri sem gefst til að fara þangað um helgar og njóta þess að liggja á ströndinni og drekka úr ferskri kókoshnetu. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna ég valdi að fara til Costa Rica en það var einhvern veginn alltaf fast í mér og sé ég alls ekki eftir því.
Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? Ég flutti hingað ein án mömmu og pabba og var komið fyrir í húsi hjá bláókunnugu fólki, nýrri fjölskyldu! Þannig virkar skiptinám. Það tók aðeins lengri tíma en til var ætlast að finna fyrir mig góða fjölskyldu og þurfti ég því að flytja tvisvar. Núna er ég hins vegar komin til æðislegrar fjölskyldu og gæti ekki verið ánægðari. Ég bý í úthverfi Grecia sem er u.þ.b. 10 mínútur frá miðbænum en það tekur enga stund að taka strætó. Tico húsin eru allt öðruvísi en húsin á Íslandi og var það klárlega eitt af menningarsjokkum mínum þegar ég kom hingað út. Húsið mitt er í götu sem liggur út frá aðalgötunni og allt í kringum mig búa frænkur mínar og frændur, ömmur og afar. Húsið mitt er eins og flest öll hérna í Costa, máluð í öllum regnbogans litum bæði að innan og utan. Stofan mín er ljósbleik og hvít, eldhúsið er grænt og svefnherbergin blá og appelsínugul. Öryggisins vegna eru flest húsin afgirt. Klósettið er ekki með spegil eða vask og þarf maður því alltaf að þvo sér um hendurnar í þvottahúsvaskinum. Oft vantar gler í gluggana og hægt er að sjá lítil göt í þakinu. Við eigum ekki brauðrist og bakaraofninn virkar ekki. Það sem mér hefur fundist erfiðast er þó að við höfum aðeins jökulkalt vatn í sturtunni. Þrátt fyrir þessa “ókosti” finnst mér mjög gaman að búa í húsinu mínu og er það mjög sérstök og skemmtileg reynsla.
Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Helstu túristastaðir? Grecia er fallegur bær og hér er staðsett ein af vinsælustu kirkjum landsins, Iglesia de la Nuestra Señora de las Mercedes. Hún er helsta aðdráttaraflið hér og er staðsett á torginu eða í garðinum þar sem alltaf er mikið af fólki sama hvaða dagur er. Þar koma saman krakkar sem eru á heimleið úr skólanum, þeir sitja á bekkjunum og spjalla og njóta þess að borða ís í hitanum. Í garðinum sjáum við líka foreldra með börnin sín eða ástfangin kærustupör. Grecia er einnig mjög þekktur fyrir kaffiframleiðslu. Það er hægt að labba hér um allt og sjá endalausa kaffiakra teygja sig í allar áttir. Þegar ég kom hingað til Costa Rica drakk ég ekki kaffi en núna njótum við fjölskyldan þess að drekka kaffibolla á hverjum morgni áður en farið er til vinnu eða í skólann.
Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða? Klárlega! Það er eitt af því sem ég elska við að vera skiptinemi. Maður hefur nægan tíma til að finna bestu og fallegustu staðina. Það er svo frábært að vera með heila fjölskyldu sem hefur alist upp á svæðinu og getur sýnt manni bestu staðina. Fyrstu helgina mína hér í Grecia hjá nýju fjölskyldunni minni fór pabbinn með mér í göngutúr um fallegan skóg þar sem við löbbuðum á milli kaffiakra og týndum ávexti af trjánum í leiðinni. Eftir að hafa labbað í um tvo klukkutíma komum við að fossi þar sem við settumst niður og borðuðum ávextina sem við höfðum tínt. Það góða við þetta er að það vita mjög fáir um þennan stað og því er hann ekki fullur af fólki eins og staðir við marga túristafossa hér í Costa. Fossinn er kaldur en það er fullkomið fyrir heita daga til að kæla sig niður. Hann er ekki mjög stór en vatnið er djúpt þannig að hægt er að stökkva niður af honum og lenda í bólakafi.
Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni? Já! þegar kemur að mat í Costa Rica er ég ekki stærsti aðdáandinn. Baunir og hrísgrjón í öll mál alla daga! Í morgunmat fæ ég Pinto sem er þjóðarréttur Costa Rica. Pinto eru hrísgrjón og baunir blandað saman á pönnu með smá lauk, olíu og graslauk. Hádeigismaturinn er oftast hrísgrjón með kjúlla og í kvöldmat eru síðan aftur baunir og hrísgrjón með kannski smá kjöti. Ticos eru samt mjög stoltir af pintoinu og geta ekki gengið í gegnum einn dag án þess að borða það. Öll kaffihúsin eða veitingstaðirnir sem ég hef farið á sem selja venjulegan mat eru þess vegna í uppáhaldi hjá mér. Ég fer ekki mikið út að borða því fjölskyldan mín er ekki mjög vel stödd fjárhagslega þannig við borðum alltaf heima. Stundum fer ég með hinum skiptinemunum í bænum mínum og þá förum við oftast á ísstaðinn Pops. Hann er í uppáhaldi hjá öllum skiptinemum og förum við oftast til að reyna að kæla okkur niður í hitanum. Uppáhalds tegundin mín er tripple brownie og já þessi ís bragðast jafn girnilega og hann hljómar.
Kanntu Tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku? Heyrðu já! Loksins. Þegar ég kom hingað út kunni ég aðeins nokkurð orð eins og gracias (takk), hola (halló) og sí (já). Ég gat semsagt ekki tjáð mig þótt líf mitt lægi við. Hlutir eins og að segja að ég væri svöng eða að ég þyrfti að pissa þurfti ég að útskýra með höndunum eða leita í google translate. Það hjálpaði mér þó lítið því ég hafði ekki hugmynd um hvernig ég átti að bera orðin fram. Þó að ég kunni spænsku ekki fullkomlega núna þá get ég samt vel talað hana og tjáð mig. Síðan útskýri ég bara á spænsku ef ég man ekki eða veit ekki einhver sérstök orð. Íslenska og spænska eru ekkert lík tungumál! Eina orðið sem hljómar líkt er servíetta en á spænsku er það servilleta. Maður raðar meira að segja öðruvísi saman orðunum í setningar, t.d í staðinn fyrir að segja uppáhalds maturinn minn er segir maður maturinn minn uppáhalds er. Spænska er mjög skemmtilegt tungumál og fallegt en mjög dramatískt. Ticos halda því alltaf fram að það sé erfiðasta tungumál í heimi en ég er ekki svo viss um það.
Einhverjir menningarhlutir sem eru öðruvísi en á Íslandi? Það er hreinlega ALLT öðruvísi en á Íslandi. Hérna eru til dæmis aðal trúarbrögðin kaþólska og þar með er mjög erfitt fyrir samkynhneigða hér í Costa Rica. Sama gildir fyrir kynskiptinga og bara allt sem er ekki eins og “guð vill hafa það” sem er mjög sorglegt að verða vitni af en sem betur fer lagast hugarfar fólks ár frá ári. Fólk “má ekki” sofa saman áður en það giftir sig og fær þess vegna ekki næga fræðslu um getnaðarvarnir og slíkt. Þar af leiðir að næstum önnur hver stelpa á aldrinum 13-18 ára er ólétt eða á barn í skólanum mínum. Flest allar fjölskyldur fara oft í viku í kirkju og síðan er alltaf sex tíma messa á páskunum. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa ekki þurft að fara í þá messu en ég þekki aðra skiptinema sem voru ekki svo heppnir. Í Costa Rica ráða karlarnir ríkjum. Kattarköll og flaut eru mjög algeng þegar labbað er niður göturnar og getur það verið ansi óþægilegt. Kallinn á að vinna fyrir heimilinu á meðan konan þrífur allt og passar börnin. Konan á líka að fylgja reglum mannsins og hefur yfirleitt ekki mikið að segja um ákvarðanir sem eru teknar á heimilinu. Þegar kemur að fatatísku eða tónlist eru ticos mjög á eftir. Fatatískan fyrir mig er hreint hræðileg eða svona Ísland 2012 kannski. Sem skiptinemi hef ég líka kynnst menningunni í Costa Rica frá sjónarhóli hinna skiptinemanna. Sem dæmi má nefna þegar Japanarnir misstu kjálkann niður á maga þegar kennarinn og nemendurnir voru að spjalla saman í tíma. Þeir sögðu að það myndi aldrei gerast í Japan að
kennarinn og nemendurnir væru vinir.
Hvað einkennir heimamenn? Ticos eins og þeir kalla sig eru mjög hjartahlýir, dramatískir og elska kaffi. Ef ég ætti að nota einhver orð til að lýsa þeim væri það “pura vida” (pure life/hreint líf) sem er frasi sem þeir lifa eftir og nota oft á dag. Það er næstum hægt að svara hverri einustu spurningu með “pura vida”. Hvernig hefurðu það? –Pura vida! Hvernig er veðrið? – Pura vida! Ticos lifa mjög tranquilo (rólegum) lífsstíl og finnst flestum best að búa nálægt fjölskyldu og eyða öllum dögum heima í örygginu. Það gæti verið ein af ástæðunum fyrir því að hérna er eðlilegt að búa heima hjá mömmu og pabba alveg til fertugs eða alla ævi. Ticos gjörsamlega elska kaffi og mætti segja að þeir byrji að drekka það strax og þeir koma úr móðurkviði. Til dæmis má nefna litla frænku mína hér sem er þriggja ára. Hún drekkur kaffi alla daga í kaffi tímanum. Ég sagði fjölskyldunni minni frá því að á Íslandi væri börnum bannað að drekka kaffi. Þeim væri sagt að þau myndu þá hætta að stækka. Það gæti kannski verið ástæðan fyrir því að ticos eru vanalega mjög lágvaxnir! Þegar ég flutti hingað tóku allir mjög vel á móti mér og ég eignaðist marga vini strax fyrsta daginn. Allir voru mjög vinalegir og gjafmildir. Fyrsta skóladaginn minn kunni ég ekki ræmu í spænsku en allir voru samt að tala við mig og síðan reyndu þeir að kenna mér að dansa. Hérna kunna allir að dansa og geta allar stelpur og allir strákar hreyft mjaðmirnar eins og Shakira eða jafnvel betur. Vinsælustu dansarnir eru salsa, merengue, kumbia og bachata sem eru allir mjög hressir og rómantískir dansar. Í skólanum kveikja krakkarnir stundum á tónlist í frímínútum og þá byrja allir að dansa saman. Í Costa Rica er ekki mikill metnaður fyrir námi hjá krökkunum og margir byrja ungir að drekka. Gras er líka mjög vinsælt hér og það er mjög erfitt að finna manneskju sem hefur ekki prófað það einu sinni eða oftar á ævinni.
Helstu kostir borgarinnar? Bærinn minn er upp í fjöllunum sem þýðir að stundum er ekki jafn heitt og er á ströndinni. Fyrir lítinn Íslending eins og mig á ég stundum erfitt með að vera alltaf í brennandi hita þannig þegar hitinn fer niður í 18 gráður (kalt í Costa) þá eru það bestu dagarnir. Grecia er í klukkutíma akstursfjarlægð frá höfuðborginni San José sem er mjög gott því allt það mikilvægasta er þar, t.d. Starbucks. Frá San José er síðan hægt að taka rútu hvert á land sem er. Fyrir mig hentar mjög vel að búa nálægt San José en ekki í höfuðborginni sjálfri því hún er ein af hættulegustu borgunum og þar fá stelpur ekki að vera lengi úti á kvöldin. Í mínum bæ er ekki jafn hættulegt og þar fæ ég að vera lengur úti en ég myndi fá í San José.
Helstu gallar borgarinnar? Það eina sem mér dettur í hug er það að Grecia er mjög lítill bær og hér er ekki mikið um að vera. Það rignir frekar mikið, sérstaklega á þessum árstíma, eða alla daga frá sirka 15:00-18:00. Það á að vísu við um alla Costa Rica á þessum tíma ársins.
Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg? Já og nei, ekki til frambúðar en væri örugglega gaman að koma hingað aftur í eitt eða tvö ár því ég er búin að búa mér til ansi gott líf hérna sem verður mjög erfitt að kveðja eftir tvo mánuði. En ef ég flyt til Costa Rica í framtíðinni þá eru 99% líkur á því að ég flytji á ströndina. Sérstaklega Puerto Viejo sem að mínu mati er fallegasti og skemmtilegasti staður í heimi. Costa Rica er æðislegt land og bærinn minn líka. Ég mun klárlega koma hingað aftur í náinni framtíð í heimsókn.
UMMÆLI