Borgarhólsskóli sigurvegari í Fiðring 2024

Borgarhólsskóli sigurvegari í Fiðring 2024

Það var rífandi stemning í HOFI á miðvikudaginn var en þá fór Fiðringur á Norðurlandi fram í þriðja sinn.  Í ár tóku níu skólar þátt og það var frábært að sjá ungmennin blómstra á sviðinu í leik, dansi, söng og hljóðfæraleik. Umfjöllunarefnin sem þau völdu sér voru ekkert léttmeti en þeim liggur greinilega margt og mikið á hjarta.

Sigurvegari 2024 er Borgarhólsskóli, í öðru sæti lenti Oddeyrarskóli (í þriðja sinn!) og í þriðja sæti lenti Glerárskóli.

Kynnarnir Egill Andrason og  Helga Salvör Jónsdóttir héldu uppi góðu stuði milli atriða og virkjuðu áhorfendur í söng og spurningar og prumpukeppni! 

Krakkarnir kusu lagið Skína með Prettiboitjokko sem Fiðringslagið 2024 og hann ásamt Gústa B mætti á svæðið og tryllti lýðinn í dómarahléinu.  Í dómnefnd sátu Marta Nordal fráfarandi leikhússtjóri, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir dansari og kennari á sviðslistabraut MA og Guðmar Gísli Þrastarson fulltrúi ungmennaráðs Akureyrar. Ný verðlaun voru kynnt til sögunnar í ár fyrir góða, skemmtilega eða óvænta notkun á íslenskunni og hlaut Oddeyrarskóli þau í ár. Sérlegur dómari fyrir þessa nýju viðurkenningu var Eyrún Huld Haraldsdóttir íslenskukennari í MA.

Helena Eydís Ingólfsdóttir varaformaður SSNE afhenti farandbikar Fiðrings en SSNE hefur tryggt fjármagn fyrir Fiðring næstu tvö árin.

Verkefnastjórar Fiðrings eru strax farnar að hlakka til Fiðrings 2025.

VG

UMMÆLI

Sambíó