Borgin mín – Boston

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við ræðum við fráflutta Akureyringa um borgir sem þau búa í víðsvegar um heiminn. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Sigrún Stella Þorvaldsdóttir býr í Boston þar sem hún stundar fjarnám við viðskiptafræði.

 

Sigrún Stella í Boston.

 

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Ég er að læra viðskiptafræði við Háskóla Íslands og flutti hingað í lok sumars til að stunda nám sem skiptinemi við Lesley University. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að ég valdi Boston. Í fyrsta lagi leist mér vel á skólann og þá áfanga sem viðskiptafræðideildin býður upp á. Skólinn er frekar lítill, einungis 15-30 manns í hverjum áfanga og námið því mun persónulegra en viðskiptafræðin í HÍ. Önnur ástæða er að ég ferðaðist til Boston með fjölskyldu minni þegar ég var yngri og heillaðist algjörlega af borginni. Svo finnst mér ákveðið öryggi að vita af því að ég er aðeins einu 5 tíma flugi frá Íslandi, sem auðveldar mér líka að plata fólk í heimsókn.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég er að leigja herbergi rétt hjá skólanum mínum í Cambridge. Húsið er stórt einbýlishús á fjórum hæðum og við erum nokkur sem leigjum í því. Leiguverðið er almennt hátt í Boston, sérstaklega í downtown Boston, en ég er að borga aðeins minna fyrir herbergið heldur en íbúð á stúdentagörðunum í Reykjavík.

 

Boston tekin af Harvard Bridge.

 

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Ég tel Boston vera frekar ódýra borg miðað við Ísland. Það er sérstaklega ódýrt að fara út að borða og versla föt og annað dót.

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?

Boston er þekkt fyrir sína ríku sögu og í miðborginni er endalaust af fallegum og sögulegum byggingum. Mér finnst alveg ótrúlega sjarmerandi að sjá gömlu kirkjurnar og litlu múrsteinshúsin á milli háhýsanna. Í miðborg Boston er elsti almenningsgarður Bandaríkjanna, Boston Common, og oftast margt fólk á ferli þar. Í Boston Common byrjar Freedom Trail sem er 4 km gönguleið sem leiðir mann með rauðum múrsteinum í gangstéttinni í gegnum Boston að helstu kennileitum borgarinnar. Síðan er Boston/Cambridge þekkt fyrir alla sína flottu skóla eins og Harvard og MIT. Það er mjög vinsælt að skoða Harvard og mikið gert grín að því að meirihluti þeirra sem eru á vappinu í kringum skólann í Harvard peysum eru túristar en ekki nemendur. Boston er líka að sjálfsögðu þekkt fyrir öll sín frábæru íþróttalið og íþróttaleikvangana þeirra Fenway Park og TD Garden. Íslendingar hafa þó í gegnum tíðina aðallega komið hingað til að versla svo ég er viss um að Newbury Street og Prudential Center hringi bjöllum hjá einhverjum.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Isabella Stewart Gardner Museum er mjög fallegt safn sem ég mæli með að skoða.

 

Kaffihúsið TATTE

 

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Max Brenner á Boylston St; góður matur og rugl gott heitt súkkulaði, vöfflur og crepes. Síðan er Legal Seafood klassíkt enda Boston þekkt fyrir góða sjávarrétti. Ég er mikil kaffihúsakona og því erfitt að velja eitt. Akkurat núna er Winter Hill Brewing Company, 3 Little Figs og TATTE í miklu uppáhaldi. Winter Hill Brewing Company er lítið brugghús/kaffihús í Somerville og þar er hægt að fá eitt besta kaffi sem ég hef smakkað og ekki skemmir fyrir að ef vel gengur með lærdóminn er hægt að verðlauna sig með bjór.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Ég hafði litlar áhyggjur af tungumálinu þegar ég flutti út. Ég flaug í gegnum TOEFL prófið enda byrja íslensk börn að læra ensku nánast frá fyrsta orði. Ég taldi mig satt best að segja vera á pari við heimamann en boy, was I wrong. Er búin að lenda í mörgum fyndnum misskilningum og sem dæmi má nefna að ég hélt lengi vel að einn meðleigjandi minn væri fyrrverandi hermaður en hann er í raun dýralæknir (veteran/veterinarian). Slík atvik hafa sem betur fer ekki verið alvarlegri en þetta og tungumálið sannarlega ekki verið nein hindrun.

 

Eitt af kennileitum Boston, Old State House.

 

Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Ég get ekki sagt að ég hafi orðið fyrir miklu menningarsjokki en á frekar erfitt með að venjast mælieiningunum sem Bandaríkjamenn nota. Hugsa ennþá allt í celsíus til að mynda og hef hrætt vini mína verulega með veðurspá næstu daga. Það er þó margt í Bandaríkjunum mjög ólíkt okkar samfélagi, sérstaklega heilbrigðis- og skólakerfið. Ég man að í byrjun annarinnar vorum við í einum áfanga að ræða hvaða fríðindi í starfi skipta okkur mestu máli. Á meðan niðurgreiddur hádegismatur var mér mikið hitamál nefndu flestir samnemendur mínir sjúkratryggingar, eitthvað sem er svo sjálfsagt fyrir mér. Nemendur í Lesley borga rúmlega $1,300 fyrir sjúkratrygginar á önn og síðan $13,150 í skólagjöld.

Hvað einkennir heimamenn?

Heimamenn eru upp til hópa ótrúlega almennilegir, opnir og allir af vilja gerðir til að hjálpa manni. Mér finnst Boston hreimurinn líka einstaklega skemmtilegur þar sem hann er algjör andstæða við minn norðlenska hreim. Heimamenn eiga til að sleppa algörlega R-inu í orðum, meðan ég myndi segja til dæmis „HaRvaRd YaRd“ segja heimamenn „Hahvaahd Yahd“. Þeir nota líka skondna frasa og segja orðið wicked, líkt og við notum orðið mjög, óspart.

 

TD Garden, heimavöllur Boston Celtis og Boston Bruins.

 

Helstu kostir borgarinnar?

Samgöngukerfið í borginni, T-ið, er gott og gerir það að verkum að það er auðvelt að komast á milli staða. Hér er líka alltaf eitthvað um að vera; fyrirlestrar og atburðir á vegum skólanna, tónleikar, listasýningar og áfram mætti lengi telja. Andrúmsloftið er ótrúlega gott og mér finnst frekar „evrópsk“ stemming yfir borginni. Ég elska líka hvað það er mikil íþróttamenning í háskólunum og Boston yfir höfuð. Á hverjum degi eru einhverjir íþróttaviðburðir, hvort sem það eru leikir hjá íþróttaliðum skólanna, leikir hjá atvinnuíþróttamönnunum eða hlaupamót. Svo virðist sem fólk lifi almennt mjög heilbrigðu lífi, ég hef allavegana ennþá ekki farið út úr húsi án þess að mæta að minnsta kosti þrjátíu manns úti að hlaupa.

Helstu gallar borgarinnar?

Umferðin er oft alveg hræðileg, þótt ég finni ekki mikið fyrir því. Ég keypti mér hjól þegar ég flutti út í sumar og nota það eða T-ið til að komast á milli staða. Samnemendur mínir sem keyra í skólann kvarta þó stöðugt yfir umferðinni.

 

Boston Public Garden (styttan sem sést á myndinni er af George Washington)

 

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Algjörlega, mér líður ótrúlega vel hér. Til að byrja með ætlaði ég einungis að vera eina önn en ákvað síðan að lengja dvölina og vera í heilt ár. Ég er einnig að skoða það að fara í framhaldsnám í Boston svo hver veit nema ég endi á því að setjast að til frambúðar.

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó