NTC

Borgin mín – Basel

Borgin mín er liður á Kaffinu þar sem við ræðum við fráflutta Akureyringa um borgir sem þau búa í víðsvegar um heiminn. Með þessum lið vonumst við til þess að kynnast hinum ýmsu borgum enn betur og einstaklingunum sem þar búa. Hefur þig alltaf langað til að flytja erlendis en veist ekki hvert? Þá gæti borgað sig fyrir þig að fylgjast með þessum þræði. Í dag segir Brynja Dögg Sigurpálsdóttir frá lífinu í Basel í Sviss þar sem hún stundar nám við ETH tækniháskólann.

Hvers vegna býrð þú í borginni? Og af hverju valdirðu hana frekar en aðrar?

Það var eiginlega algjör tilviljun að ég endaði í Basel. Þegar ég sótti um Mastersnám í ETH, sem er vel þekktur tækniháskóli í Zürich, hafði ég ekki hugmynd um að þeir væru með deild í Basel. Eftir að ég fékk inngöngu komst ég hinsvegar að því að námsbrautin er kennd í samstarfi milli ETH, University of Zürich og University of Basel. Möguleikarnir eru mun meiri hér í Basel þar sem flestir prófessorarnir við deildina mína hafa aðsetur og rannsóknarstofur í Basel og einnig eru höfuðstöðvar margra þekktra líftækni fyrirtækja hér, til dæmis lyfjafyrirtækjanna Roche og Novartis.

Í hvernig húsnæði býrðu og hvar? (Stúdíóíbúð, herbergi, miðsvæðis, úthverfi) Og er það dýrara en að leigja heima á Íslandi?

Ég leigi með tveimur stelpum frá Sviss og Þýskalandi í eldgömlu og krúttlegu húsi á mjög góðum stað í Basel. Beint á móti húsinu mínu er “Biozentrum” sem er líffræðibygging háskólans í Basel og er ég í nokkrum fyrirlestrum þar. Ég er svona 10 mínútur að labba niður í miðbæ og 5 mínútur að ánni Rín. Almennt er leiguverð svipað og á Íslandi en ég hugsa að ég borgi aðeins lægri leigu en ég myndi gera fyrir svipaða íbúð heima.

Er dýrt að lifa í borginni miðað við Ísland?

Það er alls ekki ódýrt að lifa í Sviss en miðað við gengi er þetta nokkurn veginn á pari við Ísland. Basel er þétt upp við landamæri bæði Þýskalands og Frakklands og komst ég fljótt upp á lagið með að hjóla annarslagið yfir til Þýskalands til að versla í matinn á helmingi lægra verði.

Hver eru frægustu kennileiti borgarinnar? Mestu túristastaðirnir?


Ég viðurkenni að ég er ekki alveg á sama menningarleveli og þessi borg og á enn eftir að skoða mjög margt. Borgin er þekkt fyrir listir og arkitektúr og hér eru margar þekktar byggingar og söfn sem ég á enn eftir að heimsækja, til dæmis Kunstmuseum Basel og Naturhistorisches Museum.

Frægasta kennileiti borgarinnar er án efa áin Rín sem rennur í gegnum miðja borgina. Kirkjan Münster stendur á hæð við ánna og við hana er mjög vinsæll túristastaður þar sem þú hefur gott útsýni yfir borgina.  Roche turninn setur líka svip sinn á borgina en það er hæsta bygging í Sviss. Það er um 4 mánaða bið að komast á efstu hæð turnsins en þar sem þetta er vinnustaður fjölda fólks er reynt að halda streymi túrista í lágmarki.

Basel er líka frægt fyrir gott fótboltalið FC Basel og eru heimamenn mjög stoltir af liðinu. Það er eiginlega skylda fyrir fótboltaáhugamann sem heimsækir Basel að kíkja á St. Jakobs Park og horfa á liðið spila, stuðningsmennirnir eru mjög hressir og það er alltaf hægt að treysta á góða stemmingu.

Er einhver staður í borginni sem fáir vita af, en nauðsynlegt er að skoða?

Mér dettur helst í hug Petersplatz, sem er torg fyrir utan aðalbyggingu háskólans í Basel og þar er haldinn flóamarkaður flesta laugardaga frá mars og fram í október. Þar er svipuð stemming og í Kolaportinu heima og mjög gaman að rölta um og skoða. Á haustin er vetrarhátíð sem heitir Herbtsmesse og þá er nokkurskonar matarmarkaður á þessu sama torgi þar sem heimamenn selja  allskonar Svissneskt góðgæti en einnig heimagerða hluti. Uppáhaldið mitt á þessum markaði er Magenbrot sem er einhverskonar súkkulaði húðað brauð með piparkökubragði.

Uppáhalds veitingastaður/kaffihús í borginni?

Það er frekar dýrt að fara út að borða hérna og því hef ég ekki prófað marga staði. Uppáhalds veitingarstaðurinn er samt án ef Margherita, ítalskur staður sem selur hugsanlega bestu pizzur sem ég hef smakkað! Einnig er mjög góður grænmetisstaður sem heitir Tibits. Þar er boðið upp á hlaðborð með ýmsum grænmetisréttum sem breytast daglega.

Kanntu tungumálið? Hvernig er tungumálið í samanburði við íslensku?

Ég er því miður frekar slök í þýskunni en hér er töluð sviss-þýska sem getur verið mjög breytileg eftir borgum og jafnvel borgarhlutum. Það getur verið mjög flókið að reyna að þýða skilaboð á sviss-þýsku þar sem það er enginn sérstakur ritháttur og hver og einn skrifar eins og honum hentar. Ég er þó farin að skilja ýmislegt og það kom mér á hve mörg orðin eru svipuð og dönsku eða íslensku orðin. Hér skilja líka flestir og tala frönsku en þrátt fyrir að hafa lært frönsku í MA kann ég óþægilega lítið.

Varstu vör við eitthvað menningarsjokk þegar þú fluttir fyrst? Einhver hluti menningarinnar sem er svo gjörólíkur þeirri íslensku?

Í rauninni ekkert sem hægt er að titla sem menningarsjokk, flest er mjög svipað og heima á íslandi. Ég mun þó seint venjast því að nemandinn við hliðina á mér í tíma dragi upp vasaklút og snýti sér rösklega í miðjum fyrirlestri eða að í miðjum fótboltaleik dragi stelpan sem ég er að dekka vasaklút upp úr sokknum, snýti sér og stingi honum aftur ofan í sokkinn. Heimamenn sjá ekkert athugavert við þessa hegðun en finnst hinsvegar ógeðslegt ef einhver vogar sér að sjúga upp í nefið.

Hvað einkennir heimamenn?

Þeir sem ég hef hitt eru allir mjög vinalegir og indælir. Flestir eru mjög forvitnir um Ísland og hafa mikinn áhuga á að vita hvernig hitt og þetta er sagt á íslensku og hvað við borðum dagsdaglega. Ég hef ekki enn sagt föðurnafnið mitt án þess að fólk reki upp stór augu og forvitnist um nafngiftir á Íslandi.

Helstu kostir borgarinnar?

Í fyrsta lagi virkar borgin mun minni heldur en til dæmis Reykjavík þrátt fyrir að íbúafjöldi sé hærri en í Reykjvík. Ég er til dæmis aldrei lengur en 10-15 mín á hjóli á milli staða innan borgarinnar og einnig eru almennings samgöngur mun betri en á Íslandi. Í öðru lagi er staðsetningin frábær þar sem borgin liggur þétt upp við landamæri bæði Þýskalands og Frakklands og því fjölbreyttir staðir að heimsækja í stuttri fjarlægð. Síðast en ekki síst held ég að hér séu miklir atvinnumöguleikar og mikið af spennandi tækifærum, sérstaklega í líftækni, efnafræði, lyfjafræði og slíku.

Helstu gallar borgarinnar?

Jólabarnið í mér er búið að bíða spennt síðan í byrjun nóvember eftir að sjá Basel í jólabúning og nú í lok nóvember er enn frekar rólegt yfir skreytingum í heimahúsum. Það er þó loksins búið að kveikja á ljósunum í miðbænum og opna jólamarkaðinn. Ég sakna líka smá snjósins heima en í Basel kemur nánast enginn snjór, sem margir myndu kannski telja kost frekar en galla.

Gætirðu séð fyrir þér að setjast að til frambúðar í þessari borg?

Mér líður rosalega vel í Basel en ég er nokkuð viss um að mig langi að búa á Íslandi í framtíðinni. Ég er þó ekkert endilega að drífa mig heim og get alveg hugsað mér að vinna hér í nokkur ár að námi loknu.

 

Sambíó

UMMÆLI

Sambíó