Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við kynnumst borgum víðsvegar í heiminum og Akureyringum sem eru eða voru búsettir þar. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Í þessari viku segir Pétur Karl okkur frá Berlín þar sem hann býr ásamt unnustu sinni Bryndísi og stundar nám við BIMM University.
Hvers vegna býrð þú í borginni? Af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?
Berlín er í miðri Evrópu, sem þýðir að það er fáránlega auðvelt og ódýrt að ferðast út frá henni. Það þýðir líka að borgin er mikill suðupottur menningarheima sem býr til mjög ferskan blæ og ótrúlega spennandi andrúmsloft fyrir ungt fólk. Tónlistarsenan hérna er til að mynda svo lifandi að það er næstum absúrd. Verðlagið skemmir engan veginn fyrir heldur.
Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? Er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?
Ég bý í 40fm stúdíóíbúð með kærustunni minni, í hverfi sem heitir Neukölln. Við erum mjög heppilega staðsett þar sem að það er stór lestarstöð nánast beint fyrir utan hjá okkur. Við borgum alveg aðeins meira en sumir vinir okkar vegna staðsetningarinnar, en það er þó langt frá því sem við myndum borga fyrir sambærilega íbúð á Íslandi.
Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?
Mjög langt því frá. Síðasta laugardag keyptum við kassa af bjór í hverjum eru 20 hálfs líters flöskur á rétt tæpar 10 evrur. Það eru um það bil 1300 krónur. Þegar við skilum svo kassanum í búðina fáum við rúmar 3 evrur til baka fyrir kassann, og 8 sent á hverja flösku. Það eru sirka 500 krónur.
En internet er hins vegar alveg fáránlega dýrt miðað við heima.
Maður getur ekki fengið allt sem maður vill sagði einhver.
Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar og mestu túristastaðirnir?
Berlín er 800 ára gömul, svo það er af nógu að taka. Sjónvarpsturninn, Brandenborgarhliðið, leifar Berlínarmúrsins og Checkpoint Charlie eru klassískir túristastaðir. Núna eru hins vegar jólamarkaðir út um alla borg sem bjóða upp á glögg og glimmer í tonnatali. Ef við erum orðin mjög þyrst í að heyra íslensku getum við alltaf stólað á að heyra hana öskraða í næsta H&M.
Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?
Ég fór óvart á markað sem félagar mínir í skólanum voru að spila á, en hann er haldinn alla laugardaga á efstu hæð bílastæðahúss einnar verslunarmiðstöðvarinnar í Neukölln. Ég skil ekki hvernig þetta er ekki stærra dæmi en raun ber vitni. Þetta er Klunkerkranich markaðurinn.
Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?
Ég hef mikið verið að vinna með kebab á Bistro Legende, sem er hér steinsnar frá íbúðinni minni. Sá staður er heiðarleikinn uppmálaður og þykist ekki vera neitt annað en hann er. Mönnunum sem reka staðinn finnst við svo innilega asnaleg að tala ekki almennilega þýsku að þeir lauma stundum gömlum frönskum í kebabið okkar. En okkur er í mun að versla í heimabyggð, svo við höldum tryggð okkar við BL.
Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?
Þetta er allt að koma, en ég held ég þurfi að demba mér á þýskunámskeið þar sem skólinn minn er enskur og stærstur hluti fólksins sem ég umgengst talar ensku. En ég get beðið um kaffi á þýsku eins og enginn sé morgundagurinn.
Varstu var/vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?
Ef maður talar ekki of hátt þá tekur enginn eftir manni, það er öllum sama hvernig þú klæðir þig, það er alltaf einhver skrítnari í svona 50 metra radíus. En ef maður talar of hátt á veitingastöðum má maður eiga von á nokkrum hrikalega stingandi augnaráðum. Það má reykja inni á flestum börum og það er ekkert til sem heitir þjónustulund í Þýskalandi.
Hvað einkennir heimamenn?
Berlínarbúar koma allsstaðar að, þetta er ákaflega fjölbreyttur hópur fólks og erfitt að benda á atriði sem einkennir alla. En sama hvert maður fer, ef maður spyr hvort manneskjan tali ensku er svarið það sama: „a little bit“. Þessi þrjú orð koma alltaf þaulæfð úr munni þess sem svarar, sama þó augljóst sé að manneskjan tali reiprennandi ensku.
Það kemur mér líka stöðugt á óvart að eini þjóðverjinn í bekknum mínum mætir alltaf of seint, sem ég hélt að væri dauðasynd hér í landi.
Helstu kostir borgarinnar?
Það er Kebab og bjór er eitthvað sem væri óheiðarlegt af mér að nefna ekki. En annars er samgöngukerfið hérna til fyrirmyndar og mér líður aldrei jafn mikið eins og ofdekruðum króga og þegar lestinni seinkar um 5 mínútur og ég stend sjálfan mig að því að hnussa í pirringi mínum á óskipulagi veraldarinnar.
Helstu gallar borgarinnar?
Það er ekki til góð mjólk hérna. Það er ein týpa sem ég fann sem er allt í lagi, en hún er ekki góð. Dominos í Berlín er líka eitthvað það versta sem til er. Ég skil ekki hvaða metnaðarleysi það er hjá þessari alþjóðlegu keðju að leyfa framleiðslu á þessu hræðilega ostabrauði sem þeir kalla pizzu hér í borg, á meðan þeir komast svona ótrúlega nálægt hinni fullkomnu flatböku á Íslandi. Ég skil þetta ekki.
Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?
Ef Berlínarbúar taka sig saman í andlitinu og byrja að flytja inn góða mjólk og skal ég glaður búa hér að eilífu. Ég hvet hið góða fólk hjá Örnu til þess að líta á málið.
UMMÆLI